Færsluflokkur: Bloggar

Þú getur hugleitt núna! (þarft ekki reykelsi, lótusstellingu eða bjölluhljóm)

 

Eina sem þarf til að hugleiða er vilji til að ná innri ró og kyrra hugann.  Hver vill það svo sem ekki? Það er svo einkennilegt hvað hugurinn fær stundum að leika lausum hala og taka svo rækilega völdin að við getum upplifað okkur óstjórnlega stressuð, kvíðin, óróleg, reið......eitthvað óskilgreint ástand eða tilfinning sem okkur líður ekki endilega vel með.

Vaknið!  Þetta er okkar eigin haus sem er að verki og hver á svo eiginlega að stjórna honum? Ha? Þetta er undarlegt fyrirbæri, þegar maður vaknar og fattar að þetta er ekki sjálfstæð lífvera sem tekið hefur sér bólfestu í hausnum.   Hugurinn er í senn frábært en stórhættulegt verkfæri ef ekki er rétt farið með það.  Ég þarf ekkert að rekja það hér hversu illa mannkyninu hefur tekist að fara með sjáft sig og sína eigin tegund (eigum við eitthvað að ræða umhverfismál ...?)

EN; það þarf að æfa sig til að ná tökunum og það þarf ekki að keyra í ræktina eða klæða sig í fjallgöngubúnað til að hugleiða.  Það þarf bara að vera kyrr og gefa sér 3-5 mínútur öðru hvoru yfir daginn (eða bara einusinni á dag er betra en aldrei).  

Eftirfarandi hugleiðslu er hægt að stunda í vinnunni, heima, í strætó, á leiðinlegum fyrirlestri, á klósettinu.....alls staðar sem þið getið verið aðeins kyrr:

 

  1. Sittu með beint bak og lokaðu augunum.  Taktu nokkrar sekúndur í að hlusta á hljóðin í kringum þig. Smátt og smátt skaltu svo beina hlustuninni að hjartslættinum og síðan að andardrættinum þínum.                                                                                                                                                                                                                                                                                      
  2. Andaðu nú djúpt niður í maga, þannig að kviðurinn lyftist og finndu spennuna í innöndunarvöðvunum. Þegar þú svo andar rólega frá þér, notaðu hugann og meðvitað skaltu losa alla spennu úr vörðum líkamans.  Endurtaktu svona djúpa öndun og slakaðu á meira og meira í hverri útöndun, 3-4 skipti.                                                                                                   
  3. Þegar þú finnur að líkaminn er slakur, notaðu ímyndunaraflið og sjáðu fyrir þér að þú sért með hjúp utan um þig sem er eins og ljós eða litur.  Þegar þú nærð því, skaltu ímynda þér að þú andir þessu ljósi/lit að þér og það flæði með blóðinu um allan líkamann. Nærandi og slakandi.              
  4. Endurtaktu eins oft og þú getur eða hefur aðstöðu til.  Þetta reynir kannski á í fyrstu því hugurinn vill fara á flakk.  En ekki hætta, heldur leiddu hugann aftur til baka í öndunina; það kallast hug-leiðsla. Með tímanum verður þetta ekki bara auðveldara, heldur getur orðið bjargráð í hraða og áreyti dagsins.

 

 

Það er gott að nota hugann af praktískum ástæðum, en mundu hver stjórnar......

 

66945_155330687841083_100000924573089_275551_6337197_n

 

 


Viðhorfið er þýðingarmeira en staðreyndin. Ó jú.

Einföldun?  Hmm.....veitir nokkuð af því að einfalda lífið?  Það verður ekki frá okkur tekið, mannkyninu, að við erum algjörir snillingar í að gera okkur lífið snúið.  Eins og það sé skrifað í DNA-ið okkar að þjást með reglulegu millibili.  Eilíf leit að hamingjunni og hún er einhvern veginn alveg bráðum að koma, hinum megin við hornið.  Þetta er engin ný saga, Búdda talar um þjáninguna og sjálfsagt er hægt að lesa úr einhverju forneskjuveggjakroti eitthvað í svipuðum dúr. 

Sko, þetta er náttúrulega sjálfskapaður andskoti.  Lífið getur nefnilega verið svo ljómandi gott ef maður bara sér það með réttu gleraugunum.  Málið er bara, að margir virðast eiga svo rosalega einhæft "gleraugnasafn".  Gleraugu neikvæðni, fórnarlambs, skorts, fordóma.....nenni ekki að telja allt þetta upp; þið fattið þetta alveg.  

 

Til að losa sig undan þessari þröngsýni og þeirri vanlíðan sem henni fylgir þarf að vinna svolítið í málinu; Lesa, ferðast, fræðast, spjalla, hlusta, horfa, smakka, kynna sér, prófa, bara gera eitthvað nýtt.  Gera minna af því sem maður hefur verið að gera og gera meira af því sem maður hefur ekki verið að gera.  Hvernig öðruvísi gæti lífið annars breyst? Það gerist ekki af sjálfu sér!

Smátt og smátt öðlist þið þá getu til að horfa á það sem ykkur hendir frá fleiri sjónarhornum og náið þannig færni í að dæma ekki allt á "gamla mátann".  Lífið verður litskrúðugra og fær á sig nýjar víddir. Og þannig gefst möguleiki til að takast á við staðreyndir lífsins með nýju viðhorfi.   

Það er í rauninni þrennt sem er í boði þegar lífið færir okkur verkefni: Koma sér út úr aðstæðunum, breyta aðstæðunum eða sætta sig að fullu við aðstæðurnar.  Það fylgja öllum þessum valkostum kostir og gallar og þess vegna er nauðsynlegt að vera með víðsýni, svo hægt sé að vega og meta alla kostina/gallana og taka vænlega ákvörðun.  Vissulega eru erfiðleikar í sumum tilfellum líkt og ókleyf fjöll og við gætum upplifað algjört vonleysi; verið buguð að sorg, kvíða, ótta og depurð.  En við erum þá ekki fyrsta manneskjan á jörðinni að upplifa slíkt. Það eru til óteljandi margar sögur af fólki sem komst aftur á rétt spor og getur miðlað reynslu og þekkngu.  Við þurfum bara öll að vakta hvort annað og vera til stuðnings og leiðsagnar.  Viðhorfsbreytingar taka tíma og þolinmæði en skipta sköpum þegar kemur að tilfinningalegum lífsgæðum.  

 

Þetta snýst nefnilega ekki bara um að lifa lífið af, heldur að lifa lífinu........ 

 

1.854519one_life_live_it

 


Einfaldar umgengnisreglur fyrir foreldra (gagnvart unglingum á heimilinu)

Ég er ekki með gráðu í uppeldi, en hef ágætis vitnisburð úr skóla lífsins og ætla mér því að hætta mér út í að gefa ráð.  Það má alveg.  Fólki er frjálst hvort það les þetta eða hvað þá fari eftir þessu.

Ég hef nefnilega alið upp 3 unglinga af karlkyni og tveir þeirra eru orðnir vel heppnaðir fullorðnir menn. Vel heppnaðir þýðir hér að þeir eru sáttir, bjarga sér sjálfir, fundu sjálfir sinn farveg í námi, kunna að halda heimili (þrífa líka klósett vel), eru kurteisir, sparsamir, mannvinir, drepa ekki flugur, eyðileggja ekki hluti, eru með gagnrýna hugsun.  Þetta eru nokkrir af þeim kostum sem ég valdi sem markmið í uppeldinu, en það verður auðvitað hvert foreldri að velja fyrir sig.

Eftirfarandi reglur urðu til í tímanna rás, eftir því sem við foreldrarnir rákum okkur á og höfum breytt og bætt með reynslunni.  Ég hef gert fullt af mistökum í uppeldinu, en þá hef ég líka haft manndóm í að viðurkenna þau og ræða við börnin svo þau læri líka af þeim, í stað þess að ganga fram í fullorðinsárin með einhverjar tilgangslausar afleiðingar miður góðra uppeldisráða. Með því að hafa fáar og einfaldar reglur verður uppeldið skilvirkt, mörkin (sem öll börn elska án þess að vita af því..) verða skýr og samskiptin heilbrigðari.

 

Og þá eru það reglurnar:

 

  1. Ef þér finnst að herbergi unglingsins sé undir heilbrigðisviðmiðum en unglingurinn sjálfur er sáttur, taktu þá til og þrífðu herbergið hans!  Það er nefnilega ekki þess virði að þrasa yfir sokkahrúgu, gosumbúðum eða öðru sem ÞÉR finnst drasl. Unglingurinn á þetta herbergi og hann mun mjög líklega flytja að heiman einhvern tímann.  
  2. Ekki reyna að vera jafningi unglingsins.  Vertu vinur og foreldri, en að setja sig á "sama level" kann ekki góðri lukku að stýra.  Þá verða mörkin (sem unglingurinn elskar óafvitandi) óskýr og hann fer jafnvel að stýra þér.  ÞAÐ VILL ENGINN!  Þetta snýst um að hlusta, styðja og skilja, en ekki "vera memm".  
  3. Gefðu unglingnum óhreinatauskörfu inn í herbergið sitt og snertu hana aldrei.  Það kemur að því að hann skríður fram úr holunni fatalaus og neyðist til að læra á þvottavélina.  Það eykur sjálfsábyrgð og sjálfstraust (hann fattar lærdóminn í þessu ekki fyrr en hann verður fullorðinn).
  4. Kauptu vekjaraklukku (kostar rúmlega þúsundkall) og hættu að vekja hann.  Ef unglingurinn tekur sig ekki á eftir samtöl við skólann vegna seinkomu, þá er málið alvarlegra og þarfnast stuðnings sálfræðinga/lækna/ráðgjafa.  Ef unglingurinn getur ekki tekið sig á er eitthvað að plaga hann á sálinni og þá dugar ekki að drösla honum á lappirnar og skólasóknin skilar þá litlu.
  5. Ekki velja áhugamál eða námsbraut fyrir unglinginn...þá gætir þú þurft að svara fyrir "rangt" val þitt alla ævi.  Hlustaðu frekar á hvað hann hefur mestan áhuga að tala um því þar liggja vísbendingarnar um styrkleikana, og leyfðu blessuðum unglingnum að reka sig á.  Hann er bara að læra á lífið og sjáfan sig og þarf að misstíga sig.  Þannig finnur hann áhuga og styrkleika sína.  
  6. Ekki vera "dílerinn".  Ef þér finnst mataræðið hjá blessuðum unglingnum ekki gott, hættu þá að kaupa óhollt!   Ef hann er að kaupa draslið sjálfur...hmm....er unglingurinn þinn fjárráða?  Nei. Þetta snýst um að setja gott fordæmi í mat og svo má alveg skammta peninginn í samvinnu. Þetta eru ekki neinir kjánar og geta alveg skilið góð rök

 

Samvinna er farsælust og gott að gera skriflegt samkomulag um  þau atriðið sem þið teljið mikilvægust.  Það er meira að segja svo einkennilegt að þeirra tillögur verða oft strangari en maður hafði sjálfur í huga!  Þau verða að fá tækifæri til að vinna sína smásigra með því að taka ábyrgð á sjálfum sér, sem verður þeirra grunnur í að standa á eigin fótum (nema að þið viljið að þau búi heima alltaf.....).  

 

Þetta eru nefnilega snillingar fullir af möguleikum sem þau þurfa að fá að þroska og þróa.....það kallast víst að læra að verða fullorðinn......

 

tennagers (1)

 

 

 


Enföld en mögnuð sjálfdáleiðsla til að ná stjórn á erfiðum tilfinningum.

Mig langar að deila með ykkur einfaldri leið til að takast á við hverja þá vanlíðan sem veldur ykkur innri togstreitu.  Þetta er að sjálfsögðu ekki nein skyndilausn sem lagar allt í eitt skipti, heldur kennir ykkur að hægja á huganum til að hlusta á líðan ykkar og ná sjálfstjórn.  

Ef ástandið er langvarandi erfitt og þið sitjið föst, þá þurfið þið að ástunda þetta reglulega til að ná tökum á aðferðinni, en ekki gefast upp.  Það er að minnsta kosti viturlegara að eyða nokkrum mínútum öðru hvoru í þessa æfingu en að eyða heilu dögunum í tilfinningadofa og vanlíðan (eða blekkingu...).

 

 

  1. Sitjið eða standið með beint bak og haldið handleggjunum fram fyrir ykkur með lófana upp.
  2. Takið 3 djúpa andardrætti og notið þá til að losa um spennu og beina athyglinni að ykkur sjálfum.
  3. Leyfið ykkur að finna hvaða tilfinning er að valda óþægindum; gæti birst sem sorg, óróleiki, leiði, depurð, reiði, eða jafnvel birst ykkur sem mynd eða minning.
  4. Þegar þið áttið ykkur á hvaða tilfinning þetta er, notið ímyndunaraflið og leggið þessa tilfinningu eða mynd í lófann á vinstri hendi.  Þetta er ekki flókið því við erum öll með gott ímyndunarafl; sum okkar bara mis meðvituð um það.
  5. "Veltu" þér upp úr þessari tilfinningu og hlustaðu á hvað hún verkur upp innra með þér. Ekki forðast það, sama hversu sárt eða erfitt það er. Þú er bara að upplifa þetta í huganum núna og engin hætta á ferðum.
  6. Nú skaltu finna gagnstæða tilfinningu (t.d. er þetta var reiði þá finndu ró, ef þetta var sorg þá finndu gleði). Þetta gæti jafnvel verið einhver góð minning.  Leggðu þessa jákvæðu tilfinningu í hægri lófann.  Settu alla athyglina á hana svo þú finnir fyrir vaxandi vellíðan.
  7. Nú skaltu setja athyglina í ennið og ímynda þér að þú horfir niður á báðar hendur samtímis.  Finndu hvernig þú getur borði þær saman og vegið þær og metið.  Þegar þú nærð að upplifa að tiflinningarnar séu orðnar jafn stekrar, að það sé komið einhvers konar jafnvægi á milli þeirra þá upplifir þú innri sátt eða ró.  Þetta gæti tekið nokkrar mínútur, en er hverrar mínútu virði.
  8. Þegar þú finnur sáttina innra með þér, þá lætur þú handleggina falla og opnar augun.  

 

Með þessari æfingu ertu að læra að búa til innra jafnvægi á tilfinningasviðinu án þess að bæla neikvæðar tilfinningar.  Við þurfum nefnilega á neikvæðum tilfinningum að halda til að gefa okkur til kynna ef við erum á rangri leið með okkur sjálf svo við getum brugðist við, en ekki til að taka af okkur völdin og kalla yfir okkur langvarandi vanlíðan.

 

Við eigum öll rétt á að líða vel........

 

Feelings & Emotions

 


Syndir feðranna.

Mér lesnari menn hafa sagt, að í biblíunni sé talað um að það taki sjö kynslóðir að hreinsa burt óæskilega hegðun (nútímalegri skýring á "syndum feðranna").  Úff, það hljómar ekki vel.  

Hverjar eru svo þessar syndir?  Ég gef mér að hér sé verið að tala um allar þær hugsanir og gjörðir sem hafa valdið mannkyninu þjáningu svo lengi sem við höfum haft hæfileikann til að þjást.  Það hófst víst allt þegar við "fengum" þennan líka öfluga framheila, ennisblaðið, sem gerir okkur kleift að upplifa tilfinningar af öllum sortum. Það er sá hluti heilans sem aðskilur okkur frá öðrum dýrum og gerir lífið okkar svo ótrúlega spennandi, hamingjusamt, örvætnigafullt, kvíðadrifið, skemmtilegt.....það eru víst fleiri hundruð orð sem lýsa tilfinningum mannsins í öllum mögulegum blæbrigðum.

En hvernig stendur á því að við viðrumst öll þurfa að finna upp hjólið og einhvern veginn eins og hver einasti einstaklingur verði að fara í gegnum sömu súpuna?  Getur það virkilega verið ómögulegt að læra af þjáningum fyrri kynslóða aðeins hraðar og verða bara sáttur og hamingjusamur til æviloka?  

Ég treysti mér til að svara þessu já og nei;

 

  • Já: Hver og einn einstaklingur kemst ekki hjá því að lenda í erfiðleikum og sorgum, sem á stundum virðast vera óyfirstíganlegir. Við veikjumst, missum nákomið fólk, það er brotið á okkur, við töpum eignum eða  hvað sem er.   Þvílíkir atburðir kalla á vanlíðan og einhvers konar þjáningu, hjá því verður ekki komist því þetta er bara sem fylgir í pakkanum sem kallast "lífið".  Þess vegna er alveg hægt að líta svo á að þjáningin hafi og muni fylgja manninum meðan hann stendur uppi. Life is a bitch and then you die.
  • Nei: Þetta þarf ekki að vera svona sárt og erfitt.  Þar kemur inn þetta með syndir feðranna; Við erum svo heppin í dag að hafa gríðarlegt aðgengi að fróðleik um hvernig sérfræðingum af öllum sviðum hefur tekist til við að finna leiðir til að binda enda á þjáningarnar.  Þetta eru glænýjar niðurstöður nútímalegra vísindarannsókna og alveg aftur til um 2500 ára gamalla sannleikskorna Búdda (sem eru reyndar orðin heilmikill hluti nútíma sálfræði).  Það er nefnilega ekki sama hvernig við lítum á erfiðleikana okkar, hvað þá hvort við ætlum að dragnast með þá þegar þeir eru gengir yfir.  

 

Staðreyndin er nefnilega sú, að við eigum okkur bara eina tilveru sem er raunveruleg og það er andartakið sem við erum á akkúrat núna.  Fortíðin er búin, liðin og farin og kemur aldrei aftur í sömu mynd.  Því er kúnstin að hætta að setja í bakkgírinn til að dvelja í liðnum atburðum. Vissulega gætu þessir liðinu atburðið hafa valdið mikilli þjáningu, en þá er það okkar að nota núið til að draga lærdóm af honum til að hann endurtaki sig ekki. Búið.  Ég er hér ekki að tala um að afneita þeim erfiðu tilfinningum sem upp gætu komið, heldur bara leyfa þeim að koma, hlusta eftir hvaðan þær koma og af hverju, eingöngu til að geta lært af þeim:

 

  • Hvernig líður mér? 
  • Hvers vegna líður mér svona illa?  
  • Hverju get ég breytt til að þetta gerist ekki aftur?
  • Ef ég get engu breytt, með hvaða leið get ég sæst við atburðinn (því hann er liðinn)?   
  • Þarf ég að tala við einhvern til að létta á mér og fá skýra mynd af afleiðingunum?
  • Þarf ég að breyta hegðun minni til að atburðurinn valdi mér ekki lengur þjáningu?
  • Þarf ég að biðjast fyrirgefningar eða veita fyrirgefningu (í formi sáttar við að þetta gerðist)?

 

 

Það eru nefnilega gömlu aðferðirnar sem virka ekki sem við þurfum að hreinsa úr kynslóðunum ekki seinna en núna;  Hætta að leita hefnda, hætta að vekja sektarkennd, hætta að vera fórnarlömb, hætta að dæma, hætta að smána,hætta að vera meðvirk, hætta að beita stjórnsemi, hætta að vera í afneitun.

 

Það hefst allt með því að finna til innri friðar og kærleika gagnvart sjálfum sér........

 

SymptomsOfInnerPeace

 

 

 


Bestu leiðbeinendurnir eru börnin.

Mig vantaði aðeins að hrista upp í orkubúskapnum og fór því í göngutúr í hverfinu.  Vísvitandi stefndi ég á grunnskóla hverfisins því að ég heyrði að það hringdi út í frímínútur.  Mig langaði nefnilega svo að brosa svolítið og vissi að það yrði auðsótt um leið og ég sæi litlu krílin sem væru að ryðjast út í frímínúturnar, sex eða sjö ára gömul.

Mikið rétt; um leið og ég sá öll þessu fallegu börn fann ég hvernig mér hlýnaði allri að innan og byrjaði að brosa.  Og ekki þurfti ég að bíða lengi eftir að fá það endurgoldið. Það er nefnilega svo auðvelt að fá börn til að brosa; þau eru nefnilega svo klár í því að lifa í núinu.  Í þeirra huga er ekkert til nema stundin sem þau eru stödd í, það er að segja ef við fullorðna fólkið erum ekki að hræra í kollinum á þeim.  

Það er nefnilega ekki eðlilegt að vera sífellt staddur með hugann í fortíðinni eða í framtíðinni; það er ástand sem okkur er því miður innprentað í æsku. Það er gert með skömmum, skipunum eða bara með hegðun; það læra börnin sem fyrir þeim er haft.  Auðvitað getum við ekki bara hagað okkur eins og okkur sýnist og vaðið áfram eins og ekkert hafi í skorist, heldur þurfum við að draga lærdóm af því sem gerðist í fortíðinni, en eingöngu til að auka þekkingu okkar og þroska.  Punktur. Meira höfum við ekki að gera með að dvelja þar.  Líkt er farið með framtíðina; það er lífsins ómögulegt að velta sér upp úr því sem mögulega og ef til vill kannski gæti gerst.  Við leggjum að sjálfsögðu plön, en ef við látum væntingarnar vera miklar, þá er hætt við að vonbrigðin fylgi með í kaupbæti.  Við nefnilega getum aldrei vitað hvaða faktorar munu óvænt hafa áhrif.  

Þá kemur að fyrirsögninni;  Lærum af börnunum.  Lærum að njóta stundarinnar því hún er það eina sem er raunverulegt.  Verum í augnablikinu líka þegar við leggjum plön eða lærum að verkum fortíðarinnar.  Þannig finnum við frið og sátt og lausnir á þeim viðfangsefnum sem við erum að takast á við í lífinu.   Þegar við förum að geta séð fegurðina í skýjunum, fundið hve vatnið er svalandi og hreinsandi, fundið hvað það er gott að brosa og fá bros til baka......notið þess smáa sem kostar okkur í rauninni ekki neitt nema athygli okkar.  

 

Þess vegna ætla ég að vera sífellt að rækta barnið í sjálfri mér.....

 

download

 


"Hlauptu manneskja, hlauptu!!"

Ég upplifi þessa dagana svo mikila þreytu og eiginlega bara almenna vanlíðan hjá svo mörgum. Bara hjá svona ósköp "venjulegu" fólki sem er að lifa ósköp "venjulegu" lífi.  Allir einhvern veginn að reyna að lifa af í stað þess að lifa lífinu, kannski jafnvel án þess að vera sérstaklega meðvitaðir um vanlíðunina beint.  En engu að síður bera sig vel;  "bara hress sko", "nóg að gera og svona", "jú jú, bara allt gott".   Samt vantar einhverja sannfæringu í orðin, eins og eitthvað sé ekki alveg eins og sagt er......

Ég þekki þetta alveg; hef sagt þetta ótrúlega oft sjálf og jafnvel látið eins og eitt bros fylgja með í kaupbæti.  Bara til að koma alveg í veg fyrir að umræðan fari eitthvað dýpra og ég þurfi að segja hvernig mér líður í alvörunni.  Enda hverjum er ekki sama.  Og hvað á viðkomandi eiginlega að gera við mína líðan svo sem?   

Af hverju erum við mörg hver svona þreytt eða lúin?  Vissulega getur lífið verið snúið og jafnvel erfitt. Við sjálf komum okkur í alls konar verkefni og drögum okkur inn í aðstæður sem við vitum ekki fyrirfram hversu þungar verða.   Það er algjörlega á okkar eigin ábyrgð og þar af leiðandi engum um að kenna.  En svo eru það atburðir sem við köllum ekki beint yfir okkur líkt og veikindi, atvinnumissir eða áföll af ýmsum toga.  Við erum misvel í stakk búin að takast á við þessi verkefni allt eftir því hvernig lífið hefur mótað okkur.  

Þá kemur að fyrirsögninni:  "Hlauptu manneskja, hlauptu!".  Það er nefnilega það sem allt of mörg okkar gera þegar tilfinningarnar innra með okkur verða óþægilegar.  Meira að segja fagfólk á það til að ráðleggja okkur að hlaupa í burtu frá óróleikanum!.  Fara í skóla, skipta um vinnu, skreppa á námskeið, blablabla.....  Þetta er fínt til að dreifa huganum og fá útrás.  En þurfum við virkilega að dreifa huganum þegar okkur líður ekki nógu vel?  Er ekki nær að hægja á sér og reyna að róa og kyrra hugann og hvíla þreyttan líkamann?  Ég hef aldrei vitað til þess að lélegar rafhlöður séu til neins gagns, og því skil ég ekki af hverju við þurfum sífellt að gera meira og fara víðar þegar rafhlöðurnar okkar stefna í að tæmast.  Það er einhvern veginn eins og manni sé innprentað að flýja vondar tilfinningar og leyfa óróleikanum að taka völdin.  Hafa nógu andskoti mikið að gera til að vera ekki meðvitaður um mögulega vanlíðan.  

Ég sting upp á að fækka verkefnunum, fara aðeins hægar í umferðinni, taka aðeins minna á í ræktinni, liggja upp í sófa reglulega, láta sér "leiðast" (það er nefnilega ekki leiðinlegt þegar maður róast...).   

 

Þú ríður nefnilega ekki þreyttum hesti.......

 

Horse_BW2

 

 

 


Er til app fyrir jólaboð?

Mér finnst gaman að hitta fjölskylduna í jólaboðinu; rifja upp minningar, heyra sömu söguna frá gömlu frænku, hlægja, skiptast á skoðunum, knúsa nýjustu meðlimina, borða góðan mat.  Svona bara klassískt jólaboð....eða hvað?  

Gamla ég.  Þetta var alltaf svona.  Ég fékk greinargóða lýsingu á raunveruleikanum á dögunum á tveim ótengdum jólaboðum; meiri hluti gesta voru í símanum nánast allt boðið.  Þeir sem voru efstir í aldurspíramídanum (og fámennastir hópurinn) spjölluðu saman á gamla mátan, með orðum, hljóðum, augngotum og gott ef ekki einhverri líkamstjáningu líka.  Ferlega hægt og svolítið bara eins og maður sér í leikhúsum.  

Miðjan í aldurspíramídanum var svona beggja blands; einhverjir kunnu greinilega þessa fornu samskiptahætti sem að ofan var lýst en aðrir treystu sér ekki þangað og læddu sér með breiðasta og neðsta hluta píramídans. Og þar var ekkert verið að slá slöku við; Snjöll samskipti (hlýtur að vera því þetta eru snjallsímar).  Ekkert vesen, engin túlkun, engar langlokur; bara stikkorð og myndir og snapchat og allt á ofurhraða.  Þarf ekki einu sinni að opna munninn eða hlusta.  

Þetta gerir mig pínu dapra.  Eða gamla.  Mig langar að hitta fólk og eiga orðaskipti með öllu því persónulega sem fylgir með.  Snerta öxlina vinalega, sýna hláturhrukkurnar mínar í einlægni, lesa hluttekningu úr augunum á frænda, finna velvilja frænku.  Hvert stefnum við með þessu?  

 

Það er kannski bara kominn tími til að taka þetta á næsta level og þróa gott jólaboðsapp svo við getum bara sleppt þessu "veseni" og verið heima........

 

4beee7743bff4810b59205f2a7809714J98Cbx

 

 

 

 


Og nú hefst skammtímaminnisinnmötun framhaldsskólanema!

Jólaprófin byrja í næstu viku;  framhaldsskólanemendur á landsvísu leggjast yfir bækur og reyna að troða inn visku annarinnar af (mismikilli) áfergju.  

Þetta er engin ný saga, þetta var svona líka þegar ég var í MH fyrir 100 árum.  Það sem ekki fór inn í kollinn í september, október og nóvember skal troðið inn á methraða og þegar því hefur verið gubbað út á örskotstíma, þá er spurning hvað situr eftir.  

Þá kemur að inntaki þessa blogs;  Er þetta ekki illa farið með tíma kennara, nemenda og alla þá þekkingu sem er í boði?  Það er nefnilega hægt að gera alveg heilmikið við þennan tíma í desember sem annars fer í ofangreinda iðju.   Það sem ég vildi sjá gert í staðinn er:

1  Leggja niður annarpróf.  Í stað þess fari fram stöðug verkefnavinna og jafnvel stöðutökupróf jafnt og þétt yfir önnina.  Í verkefnavinnu þarf nefinlega nemandinn að kynna sér efnið, jafnvleg fara dýpra í það og leita heimilda víðar, safna þekkingunni saman og formúlera með eigin orðum í skilaverkefni.  Þetta gætu verið bæði hóp- og einstaklingsverkefni til að kenna aðferðir vinnumarkaðarins, því þangað stefna þessir nemendur.  Þannig verður til þekking byggð á skilningi og í takt við veruleika atvinnulífsins.

2.  Við þetta verður svigrúm til kennslu rýmra, því í stað þess að eyða restinni á nóvember í upprífjun og desember í próf og próflestur, en hægt að vinna í þekkingarmiðlun til nemendanna alla önnina.  

3.  Með því að hafa stöðug verkefni yfir önnina fær nemandinn virkt aðhald og getur því áttað sig á stöðu sinni áður en of seint verður í rassinn gripið.  Gæti þetta leitt til þess að færri dyttu úr námi?

4.  Til að þekking "festist" í huga okkar, þá þarf að vera skilningur til staðar.  Öll varanleg þekking situr í undirvitundinni, en vandinn er bara sá, að ef við skiljum ekki það sem verið er að kenna þá vistast það ekki.  Þess vegna er próflestur í formi páfagaukalærdóms tilgangslaus og tímaeyðsla.

 

 

Það er alveg deginum ljósara að tímarnir hafa þróast hratt og breytingar verið örar í samfélaginu, en af einhverjum undarlegum ástæðum er enn viðhaft sama kennsluformi og var í Lærða skólanum fyrir öldum síðan.  Finnst ykkur þetta í lagi?

 

school_2377068b

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigríður Lárusdóttir

Höfundur

Sigríður Lárusdóttir
Sigríður Lárusdóttir
Í viðleitni minni til að halda andlegu jafnvægi mun ég bara blogga jákvætt og uppbyggjandi.....hvað held ég það lengi út?
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • internal-conversations-300x222
  • 41YPEWXf6OL. SX364 BO1,204,203,200
  • 14456633739 17cd93830a c
  • 1 OxPMWDQ1SXUdGG-EXgDBBQ
  • shame-quote-2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 50195

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband