Færsluflokkur: Bloggar

"Leiðtogi óskast"

Það er sama hvað ég hugsa stíft; mér dettur bara enginn í hug sem fyrirmyndar leiðtogi á þessu blessaða landi.  Þá er ég ekki bara að hugsa um forsetann, heldur líka innan þingheims. 

Hvaða kostum þarf leiðtogi að vera búinn, svo hann komist á blað (hjá mér)?  Hann þarf að búa yfir greind, dugnaði, heiðarleika, kjarki og staðfestu.  Þetta eru persónulegir eiginleikar sem mótast í uppeldi og með reynslu.  En að auki þarf hann að vera með gott verkvit; geta sett markmið og skapað sýn á þau og fengið lýðinn með sér í að skapa sömu sýn á markmiðin og þannig kveikja viljann til að vinna saman að þeim. Það ef oft erfitt að fá fólk til að taka þátt í, og samþykkja breytingar, þar sem íhaldsemi og óttinn við það óþekkta er svo djúpstæður í mannskepnunni.  Því þarf leiðtoginn að geta greint hversu langt má ganga og finna nokkurs konar meðalveg.  Enda fæst ekkert fram með yfirgangi nema bara aukin mótstaða. 

Ég auglýsi eftir svona leiðtoga.....

 

 

istock_000005449269inspiredpeople.jpg

 

 

 


Hvar læra börnin það sem fyrir þeim er haft?

Ja..maður spyr sig nú bara!  Mér fannst nú alveg nógu flókið að vinsa úr þegar ég var barn fyrir næstum hálfri öld.  Þá lærði ég af foreldrunum, systkynum mínum, vinunum, skólanum, bókum, íþróttafélaginu, ríkissjónvarpinu (sem var frekar vandað), og kannski einu dagblaði (fæstir keyptu Moggann, Tímann og Þjóðviljann).  Þetta er svona nokkurn veginn heildarlistinn.

Börnum í dag er vorkunn; Við upptalninguna hér að ofan bætist netið (hér undir er ótæmandi listi sem ég hef reyndar ekki alveg hugmyndaflug í) , ógrynni sjónvarpsstöðva, gríðarlegt flóð kvikmynda,  endalaust flóð tímarita.......Við þetta má svo auðvitað bæta að samvistir með fjölskyldunni eru langtum minni.  

Ég velti fyrir mér hvort barnshugurinn eigi ekki erfitt með að finna út úr því hver er "rétta" eða "æskilega" fyrirmyndin til að læra af.  Hugurinn leitar því í allar áttir.  Getur þetta verið æskileg þróun?  Ég bara veit það ekki....

 

childrens.jpg

 

 


Hver á sér fegra föðurland??

Ég var að raula þetta fallega lag yfir eldamennskunni, svona annars hugar, eins og gjarnan er þegar maður raular.........Allt í einu áttaði ég mig á því, að innra með mér hafði vaknað einhvern veginn döpur tilfinning. Því tók ég mig til, náði í ljóðabók og las ljóðið yfir af gjörhygli, og áttaði mig þá á hversu fjarri við erum stödd þessum veruleika, sem Hulda óskaði hinu íslenska lýðveldi. Engin furða að ég yrði döpur....

Ljóðið var samið árið 1944 í tilefni af stofnun lýðveldisins og vann til verðlauna í ljóðasamkeppni, sem haldin var af tilefninu.  Nú, árið 2012, er lýðveldið komið á eftirlaunaaldurinn og verður að segjast að það ber aldurinn frekar illa.  Mér líður eiginlega eins og ég sé að lesa minningargrein við að fara með þetta fallega ljóð:

HVER Á SÉR FEGRA FÖÐURLAND

Hver á sér fegra föðurland,
með fjöll og dal og bláan sand,
með norðurljósa bjarmaband
og björk og lind í hlíð?
Með friðsæl býli, ljós og ljóð,
svo langt frá heimsins vígaslóð.
Geym, drottinn, okkar dýra land
er duna jarðarstríð.

Hver á sér meðal þjóða þjóð,
er þekkir hvorki sverð né blóð
en lifir sæl við ást og óð
og auð, sem friðsæld gaf?
Við heita brunna, hreinan blæ
og hátign jökla, bláan sæ,
hún unir grandvör, farsæl, fróð
og frjáls - við ysta haf.

Ó, Ísland, fagra ættarbyggð,
um eilífið sé þín gæfa tryggð,
öll grimmd frá þinni ströndu styggð
og stöðugt allt þitt ráð.
Hver dagur líti dáð á ný,
hver draumur rætist verkum í
svo verði Íslands ástkær byggð
ei öðrum þjóðum háð.
Svo aldrei framar Íslands byggð
sé öðrum þjóðum háð.

 

islenski-faninn-300x207.jpg


Er þetta eitt langt leikrit?

Ég viðurkenni það; ég hef oft þagað, næstum því skammast mín, fyrir líðan mína.  Svo ég tali nú ekki um hugsanir mínar!  

Ég geri það ekki lengur....eiginlega aldrei að minnsta kosti.  Eftir að hafa spilað mína rullu í hartnær 48 ár, þá er ég alveg að fatta þetta; það er ekki hægt að gera 7.033.918.659 manns til geðs.(tölur frá kl 22:56 í kvöld...).  Þess vegna legg ég mig fram um að þóknast sjálfri mér.  

Hvað fær okkur til að reyna svona vonleysilega hegðun?  DÓMAR!  Og þá aðallega fordómar.  Við erum stútfull af þeim, enda er búið að velta okkur fram og til baka í tromlu samfélagsins, stimpla okkur bak og fyrir á færibandinu og pakka okkur svo rækilega í "litla kassa á lækjarbakka". 

Það ærir óstöðugan að hugsa nógu mikið um þetta ...líka stöðuga, reyndar. 

 

Lífið er samt dásamlegt!

 

mcmansions-300x2231.jpg

 

 


Hugsanaskekkjur.

Einkennilegt hvað mannskepnan er dugleg að viðhalda eigin hugsanavillum....Við eigum í sífelldum innri samtölum og erum fljót að svara!  Hversu langt við förum út af braut raunveruleikans er síðan það sem gerir útslagið um hvort við erum í jafnvægi eða ekki.  Það er í rauninni sorglegt að hugsa til þess hvaða staðlar eru fyrir framan okkur til viðmiðunar; við viljum vera svona efnuð, eiga svona bíl, vera svona sterk, vera svona mjó,........  Í allri þessar vonlausu samanburðarkeppni gleymum við að horfa inn á við og meta það sem við getum og höfum.  Við erum öll uppspretta hæfileika og náðargáfna, hver á sinn hátt, en vitum ekki almennilega af því þar sem hugurinn er allur út á við....eins og radar að leita uppi hvað okkur skortir.

Mér finnst alveg dásamlegt að hugsa til þess hvernig lífið væri, ef allir færu að hugsa um hvað þeir hafa í stað þess að hugsa um hvað þá vantar!

 

ideal_world_web1.jpg


Lýðræði hvað....

Ég er farin að trúa því að lýðræðið sé útópía sem fær ekki staðist í raunveruleikanum.  Það er einfaldlega þannig, að þeir sem taka ákvarðanir verða að finna afleiðingarnar á eigin skinni, annars eru þær bara teknar á röngum forsendum. 

Þegar "yfir-valdið" hefur örugg laun, öruggt húsaskjól, fínan eftirlaunasjóð,  þá er mjög líklegt að "það" geti illa sett sig inn í annan veruleika.  

Kannski er anarkismi eitthvað betri.....?

 

hands.png


Gjaldeyrishöft eru eins og alvarleg kransæðastífla....

Við alvarlegri kransæðastíflu er aðeins eitt að gera; hjartaaðgerð.  Eftir það tekur við langt og strangt ferli uppbyggingar með það að markmiði að ná heilsu og njóta lífsins. 

Það sama þarf að gera við "kransæðastíflu" íslenska ríkisins; losa um gjaldeyrishöftin og takast síðan á við endurhæfingu þjóðfélagsins.  

Krónan mun hrapa, innflutningur leggjast niður, verðlag rýkur upp (það mætti alveg aftengja vísitöluna tímabundið, þetta eru nú einu sinni allt mannana verk)......sem sagt; ástandið verður öllum ljóst, því það "kemur út úr skápnum".  Þá fyrst verður hægt að vinna á vanda þjóðarinnar, því á meðan ástandið er í felum, er engum almennilega ljóst hvernig taka megi á vandanum.  Þangað til, verður þjóðarhjartað veiklað.....

 

 

 heart_valves.jpg


Sér-grefur-gröf-hegðun

Dæmi:

Tvö börn eru í sandkassa, annað barnið með stóra skóflu en hitt barnið með litla skóflu.  "Þú ert með svo lélega og litla skóflu, og gerir lítinn og ansalegan kastala".  Eðlileg varnarviðbrög: "Þú ertu nú með svo stóra og klunnalega skóflu og getur ekki gert lítinn og nettan kastala eins og ég". 

Þetta samtal má heimfæra á umræðu um trúmál, stjórnmál, jafnréttismál, kynþáttafordóma, grunnskólasamfélagið, heilbrigðiskerfið, Háskólasamanburð,.....o.s.frv. 

Mergur málsins er, að á meðan við erum á sandkassaplaninu í almennri umræðu þá næst ekki sameiginlegur flötur.  Og það sem verra er, að með því að rakka niður mótaðila, þá grefur maður undan sjálfum sér.  

Hugsið ykkur hvað það væri gaman í sandkassanum ef samtalið væri: " Vá, þú ert með allt öðru vísi skóflu en ég, spennandi.  Kannski getum við þá annað hvort unnið saman að flottum kastala, eða þá að við gerum tvo ólíka og fáum þannig fjölbreytni í sandkassann"

 Njótum fjölbreytinnar og förum strax að horfa í kringum okkur með það að leiðarljósi. building_sandcastles_1.jpg

 


Einn léttur sem tengist fréttaþema vikunnar:

Hvað er líkt með Þjóðleikhúsinu og Þjóðmenningahúsinu?
Jú það er verið að sýna Vesalingana á báðum stöðum fyrir fullu húsi!

 

Ég velti því fyrir mér hvor sýningin kostar meira, og einnig hvor sýningin skilar meiru......

 

laughing-zebra-jeanette-oberholtzer.jpg


Hvar byrjar bælingin?

Sjáið gleðina í svip foreldrana þegar barnið tekur fyrstu skrefin...og dettur.  Sjáið gleðina í svip barnsins þegar brosandi foreldrarnir hrósa því fyrir þetta afrek. 

Ég minnist þess ekki að hafa séð sömu innilegu gleðina skína úr andlitum foreldranna þegar barnið hellir óvart úr glasinu, missir seríós-pakkann á gólfið, sullar ís á peysuna.  Samt er þetta sama barn að gera nákvæmlega sama hlutinn; að læra á lífið.  Svo heldur þetta áfram; sittu kyrr, passaðu þig, vandaðu þig, ekki, nei, hættu.......

Af hverju snúum við ekki blaðinu við og í stað þess að hamla, þá flæða með börnunum í endalausri forvitni og lærdómsfýsni?  Þau eru aðdáunarverð, láta ekki deigan síga þrátt fyrir endalaus "mistök". Þeirra eina markmið er að gera eins og við, fyrirmyndirnar.  Leyfum þeim að fikta og spyrja og prófa.  Við getum nefnilega lært svo mikið af þeim á meðan......lært að horfa inn á við til að finna barnið í okkur.

Prófið, það er nefnilega svo miklu skemmtilegra....babies-1_0.jpg


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigríður Lárusdóttir

Höfundur

Sigríður Lárusdóttir
Sigríður Lárusdóttir
Í viðleitni minni til að halda andlegu jafnvægi mun ég bara blogga jákvætt og uppbyggjandi.....hvað held ég það lengi út?
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • internal-conversations-300x222
  • 41YPEWXf6OL. SX364 BO1,204,203,200
  • 14456633739 17cd93830a c
  • 1 OxPMWDQ1SXUdGG-EXgDBBQ
  • shame-quote-2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband