Færsluflokkur: Bloggar

Hey, tölum frekar um dauðann, kynlíf og tilfinningar....

Hvað tölum við um?  Veðrið, verðbætur, mat, sjónvarpsefni, pólitík, fótboltann, sumarfrí, vinnuna, skólann, golfið..... Fínt, eitthvað verðum við að tala um og þetta kemur okkur flestum svo sem við. En ekki öllum.  Höfum víst misjafnlega mikinn áhuga á þessum málum, allt eftir því hvað snertir beinlínis daglegt líf okkar. Þannig mætti kannski segja að þetta séu svona utanaðkomandi þættir sem eru breytilegir eftir lífstíl, menningu og búsetu.

Hvað snertir okkur öll?  Öll í heiminum þess vegna? Það er í mínum huga fernt:  Fæðing, tilfinningar, kynlíf og dauðinn. Fæðinguna þurfum við ekkert sértsaklega að ræða held ég, enda erum við frekar skoðana- og dómgreindarlaus þegar við fæðumst og höfum ekkert með það að segja. En öll þurfum við að takast á við eigin tilfinningar; öll lifum við kynlífi (komm on, á því byggist víst tilvist okkar) og öll deyjum við. Ræðum það:

 

1. Dauðinn: Það er sérstakt að hugsa til þess hvað dauðinn er ennþá mikið tabú.  Hvað hafið þið oft setið í góðra vina hópi, eða með börnunum ykkar og rætt dauðann?  Það er víst, að við munum öll fyrr eða síðar fylgja nákomnum í dauðann eða horfast í augu við hann sjálf.  Er ekki gott að vera búinn að fara í gegnum heimspekilegar umræður um viðhorf til hans, eða bara praktískar umræður um útför, líffæragjöf og svoleiðis nokkuð?  Það má alveg taka húmorinn inn í umræðuna til að fá nýtt sjónarhorn á þennan eðlilega fylgifisk lífsins.

 

2. Kynlíf:  Þetta er stóra "bannorðið" á mörgum heimilum.  Ég er ekki að tala hér um að fara út í nein smáatriði í framkvæmd þess, heldur bara að velta fyrir mér hvort ekki þurfi að ræða kynlíf á heilbrigðan hátt.  Ekki bara þegar barnið er orðið unglingur, heldur byrja fyrr, eða um leið og barnið sýnir þroska til.  Þá verður kynlíf ekki óþekkt og spennandi, forboðið og laumulegt og blessaðir unglingarnir fá vitrænni þekkingu á fjölbreytileika þess en fæst af klámsíðum internetsins.  Tabúið er í hugum okkar foreldranna, því börnin læra bara það sem fyrir þeim er haft. Það ætti ekki að þurfa að setjast niður með svona ábúðarfullu "Jæja, nú skulum við tala saman", heldur ætti þessi umræða að vera jafn eðlileg og "hvað er í matinn í kvöld".

 

3. Tilfinningar:  Hver nennir að ræða þær; er tímafrekt og flókið....  Ekki endilega rétt.  Við þurfum bara að vanda okkur við að hlusta eftir þeim og læra viðbrögð okkar við þeim.  Það þyrfti að byrja strax og börnin geta talað að kenna þeim að hlusta á sína innri rödd.  Í stað þess er okkur kennt að leyna líðan okkar sé hún óþægileg.  Svo lærum við líka að skammast okkar fyrir hvernig okkur líður; "hættu þessari fýlu" eða "vertu ekki reiður" o.s.frv..  Pælið í vitleysunni!  Það er til fullt af vel uppsettum gátlistum á netinu, þar sem hægt er að merkja við tifinningalega líðan sína og átta sig þannig á blaði á viðbrögðum og hegðun.  TIlfinningalæsi er sko örugglega mikilvægasta læsi sem hægt er að kenna börnum. 

 

Förum nú að tala um það sem stendur okkur hvað næst......

 

6a00d83452194e69e2017ee81ffd85970d-320wi.jpg

 

 

 


Mér finnst "Pollýanna" alveg glötuð!

"Nei, hæ! Þú hér?  Hvað segist"?  "Bara allt í gúddí, allir bara hressir og svona, brjálað reyndar í vinnunni" (djöfull líður mér illa yfir að þurfa að hitta fólk núna, úff. Vá, hvað á ég að segja..).

Hugsið ykkur hvað það eru ótrúlega mörg samtöl per dag sem eru gjörsamlega innihaldslaus, fölsk og gera ekkert fyrir neinn.  Ég er ekkert að segja að það þurfi að leysa gátuna um tilgang lífsins eða lausn efnahagshrunsins (sem er reyndar kannski tigangslaust....?) í hvert sinn sem munnurinn er opnaður. 

Staðal-Íslendingurinn er svo greiptur inn í undirvitund okkar, þessi hressi og sterki, með allt á hreinu og skýrar meiningar, að við erum alltaf með línurnar á hreinu þegar yrt er á okkur.  Fyrir vikið eru allt of margir staddir í leikriti í stað þess að vera staddir í eigin lífi.  

Hver er tilgangur með þessu leikriti?  Það er annað hvort að gára nú ekki of mikið vatnið hjá viðmælandanum, eða þá (sem er nú frekar líklegra) að gefa ekki höggstað á sér með því að sýna viðkvæmni eða ófullkomnleika. En kommon; höfum við eitthvað að gera með svona fölsk samskipti?  Erum við virkilega svona hrædd um sjálfsmyndina?  Ef allir væru bara heilir og segðu eins og er, þá fyrst sæum við að við erum meira og minna að glíma við sömu hlutina.

 

Það er synd að vera í sífelldu leikriti sem skilar ekki einu sinni almennilegum launum.........

 

peoples-masks-photo.jpg

 


Heil kynslóð karlmanna í ímyndar-krísu?

 

Vinnan göfgar manninn; latur lítið hey; harkan og heimskan; do it now; ten steps to success; time management; the multitasker; exceed your limitations.....!

Það er heil kynslóð, eða tvær, af karlmönnum á þessu landi í dag sem ólust upp við að þetta væru verkfæri til árangursríks lífs og þannig lykillinn að hamingjunni.  Ég ætla ekkert út í þetta með Range Roverana og það allt.... Pabbar þessara manna tilheyrðu hörkukynslóðinni sem ræddi ekki vandamálin, kvartaði ekki og hafði það að markmiði að "herða drenginn" svo eitthvað yrði úr honum.  Þetta virtist virka, svona á yfirborðinu alla vega.  Þessar fyrirmyndir þeirra voru nokkuð skýrar og því ekki svo flókið að rata leiðina sem fyrirmyndin fór; vinna vel og mikið. Svo til að sýna dugnaðinn var skýrasta leiðin sú, að varpa því út í umhverfið með eignum og lífsstíl. Ekkert ómannlegt við það. 

Hámarkinu var svo náð á "2007-tímabilinu".  Peningar, jakkaföt, utanlandsferðir, flottir bílar, sérhannaðir garðar, sumarhús, nýtt golfsett....þið fattið hvað ég meina?   En svo barasta fór allt á rassgatið.  

Í þessu endurskoðunarferli þjóðarinnar heyrast æ hærri raddir sem tala um tímaskeið umburðarlyndis, samkenndar, auðmýktar, þolinmæði, mannræktar, sanngirni, hógværðar.  Nýjar leiðir eru teknar upp í stefnumótunum fyrirtækja sem horfa til mannauðs, fjölskyldugilda, heildræns heilbrigðis og að leyfa hlutunum að þróast.  Þetta er eitthvað sem hingað til hefur verið talið til kvenlægra eiginleika.

Hvert eiga allir þessir menn þá að horfa?  Þeir spyrja sig e.t.v.; hvað stend ég fyrir; hvað vill ég; hverju hef ég áorkað; hvert á ég að leita? Þeim líður illa, tapa einbeitingunni, finna fyrir kvíða og minnkandi sjáfstrausti. Fjótlega fer þetta að speglast út í umhverfið og þá er erfitt að vinda ofan af vítahringnum.  Þetta er ekki ágiskun út í tómt loftið hjá mér, heldur raunveruleiki sem ég mæti í minni vinnu.

 

Það er vont að vera týndur; hjálpum hvort öðru í leitinni.......

 

lost_man_by_michelrajkovic.jpg


Hvað er í "reminder" í símanum þínum?

Kannski fundur á þriðjudaginn; má alls ekki gleyma honum, alveg möst.  Tannlæknir á föstudaginn; vá, hver getur munað svoleiðis fágæta og spennandi viðburði?  Kíkja í skólatöskuna hjá ungunum vikulega (frekar lélegt afspurnar ef þau mæta með fúlt nesti frá síðustu viku aftur í skólann eftir helgi...). Ræktin í hádeginu, þú veist, halda við vöðvunum og svona.

Kannski eru líka litlir daglegir hlutir sem gætu týnst í verkefnaflóði rútínunnar; p-pillan, hún má ALLS EKKI gleymast...úff, hringja í mömmu (annars hringir hún svekkt og....ja, ég segi ekki meir).  Allt rosa mikilvægt og bara spruning um líf eða dauða, eða hvað? 

Svaka sniðugt að geta bara sett þetta í snjalla símann og bara klára sig í gegnum verkefni dagsins og geta sofnað rólegur og sáttur....eða hvað?  Æ, því miður; sífellt freiri eiga orðið í svefnerfiðleikum í dag einmitt vegna alls þessa áreitis og álags sem fylgir því að vera komin í  háþróað-nútíma-tæknivætt-velferðar-samfélag.  Það hefur nefnilega gleymst þarna á leiðinni að kenna okkur að vinna úr þessu öllu áreyti þannig að hugurinn fá að endurnærast og "vista" allt á sínum stað í kollinum.  Það þarf ekkert endilega að keyra í flýti niður í jógastöð til að íhuga, eða drífa sig að mæta í slökun (sem er samt hið besta mál).  Gefa sér bara 5 mínútur 2-3 sinnum yfir daginn til að loka augunum og draga athyglina inn á við; hugsa t.d. bara um andardráttinn, eða finna hversu gott er að loka augunum, einbeita sér að vöðvaslökun, ímynda sér öldurnar baða tásurnar o.s.frv.

 

Hvernig væri nú að bæta inn í símann þessari slökunarstund og stilla á "endurtakist daglega"......

 

images_1189106.jpg

 


Það er hrikalega erfitt og slítandi að ala upp barn.....

....það er taugatrekkjandi, flókið, óeigingjarnt, afar kostnaðarsamt, tímafrekt, krefst aga, er niðurbrjótandi, skilar ekki skjótum árangri, vanþakklátt, veldur álagi, truflar starfsframa.....   Hvernig dettur fólki almennt í hug að fara út í barneignir?  Er þetta ekki bara augnabliks hvatvísi og á jaðrinum að kallast dómgreindarskortur? Ég hugsaði að minnsta kosti ekki út í ofangreint þegar ég ákvað mínar barneignir.

Ég vildi óska þess að farið væri út í hvaða gífurlega ábyrgð fylgir því að fara í barneignir.  Nú vil ég taka fram að ég er ekki full eftirsjár, síður en svo.  Aftur á móti verð ég að viðurkenna að þetta hefur tekið á og kostað ýmsar "fórnir".  En akkúrat í því felst uppeldi; að leggja niður ýmsa fyrri iðju einlífis og taka upp nýja iðju sem fylgir því að bera 100% ábyrgð á lífi og velferð annars einstaklings.  Það er ekki fyrr en 18 ára (sem ég reyndar tel ofmat) sem þessi grey teljast sjálfbær, en þá fyrst hefst alvaran hjá þeim og þá er ekkert verðmætara en að vera til staðar og miðla af reynslu.  Uppeldi er nefnilega ekki þess eðlis, að því megi sinna í hjáverkum; uppeldi er í mínum huga forgangsverkefni númer eitt.  Markmiðið er í mínum huga að skila inn í þjóðfélagið einstaklingi sem er betri samfélagsþegn en ég.  

En þetta gerist ekki bara út frá eðlisávísun einni; sú uppeldisaðferð varð úrelt þegar við stofnuðum samfélög fyrir þúsundum ára.  Því eigum við að nýta okkur allan þann hafsjó af fróðleik sem til er um uppeldi; bækur, námskeið, fagfólk o.s.frv. Ömmur og afar og mömmur og pabbar tilheyra annari kynslóð og fylgja oft ekki hröðum breytingum þjóðfélgasins og því er svo gott að vita af allri þessar aðstoð.  

Launin sem við uppskerum eru nefnilega bæði persónuleg og samfélagsleg ........

parenting_1188357.jpg

 


Samstaða þjóðar er útopía....

Í áramótaávarpi forsetans lagði hann áherslu á að ná þyrfti samstöðu þjóðarinnar.  Þann söng hafa margið kveðið þegar ræða skal lausn á vanda þessarar þjóðar í kjölfar hrunsins.  Voðalega væri það gott ef allir 319.575 einstaklinar þessa lands gætu nú tekið saman höndum og fundið út einhvern meðaltalslífsstíl sem fjármunir þessa lands dygðu til.  En svo er nú ekki, og ég held hreinlega að það sé hreinn ógjörningur að mynda samstöðu.  Tökum bara tímann eftir hrunið 2008 og pikkum út örfáa punkta sem munu koma í veg fyrir að vilji verði nokkurn tímann til að ná saman:

1. Þrátt fyrir að innistæðutryggingar bankanna væru að 20.000 evrum, þá ákvað þáverandi ríkisstjórn Geirs að borga allar innistæður að fullu. Þetta kostaði 2.400.000.000 kr.  Ef einungis hefðr verið greiddar 750.000.000 þá hefði það dekkað innistæður 95% einstaklinga að fullu.  Sem sagt; mismunurinn fór í að greiða innistæður til 5% einstaklinga þessa lands.  Hefði ekki verið þarna kjörið tækifæri að jafna misskiptingu auðs og þar með spara stóra fjármuni, sem hefði t.d. verið hægt að veita í heilbrigðisþjónustuna?  Maður spyr sig bara, hvernig 5% innisæðueiganda fóru að því að verða svona efnaðir; unnu þeir svona miklu betur og meira en allir hinir?  Þessi gjá verður ALDREI brúuð og glataði ríkisstjórnin frábæru tækifæri með þessum gjörningi sínum.  Afleiðingin er sú, að þessi fámenni hópur hefur enn meiri völd í sínum höndum á meðan hinir hafa það sífellt verr.

2. Bankarnir; úff hvar skal byrja og hvar enda?!  Lítið dæmi: Lítið fjölskyldufyrirtæki keypti húsnæði undir rekstur fyrir 20 milljónir; eftir hrun fór lánið upp fyrir eignarverðmæti.  Ekki hægt að afskrifa neitt og bankinn hirti húsnæðið. Í sömu viku selur bankinn örðum aðila eignina fyrir 10 milljóir; sem sagt, afskrifar 10 milljónir .  Ótal hliðstæð dæmi fyrirtækja og einstaklinga skapa reiði og vilja til samstöðu engan.

3. Sá hópur sem á fjármagnið í landinu gefur ekkert eftir.  Hver vill minnka við sig ónauðbeygður?  Hver vill lækka lifistandard sinn að óþörfu? Mikill vill meira, það virðist liggja í mannlegu eðli, að minnsta kosti ef aðstæður eru til þess. Þessi hópur hefur engan skilning eða innsýn inn í daglegan heim þeirra sem hafa það verr og hefur engan hvata til að setja sig í aðstæðurnar.

4. Hvað er gróði?  Ef fjármagnseigandi ávaxtar sitt pund, þá koma þeir peningar frá þeim sem tapa, ekki satt? Eða þá að meira er prentað af seðlum, sem svo fellir verðgildið.  Síðast þegar ég vissi þá uxu peningar ekk né fjölguðu sér ekki upp úr þurru.  Þannig breikkar bilið sífellt milli ríkra og ekki ríkra.  Samstaða? No way.

 

Látum ekki troða hverju sem er ofan í okkur í komandi kosningabaráttu.....

 

election_vote_politician_hear_1188755_1186240.jpg

 

 


Hvernig hættir maður að reykja/borða sætindi/drekka gos/borða óhollt/naga neglur/.......?

....hvernig hætti ég að hugsa um áramótaheit?  Þetta er allt af sama meiði; lærð hegðun sem liggur djúpt í undirvitundinni.

Í megindráttum hefur hugsun okkar verið skipt í undirmeðvitund (subcontious mind) og meðvitund (consious mind) og eru hlutföllin skilgreind 90-95% undirvitund og 5-10% meðvitund.  Eðli undirvitundarinnar virðist vera að gæta þess ávallt að halda í okkur lífinu á sem einfaldastan hátt (fight og flight viðbrögðin).  Þegar við komum í nýjar aðstæður sem við kunnum ekki á, þá grípum við til meðvitaðrar hugsunar og leitum lausna til að "lifa þær af".  Það gerum við með því að meta aðstæður, alvarleika, útkomu, tilgang, gagnsemi o.s.frv. og út frá því mati bregðumst við við með hegðun eða framkvæmd.  Ef við síðan lendum í samskonar aðstæðum aftur, svo ég tali nú ekki um oftar, þá myndast lærð hegðun og er hún vistuð í undirmeðvitundinni, þannig að við þurfum ekkiert að hugsa um þetta ferli meira; það er bara sjálfvirk hegðun.

Nú er lífið bara þannig, að við þroskumst og breytumst og því getur þessi lærða hegðun orðið afar óhentug í þessum breyttu aðstæðum. Þá er ekkert annað í boði en að endurmeta stöðuna og breyta því sem þarf að breyta. En þar stendur yfirleitt hnífurinn í kúnni; við eiginlega nennum því ekki.  Við viljum fá fixið okkar, þrátt fyrir að meðvitund okkar skilji að leiðin að fixinu er ekki heilsusamleg, jafnvel skaðleg.  Undirvitundin upplifir óróleika, ótta, kvíða , reiði, jafnvel sorg, ef hún missir að þeirri vellíðan sem fixið gefur.  

Þess vegna er eina leiðin til að ná að breyta hegðun til bættrar heilsu og lífsgæða sú, að leita inn á við og finna hvert fixið er og hvað er verið að fixa.  Þá fyrst er hægt að leita nýrrar hegðunar sem gefur sömu fyllingu.  Þannig missir undirvitundin ekki af ánægjunni, heilsufarið batnar og sjálfánægjan vex.

 

Elskum sjálf okkur því við erum lífið......

 

resolutions.jpg


Vonbrigði eru alltaf afleiðingar væntinga.....

Jólin gengu í garð.  Varð einhver hissa? Nei, ég hélt ekki.

Samt er eins og það hangi yfir mörgum einhvers konar ósýnileg hótun, eða ógn, um að ef föstu rituali er ekki fylgt í aðdraganda jólanna, þá barasta komi ekki jólin.  Sem betur fer njóta flestir (held ég) allra þessara verka sem "þarf" að sinna á aðventunni, en þau ættu auðvitað að vera á þeim forsendum að njóta, en ekki að verða.  

Svo gerist það sem enginn setti inn í planið; maður leggst í rúmið á aðfangadag með flensu eða ælu; "SHI.....og ég sem var búin að eyða svo rosalega miklum tíma og peningi í að undirbúa þessa fullkomnu stund!"  Og hvað þá?  Jú, mikil ósköp, jólin koma......og líða.  Þá er bara kúnstin að snúa þessu ekki upp í ergelsi og svekkelsi og vonbrigði yfir að "missa af" því sem átti að vera svo grand og glæsilegt. Leiksviðið og sýningin sem heitir "jólin" sem búið var að setja upp í huganum gekk ekki eftir.  Stöðunni verður ekki breytt, einungis hugarfarinu.  Það er gömul saga og ný að hrein og sönn gleði finnst víst bara innra með okkur í þeim aðsæðum sem við erum hverju sinni.

 

Kannski eru væntingarnar það eina ranga í þessu öllu saman..........

 

expectations.jpg

 


Hvað er með þetta þing...og stjórnsýsluna almennt?

Þann 1. janúar 2012 voru 319.575 búsettir á íslandi.  Sveitafélög voru um 80.  Þingmenn 63. 

Ástæða þessa blogs er einfaldlega sú að nú er ég svekkt, leið, aðeins pirruð og finnst gróflega brotið á réttlætiskennd minni.  Ég nefnilega hef kíkt öðru hvoru inn á beina útsendingu frá Alþingi.  Hvað er eiginlega í gangi þarna?  Veit þetta fólk ekki hver borgar launin þeirra?  Gera þau sér grein fyrir að sami launagreiðandi er að horfa á eftir "nútímaþrælum" flýja vinnustaðinn sinn á heilbrigðisstofnunum landsins vegna álags og lélegra launa?  Mér þætti áhugavert að sjá t.d. starfsfólk inni á deildum Landspítalans arga og þvarga í árás og vörn til skiptis um það hvernig sinna ætti sjúklingunum.

Ég er svo einföld og réttsýn að eiga mér þann draum, að í þessu fámenna landi ætti að vera hægt að vinna að því sameiginlega markmiði að öllum liði vel.  Nóg er til af fjármagni til að svo megi verða.  Allir vilja góðar menntastofnanir, allir vilja gott heilbrigðiskerfi.   En svo framarlega sem þetta gamaldags og gagnslausa stjórnkerfi er við lýði, þá mun ekkert breytast.  Heimfærið þennan rekstrarstíl sem ríkir á þingi yfir á fyrirtæki eða jafnvel heimili.  Hver höndin upp á móti annari, andsvör við andsvörum. Einn vill einkavæða en hinn vill ríkisvæða.  Endalaus hringavitleysa sem leysist aldrei.  Hægri, vinstri, kapítalismi, sósíalismi, 80 sveitastjórnir........þurfum ekki lengur á þessum leiðum að halda.

Það mun aldrei komast á sátt og friður hér (frekar en annars staðar) á meðan ekki næst að reka þetta land á nýjan hátt; með sameiginlegu markmiði, fagþekkingu, manngæsku og réttsýni.  

EN...græðgin verður alltaf einhverjum að falli.....

 

disagreement1.jpg

 

 


Þarf að fá borgað fyrir allt?

Í dag hlustaði ég á viðtal við starfsmann Geðhjálpar, þar sem hún lagði mikla áherslu á dýrmæti þess að hafa vinnu.  Að geta mætt á sinn fasta stað og átt í leiðinni samskipti við aðra. 

Þetta fékk mig til að hugsa um alla þá sem misst hafa vinnuna undanfarin misseri og eru við fulla heilsu.  Langflestir í þessum hópi fá atvinnuleysisbætur á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi, en á meðan er hætta á að þessir einstaklingar einangrist félagslega og jafnvel fyllist vonleysi yfir stöðunni vegna aðgerðarleysis og/eða tilgangsleysis.

Sjálfboðaliðsstörf;  það er svo víða hægt að koma til hjálpar og gera gagn án þess að þiggja laun fyrir í formi peninga.   Samhjálp er heilbrigð og holl ef hún er sprottin frá hjartanu og hennar er víða þörf.  Listinn yfir stuðningsfélög, líknarfélög, áhugafélög svo eitthvað sé nefnt er langur og allstaðar vel tekið á móti vinnandi höndum.

 

Launin fyrir þess konar vinnuframlag eru nefnilega oft mjög nærandi.....

 

086_charity_hands_together.jpg


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigríður Lárusdóttir

Höfundur

Sigríður Lárusdóttir
Sigríður Lárusdóttir
Í viðleitni minni til að halda andlegu jafnvægi mun ég bara blogga jákvætt og uppbyggjandi.....hvað held ég það lengi út?
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • internal-conversations-300x222
  • 41YPEWXf6OL. SX364 BO1,204,203,200
  • 14456633739 17cd93830a c
  • 1 OxPMWDQ1SXUdGG-EXgDBBQ
  • shame-quote-2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband