Færsluflokkur: Bloggar

Leiðin að hamingjunni er nefnilega ekki flókin......

....krefst bara hreinskilni og vinnu.

Bara svo það sé á hreinu, þá er undirvitundin sífellt að láta okkur líða betur; kemur á örskotsstundu með réttlætingar á gjörðum okkar og á stöðu okkar.  Á því augnabliki líður okkur vissulega betur, getum skellt skuldinni á umhverfið eða annað fólk og þá erum við "í lagi" og "höfum rétt fyrir okkur". Gallinn er bara sá, að smátt og smátt fjarar vellíðunin í burtu og okkur líður bara alls ekkert betur. Fáum jafnvel samviskubit.  Þetta er vondur tilfinningalegur vítahringur sem tekur engan enda...

...nema við tökum ábyrgð og grípum i taumana.  Og þar stendur yfirleitt hnífurinn í kúnni; við kunnum það oft ekki því okkur var aldrei kennt það!  Tilfinningalæsi er sá lestur sem mannkynið virðist eiga verst með.  Þess vegna eigum við í slæmum samskiptum, missum tökin á neyslu, hlaupum hraðar í vinnu, þið vitið hvað ég meina.

En þetta er bara frekar einfalt (ég sagði ekki auðvelt).  Við þurfum að gefa okkur tíma til að þekkja hugsanirnar sem í okkar huga kalla fram ótta, reiði, depurð, fíkn, sorg, eða hvað sem heldur okkur frá því að upplifa hamingju.  Þegar við náum tökum á því, þá upplifum við ró, árverkni, kyrrð og getum nýtt okkur þetta stórkostlega verkfæri sem hugurinn er til uppbyggilegra hluta. 

 

Í sinni einföldustu mynd snýst þetta um að spyrja sig fjögurra spurninga. Þetta krefst hreinskilinna svara.  Ekki svara í huganum, því þá grípur undirvitundin ofurhratt inn í ferlið og kemur með réttlætingarsvarið.  Þessu þarf að svara ígrundað og skriflega:

1. Er þetta satt sem sagt/gert var? (dæmi: pabbi og mamma/makinn minn/vinnuveitandinn virða ekki langanir mínar).  Ef svarið er virkilega og hreinskilnislega já, farðu beint í spurningu 3. 

2. Ertu algjörlega sannfærður um að svarið við spurningu 1. (já eða nei). Gættu að réttlæta ekki svarið.

3. Hvernig bregstu við og hvernig tilfinning kemur upp þegar þú trúir þessu svar? Skrifaðu hjá þér tilfinninguna og líðanina. 

4. Hvernig værir þú án þessarar tilfinningar og líðan?  Væri líf þitt og staða betri? 

 
Næst skaltu snúa dæminu við á þrjá vegu:

1. Settu "ég" í staðinn. Dæmið að ofan yrði: "ég virði ekki langanir mínar"

2. Skiptu um stöður. Dæmið að ofan yrði: "ég virði ekki langanir þeirra"

3. Felldu orðið "ekki" út. Dæmið að ofan yrði: "þau virða langanir mínar".  Við þetta færist ábyrgð þinnar hamingju af örðu fólki yfir á þig.

 

Þessi aðferð er gríðarlega öflug og með tímanum upplifir þú styrk og frelsi fá örðu fólki og áliti þess. Smátt og smátt muntu ekki þurfa að skrifa niður það veldur þér vanlíðan því þetta verða eðlileg viðbrögð þín við áreyti.

Að ná fullri stjórn á sjálfum sér er nefnilega eina leiðin að hamingjunni því hún er víst bara innra með okkur......

 

images

 

  


Er Alþingi eins og Kattaræktarfélagið?

Þar sem ég sat í dag yfir hádegisfréttunum og hlustaði á fréttir frá Alþingi, þá skaut upp þeirri hugsun, að í raun væri starfið innan þingsins í engu frábrugðið almennum félagsstörfum, þar sem hópur fólks tekur að sér að sitja í stjórn og vinna í þágu sinna félagsmanna.

Fyrir löngu síðan var ég með áhugamál sem snerist um það að para saman valda ketti með fínni ættartölu í þeim tilgangi að "bæta" tegundina (.....eins langt frá náttúrunni og það hjómar nú). En hvað um það, áhugamál sem ég valdi og margir stunda enn í dag.  Um tíma sat ég í stjórn þessa félagsskapar og var virk, enda margt og mikið að huga að.  

Það sem mér fannst þó merkilegast, var hve mikill rígur var innan þessa félagsskapar; síðhærða deilin og  stutthærða deildin.  Þetta var einfalt í þá daga, því að tegundir innarn hvorrar deildar voru svo fáar.  Síamskettir, Oriental, Bengal, Persneskir, Norskir skógarkettir.  En maður minn, hvað hitinn gat verið mikill og jafnvel persónulegar árásir!  Alveg satt.  Einhvern veginn var eins og kettirnir væru jafnvel orðnir aukaatriði og þetta sameiginlega markmið um veg og vanda kattaræktunar færu lönd og leið þegar hitinn varð sem mestur.

Alþingi;  er þetta ekki bara það nákvæmlega sama?  Elíf fundarhöld og skoðanaskipti, sem eiga samkvæmt skilgreiningu að snúast um að auka veg og vanda þeirra sem falla undir þann flokk að kallast ábúendur á Íslandi.  En einhvern veginn virðist sem umræðan og vinnubrögðin bera vitni um eitthvað allt annað; valdatafl, meting, hagsmunapot, mitt er betra en þitt......  Skítt með hinn almenna félagsmann, hann getur bara séð um sig sjálfur og borgað sín félagsgjöld!  Það er verst hvað það virðist vera drulluerfitt fyrir félagsmennina að ná einhverju í gegn, og það er væntanlega vegna þess að við erum ekki í "sömu deildinn"; hver deild með sína hagsmuni og ver þá með kjafti og klóm!

 

Þarf ekki bara að taka aðeins til í rekstri þessa félags sem við tilheyrum og gera hann einfaldari ..........

 

sudan4_4 (1)

 


"Sleep is the new sex; everybody wants it, but nobody is getting any" !

Það verður aldrei of mikið gert úr svefnvanda.  Ef við náum ekki að sofa vel og ná djúpsvefni, þá er hætt við að fjari undan okkur.  Í eðlilegum svefni vinnum við úr upplifunum dagsins og aukning verður á þeim hormónum sem auka frumuskipti og viðhalda líkamanum.  

Það er alls ekki flókið að laga svefninn þegar orsök vandans er ljós; það getur aftur á móti verið flókið að finna rót vandans.  Til þess getur verið nauðsynlegt að leita til fagfólks eins og sálfræðinga, geðlækna, presta, eða hvers kyns ráðgjafa.  

Ég hef tekið saman leiðbeiningar sem birst hafa áður.  Að vinda ofan af svefnvanda krefst þolinmæði; vandinn varð ekki til á einni nóttu og því ekki hægt að ætlast til að hann lagist á stuttum tíma.  

 

 

Það eru þrjár megin leiðir til meðhöndlunar svefntuflana:

  1. Lyfseðilsskyld lyf.    Í flestum tilfellum er ekki ráðlegt að taka inn lyf nema í fáar vikur samfellt; þó eru nokkrar tegundir samþykktar til langtímanotkunar.  Svefnlyf eru mörg hver ávanabindandi og hafa í sumum tilfellum óæskilegar aukaverkanir.   Helstu aukaverkanir eru sjóleiki á daginn, skert gæði þess svefns sem fæst, ógleði, ofnæmi o.fl..  Ef svefntruflanirnar eru alvarlegar eða langvarandi getur verið nauðsynlegt að fá svefnlyf samhliða því að unnið er með orsökina og þá er síðan hægt smátt og smátt að trappa niður skammtastærðir.
  1. Náttúrlyf.   Víða erlendis er hægt að kaupa svefnlyf sem krefjast ekki lyfseðils, auk þess sem í heilsubúðum má fá lyf unnin úr jurtum með þekkta virkni gegn svefntruflunum.   Þó skal fara varlega í notkun þessara efna, því þau hafa mörg hver aukaverkanir, s.s. doða eða sljóleika, munnþurrk, sjóntruflanir og minnka jafnvel gæði svefnsins.
  1. Atferlismeðferð.   Þetta meðferðarform miðar að því að breyta svefnvenjum og svefnumhverfinu.  Það krefst sjálfskoðunar að finna hverju má breyta og þolinmæði að innleiða nýjar svefnvenjur, en á sama tíma hlýtur þetta að vera heilnæmasta leiðin til að ná tökum á svefninum.  Það eru ótal þættir sem geta farið úrskeiðis og þannig truflað svefninn.  Þessir þættir geta snúið að líkamlegum, andlegum og umhverfistengdum breytingum.  Við bregðumst ólíkt við áreyti og umbreytingum og  því þarf hver og einn  að finna hverju þarf að breyta, og ekki bíða of lengi með að leita sér aðstoðar við það.

 

Atferlismeðferð þarfnast oft leiðsagnar og stuðnings sérfræðinga og getur falist í eftirfarandi:

  • Góðar svefnvenjur:  Það er mikið til af lesefni með leiðbeiningum um hvaða venjur eru æskilegar til hjálpar líkamanum að komast í “svefngírinn” og eins hvaða hegðun beinlínis hindrar það ferli sem líkaminn fer í gegnum til að geta sofnað.  Fjallað er um þessi atriði síðar í þessari grein, og einnig í 1. og 2. hluta um Svefnleysi (Insomnia).
  • Dáleiðslumeðferð:  Markmiðið er ávallt að vinna með orsakaþátt svefntruflanna, hvort sem hann reynist af andlegum toga (kvíði, þunglyndi, sorg, ofvirkni o.s.frv.), vegna verkja, eða vegna óæskilegrar rútínu (óregla í háttatíma, neysla matar eða örvandi efna, orkuaukandi hegðun rétt fyrir svefn o.s.frv.)
  • Slökunaræfingar:  Viljastýrð vöðvaslökun og öndunaræfingar hjálpa til við að minnka kvíða og koma þannig líkamanum í það slökunarástand sem þarf til að sofna.
  • Hugræn atferlismeðferð:  Ef kvíðatengdar hugsanir halda viðkomandi vakandi, þá þarf þjálfun í að skipta þeim hugsunum út fyrir jákvæðar og slakandi hugsanir.  Þetta er ferli sem þarfnast æfinga og þolinmæði en er afar árangursrík leið.
  • Áreitis-stjónun”:  Hér er átt við, að læra þurfi að gefa undirvitundinni skýr skilaboð um tilgang þess að leggjast upp í rúm, þannig að með tímanum þýði það að leggjast í rúmið, að svefnferlið fari af stað.  Þetta gerist með því að takmarka þann tíma sem legið er vakandi í rúminu, og tengja rúmið/svefnherbergið eingöngu við svefn og kynlíf. 
  • Ljósameðferð:  Líkamsklukkan stjórnast m.a. af birtuskilyrðum.  Því getur verið nauðsynlegt að koma sér upp góðum myrkragardínum yfir sumartímann og sérhönnuðum ljósgjafa yfir dimmasta tímann sem líkir eftir dagsljósi.o.s.frv.)

 

 

 

Svefnvandamál eru okkur ekki eðlileg og því er í langflestum tilfellum hægt að meðhöndla þau.  Lausnin liggur oftast í að breyta daglegum venjum  og koma á nýrri hegðun áður en lagst er til svefns.   Það er ýmislegt sem hver og einn getur tekið á sjálfur og unnið með án utanaðkomandi hjálpar:

  • Haltu sama svefntíma.  Með því að fara að sofa og á fætur að sama tíma, líka um helgar, þá smám saman stillir líkamsklukkan sig af.
  • Ekki liggja lengi vakandi í rúminu.  Ef þú getur ekki sofnað innan ca. 20 mínútna, farðu þá fram úr og taktur þér eitthvað róandi fyrir hendur eins og t.d. lestur.
  • Ekki reyna að sofna.  Því meir sem þú reynir, því meira vakandi verður þú, þar sem hugurinn fer á fulla ferð við að reyna!  Farðu fram úr, inn í annað herbergi og lestu eða horfðu á sjónvarp þar til þig fer að syfja.
  • Svefnherbergi er eingöngu fyrir svefn og kynlíf.  Ekki nota það til vinnu, sjónvarpsgláps eða neyslu matar.
  • Finndu hvað hjálpar þér við að slaka á.  Heitt bað, nudd, lestur, hugleiðsla eða hvað sem fær þig til að ná ró og þú getur gert að venju fyrir svefn.
  • Neysla matar.  Þungur eða mikill matur rétt fyrir svefn getur komið í veg fyrir að þú sofnir.  Það getur þó verið gott að fá sér snarl eins og hrökkbrauð, ávöxt eða eitthvað létt, til að koma í veg fyrir að vakna vegna svengdar um miðja nótt.
  • Gerðu svefnherbergið svefnvænt.  Losaðu þig við allt sem veldur óþarfa hljóðum eða lokaðu hurð/gluggum ef hljóð berast inn.  Finndu hvaða hitastig hentar þér og veldu sæng af hentugri þykkt.  Sjónvarp, tölvur og önnur rafmagnstæki eru ekki æskileg þar sem sofið er.
  • Forðastu alkohól, koffín og nikótín.  Það tekur líkamann um 12 tíma að losa sig við áhrif koffeins og því ætti enginn sem á í erfiðleikum með svefn að drekka kaffi eftir miðjan dag.  Nikótín er streituvaldandi efni og hindrar því djúpan og nærandi svefn.  Þó alkohól hjálpi sumum við að sofna, þá er niðurbrotsefni þess í líkamanum örvandi og kemur í veg fyrir djúpan svefn þegar líður á nóttina.
  • Lyf.  Mörg lyf geta haft truflandi áhrif á svefn.  Ræddu það við lækninn þinn ef þú tekur lyf.
  • Verkir.  Ef verkirnir eru tímabundnir, þá er nauðsynlegt að taka inn viðeigandi verkjalyf til að ná að sofa.  Langvarandi verkir þurfa sérstakrar meðhöndlunar við og þarf aðstoðar sérfræðinga þar við. (sjá skrá; Verkjameðferð).
  • Ekki vera með klukkuna á náttborðinu.  Ef þú hefur stillt vekjarann, þá þarftu ekki að hugsa um klukkuna yfir nóttina; hún mun hringja!  Það, að líta í sífellu á klukkuna og stressa sig á því hve þreyttur maður verður eftir erfiða nótt, nægir til að koma í veg fyrir heilbrigðan svefn. 
  • Forðastu eða takmarkaðu dagblunda.  Með því að leggja þig yfir daginn til að vinna upp lélegan nætursvefn ert þú mögulega að viðhalda vandanum. Ef þreytan er nánast óyfirstíganleg yfir daginn, takmarkaðu blundinn við hámark 20-30 mínútur.

 

Það getur tekið nokkrar vikur að breyta hegðunarmynstri og því krefst þolinmæði að koma svefninum í lag.  Svefninn er okkur jafn nauðsynlegur og heilbrigt mataræði og regluleg hreyfing og þvi hafa langvarandi svefntruflanir áhrif á bæði líkamlega og andlega heilsu.  Það er því til mikils að vinna og ekki gefast upp.  Ef þú nærð ekki tökum á svefninum með ofangreindum aðferðum, leitaðu þá aðstoðar sérfæðinga.

  

sleeping-now

 


Hvernig heldur þú á barninu/barnabarninu þínu?

Ég var að njóta þess að gumsa í mig humarsúpu og sötra á hvítvínsdreytli (mæli alveg sérstaklega með humarsúpunni á Rauða Húsinu á Eyrarbakka...).  Á næsta borði voru hjón með voðalega krúttlegan lítinn strák, kannski svona 4 mánaða eða svo.  Þegar leið á máltíð þeirra gerðist snáðinn órólegur og byrjaði að kjökra.  Grey mamma og pabbi, varla hálfnuð með matinn, reyndu að róa hann niður...en þó aðallega mamman með snuði og brjóstgjöf.  Að því kom að þau ákváðu að fara og á meðan mamman tók til alla fylgihluti barnsins tók pabbinn litla krúttið í fangið.

Þá tók ég eftir því sem mér fannst vert að skrifa nokkrar línur hér;  hvernig hann hélt á barninu.  Ég hef reyndar oft áður séð þetta, en aldrei beint veitt því eftirtekt.  Sem sagt, pabbinn hélt barninu þannig að bak þess sneri að honum og barnið sneri því "fram", eða frá pabbanum.  Á meðan var mikill órói í fótum og höndum þess og það var næstum spriklandi.  

Prófið bara sjálf að láta taka svona utan um ykkur. Það er ekki hlýja eða notarlegheit eða öryggi, að minnsta kosti ekkert í samanburði við að láta taka utan um sig þannig að líkamarnir snúi saman.  Það hlýtur að veita mikið meira öryggi og nánd fyrir ungabarn þegar því er haldið þannig að hálf-stjórnlausir útlimirnir danglist ekki út og suður.  Það er einmitt nánd og öryggi sem er alltaf það mikilvægasta sem við getur gefið ungunum okkar, sérstaklega á því tímaskeiði þegar þau skilja ekki mælt mál.  

 

Ungabörn læra nefnilega bara af því hvernig við nálgumst og umgöngumst þau.... 

 

babies15n-3-web

 


Hvað geri ég svo við fréttina um stöðutökuna gegn krónunni? (þessi nýjasta..)

Drullureið...það voru fyrstu viðbrögðin mín.  Hvernig í andskotanum getur nokkur verið svo gírugur að gera svona nokkuð?  Þetta er löglegt, en komm on..... þarf að setja lög yfir hverja einustu mögulegu gjörð mannsins?  Er fyrirhyggja dauðans eina leiðin til að búa til samfélag?

Ég er núna ekki lengur reið.  Ég finn fyrir svekkelsi og sorg þegar ég hugsa um þennan siðlausa (að mínu mati) gjörning.  Ég get leyft mér að dæma þetta siðlaust og að þetta komi mér við, því að það var verið að vinna með mína peninga ....og þína peninga.

Þegar lífeyrissjóðir almúgans voru farnir að leggja bönkunum peninginn okkar til að jafna þessa miklu gjaldeyriseign bankanna, takandi þá áhættu að þiggja í staðin skuldabréf sem nú eru fokin út í geim, þá getum við leyft okkur að hafa skoðun.  Sárast er þó að vita, að þessir peningar sem við vorum samkvæmt lögum látin greiða mánaðarlega til lífeyrissjóðanna, liggja nú á reikingum einstaklinga! Þarna er hrópandi óréttlæti og maður finnur fyrir valdaleysi sínu.  Djö!!!!!

Og þá komum við að stæðstu mistökum sem gerð voru í þessu hrunaferli:  Geir Haarde og hans lið létu renna út hendi sér (viljandi auðvitað) einstakt tækifæri til að jafna réttlæti í þessu öllu.  Með því að tryggja innistæður í bönkunum að fullu vörðu þeir "löglegu þjófana"!  Hefði ekki verið alveg kjörið að setja þak?  Ég á nefnilega bágt með að kaupa það, að þeir sem eiga feitustu bankareikningana séu búnir að vinna fyrir þeim með sínu "vinnuframlagi" eins og flestir þurfa að gera; greidd laun fyrir unnar vinnustundir.

 

Nema að þessi hópur sé svo GEÐVEIKT DUGLEGUR Í VINNUNNI.........

 

workhardformoney

 

  


Hnattvæðing (globalisation); nei takk?

Æðislegt hvað allur heimurinn er orðinn okkar; komumst á milli póla á sólarhring, náum á augabragði upplýsingum hvað núðlusúpa kostar í Bankok, getum valið okkur háskóla í Dubai og sótt um samdægurs, vitum hve margir dóu í sjálfsmorðsárás í morgun í Írak; heimurinn er okkar með kostum og göllum! Og þetta allt í gegnum snjallsímann okkar sem er alltaf til staðar. ÞVÍLÍKT FRELSI!

....eða?  

Mannshugurinn á erfiðara með að taka ákvarðanir eftir því sem mengi upplýsinganna er stærra. Þess vegna erum við sífellt að koma okkur fyrir í smærri einingum sem við getum rúmað okkur innan (ég er Íslendingur, ég er Reykvíkingur, ég er miðaldra kona, ég er heilbrigðismenntuð...o.s.frv.). Þegar mengið er orðið of stórt, þá er eins og við náum illa á halda utan um upplýsingarnar og við verðum aðeins óörugg.  Þetta er ekkert sem ég er að finna upp á, þið getið lesið þetta í hinum ýmsu sálfræðiprófunum.  Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort óróleiki nútímans geti stafað af því hve hlaðborðið okkar er orðið hirkalega stórt og fjölbreytt.  Við getum gert ALLT!   Og það er stanslaust verið að minna okkur á hversu miklu við erum að "missa af".  Það gerist auk þess á ógnarhraða og við náum varla að gefa okkur tíma til að meðtaka og greina allar þessar upplýsingar, hvað þá að vinna úr þeim.  

Þetta er sérstaklega erfitt fyrir unglingana og börnin sem ættu að vera í rólegheitunum að finna út úr því hvað þau standa fyrir og hver styrkleika þeirra er.  Ég get ekki annað en hugsað með söknuði til þess tíma þegar maður fékk frið til að gera "ekkert" og virkilega hlusta á innsæið sitt og langanir. En þessi grey eru núna stanslaust á vakt, tilbúin að svara sms, facebook, instagram, snapchat og öllu þessu áreyti sem berst þeim. Og það versta er, að þau fara alveg á mis við þau mannlegu blæbrigði og tilfinningar sem á bak við þessi samskipti liggja; þetta eru bara dauðir stafir á skjá sem má mislesa á svo ótal vegu.  

Ég vildi svo óska þess að þessi bóla springi.  Við erum nefnilega eins uppbyggð og við vorum fyirir 100 árum, þegar maður talaði við mann augliti til auglitis og lífið var hægara og einfaldara.  Við erum hvert og eitt svo smá í öllu samhenginu en viljum gera svo stóra hluti.  

 

Lífið er nefnilega ekki flóknara en við gerum það sjálf........

 

Confucius_“Life-is-really-simple-but-we-insist-on-making-it-complicated.”

 


Ég get ekki pissað (þetta er ekki djók).....

.....af því tímabundið er ég með þvaglegg.  Tímabundið; það er mín lukka.  Þetta er ekki mikið mál af því að ég veit að það tekur enda.  

Þetta tekur nefnilega enda.  En einmitt það fær mig til að hugsa til allra þeirra sem lenda í líkamlegu tjóni sem er varanlegt.  Hvernig er hægt að "venjast" því að missa lífsgæði?  Öll okkar tilvera miðast beint og óbeint að því að líða sem best og hafa sem minnst fyrir hlutunum.  Við fyllum umhverfi okkar með alls konar græjum og dóti til að auðvelda verkin, væntanlega í þeim tilgangi að eiga meiri tíma til að gera það sem er "skemmtilegt"; uppþvottavél, snjallsími, matvinnsluvél, fjarstýringar, sjálfvirk ryksuga...þið fattið þetta alveg.  

En svo einn daginn gerist eitthvað og við getum ekki einu sinni pissað eða klætt okkur sjálf eða gengið eða borðað án hjálpar....það sem eftir er ævinnar.  Það er ekki nokkur leið að skilja til fullnustu stöðu þeirra sem þarna lenda.  Það er flókið sorgarferlið að þurfa að kveðja allt það sem viðkomandi hefur byggt sjálfsmynd sína á og síðan að þurfa hægt og rólega að byggja sér nýja sjáfsmynd og það jafnvel án nokkurrar skýrrar fyrirmyndar, því allir í nærumhverfinu eru áfram eins og halda bara sínum lífsgæðum.  Viðkomandi verður allt í einu ósjálfstæður, háður því að hafa aðstoð við hversdagslegar athafnir.  Rýmið fyrir einkalíf verður minna.  Og í öllu þessu líkamlega stússi vill jafnvel gleymast það sem er ekki síður mikilvægt; að koma einstaklingnum í þær félagslegu aðstæður þar sem hann getur lært af fyrirmyndum í sömu stöðu og þanngi smátt og smátt fundið út hvernig "nýja" lífið á að vera; líf sem hentar þeim líkamlegu forsendum sem til staðar eru.

 

Það er nefnilega ekki sjálfsagt að geta bara vaknað, hoppað fram úr og haldið af stað inn í daginn. Manst þú eftir að þakka fyrir........?

 

pulse-check

Fíkniefnavandinn; Lagast ekki meðan vandinn er óþekktur!

Bifvélavirkinn: "Því miður er bílinn þinn ennþá bilaður. Við vitum ekki rassgat um hvað er undir húddinu og bara...sorrí".

Nei, ég er ekki að mæla með fíknefnanotkun. Nei ég nota ekki fíkniefni.  (Æ, jú, rauðvín og bjór, en það er nú svo saklaust...).  Það er alla vega deginum ljósara að þrátt fyrir að hafa farið gamlar leiðir, nýjar leiðir, óhefðbundar leiðir, og ég veit ekki hvað, þá er Ísland eitthvað allt annað er fyrirmyndarland í þessum málum.

Er einhver hissa?!  Hvernig í ósköpunum er hægt að horfast í augu við hversu mikill fíkniefnavandinn er, bæði með tilliti til neyslu, ofneyslu og glæpum þeim tengdum, þegar hver einasti hlekkur í þessari keðju er grafinn neðanjarðar?  Við höfum ekki græna glóru um umfang neyslunnar, enga hugmynd um gæði eða samsetningu þessara efna; sem sagt:  Erum að berjast við ósýnilegan andstæðing.

Er ekki ráð að tímabundið lögleiða, ja, t.d. kannabis, þannig að við áttum okkur á hve eftirspurnin er og hve margir eiga virkilega í vanda og getum þannig tekið afstöðu hvernig bregðast þurfi við.   Þetta ferli tæki eflaust einhver ár, en komm on, fíkniefnalaust Ísland 2000 rann út fyrir 13 árum!

 

Drögum hausana upp úr sandinum og breytum því sem ekki virkar.....

 

head-in-sand

 


Passar lífið þitt á þig?

 

 

Manstu söguna um Öskubusku, hvernig systurnar skáru af sér hæla og tær til að geta passað í skóinn hennar Öskubusku, eingöngu til þess að geta fengið það líf sem hennar beið sem prinsessa?

Þess vegna spyr ég; ertu að sníða mikið af sjáfum þér til að passa inn í tilveruna þína í dag?  Tilfinningin sem kviknar, vex og dafnar við þær aðstæður eru pirringur, ófullnægja, kvíði, ótti, togstreita, óróleiki.....tilfinningar sem vekja upp streituviðbrögð. Við finnum hreinlega að þetta passar einhvern vegin ekki.  "Mér líður ekki vel, en get ekki alveg bent á af hverju".  En hvernig komst þú þangað?  

 

Þegar við erum lítil, þá er sífellt verið að hafa vit fyrir okkur....allt í þeim góða tilgangi að kenna okkur smátt og smátt að verða fullorðin og ábyrg.   Foreldrar/forráðamenn okkar gera sitt besta í að sjá til þess að við nærumst líkamlega og andlega, leikskólakennararnir sinna okkur sem einum af hópnum, grunnskólakennararnir kenna okkur eftir samræmdri námsskrá, íþróttafélögin þjálfa okkur með skýrar fyrirmyndir og markmið, vinirnir máta okkur í hópinn.  En það er bara svo erfitt fyrir þessa aðila að átta sig á hvort þú hreinlega passar inn í þetta mót. Enn vandasamara er fyrir þau að þekkja mörkin á því hvenær leiðsögn þeirra er orðin bein framlenging af þeirra gildum og þörfum.  Þekkjum við ekki öll dæmin um fótbotlapabban sem lætur drauminn sinn rætast gegn um litla soninn, eða lögmanninn sem horfir stoltur á afkvæmið útskrifast sem lögmann?  Það virðist nefnilega ekki vera rými eða næði til að leyfa börnunum að finna sinn styrkleika og hvar áhugasviðið liggur.  Svo eigum við allt í einu við 16 ára aldur að velja, hvað við ætlum að verða "þegar við verðum stór".  Síðan heldur dæmið áfram að vinda upp á sig ef við förum í sambúð og þurfum að passa við líf annars einstaklings. Ég vil auðvitað ekki alhæfa að þetta sé alltaf svona, en er bara að benda á hversu vandasamt það er að ala upp sjálfstæðan og ábyrgðarfullan einstakling.

 

Mig langar að trúa því að flestallir þeir sem koma að því að móta okkur sem börn vilji skila góðu starfi og óski börnunum alls hins besta.  En þegar svo margir eru staddir í vanlíðan eða ófullnægju, þegar svo margir eru á biðlista eftir greiningu, þegar svo margir eru í afbrotum eða upp á kant við samfélagið , þá hljótum við að spyrja okkur hvort það sé ekki kominn tími til að horfa á þjóðfélagsmyndina í stað þess að einblína stöðugt á einstaklinginn sem eyland sem þarf að laga.  Það getur ekki verið heilbrigt að þurfa að hnoða fólk til að það passi, enda er það ekki að virka (eða eru allir Íslendingar sáttir?).  Við erum svo lítið þjóðfélag og ættum að nýta okkur það til að endurskoða innviðina, laga strúktúrinn svo það verði pláss fyrir okkur öll.

 

Það er nefnilega farsælla að finna nýja skó í stað þess að höggva sig til.... 

 

squarepeginroundhole.jpg


Halló! "practice what you preach"!

Ég á hérna við mig.  Kannski á þetta við einhvern þarna úti. Kannski stundum þig....?

 

Ég vinn við að aðstoða fólk í krísu.  Ég er góð í því.  Ég veit það af því að ég fæ að heyra það og mér líður vel með vinnuna mína.  En ég varð það ekki bara af sjálfu sér.  Lærði "tæknina" í skóla en þekkingin og reynslan kom með lífinu, reyslunni og sjálfsnámi.  Kann endalaust af ráðum og aðferðum sem ég miðla óeigingjarnt. En.....

 

En...ég er mannleg. Lenti í aðstæðum sem geta mín og reynsla réð ekki við; áfallastreituröskun og "burn out syndrome".  Afleiðingin var að ég snerti botninn á hyldýpi þunglyndisins.  Ég get svo sannarlega sagt ykkur, að ferðin af botninum er erfið, orkudrenandi, oft á tíðum týni ég leiðinni upp, finn hana aftur, sekk svo til baka en næ að átta mig og rifja þá upp hvernig ég kemst upp.  Fer upp. Svona gengur þetta..hægt og rólega.  

 

Þá kemur spurningin:  Af hverju get ég ekki bara gert návæmlega það sem ég er að ráðleggja öðrum?  Ætti ég ekki að vera með vængi og síglöð og með mitt á tæru?  Nebb. Er það ekki.  Og  ég geri mér líka alveg grein fyrir af hverju.  Af því að þetta er svo flókið!!!  Lífið er nefnilega samspil svo ótal margra þátta sem hafa áhrif beint og óbeint á það hvernig líðanin er.  Við erum alltaf öll að reyna að vera sátt, yfirveguð, hamingjusöm og ég veit ekki hvað.  Enda náum við öll einhvern tíman að upplifa þetta allt.  Svo gerist eitthvað og við þurfumaftur að byrja að vanda okkur og leita.  Það er akkúrat þetta sem lífið er; flæði í tíma og rúmi þar sem við eigum ótal snertifleti við annað fólk sem hefur áhrif á líðan okkar og aðstæður.  Við kunnum þetta allt, vitum alveg hvað þarf að gera, en stundum er það bara svo drulluerfitt.

 

Ég held þess vegna að lausnin sé að hætta að streðast, slaka aðeins á kröfunum á sjálfan sig og bara "vera"......

 

be-broadband_size_10

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigríður Lárusdóttir

Höfundur

Sigríður Lárusdóttir
Sigríður Lárusdóttir
Í viðleitni minni til að halda andlegu jafnvægi mun ég bara blogga jákvætt og uppbyggjandi.....hvað held ég það lengi út?
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • internal-conversations-300x222
  • 41YPEWXf6OL. SX364 BO1,204,203,200
  • 14456633739 17cd93830a c
  • 1 OxPMWDQ1SXUdGG-EXgDBBQ
  • shame-quote-2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 50195

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband