Færsluflokkur: Bloggar

Svefnleysi (Insomnia) - 2. hluti

Vísindaleg skilgreining á svefni er, að í svefnástandi eigi sér stað breytingar á virkni heilans sem sýna sig sem breytt tíðni heilabylgna.  Áhrif þessa á líkamsstarfsemina er fjölþætt og er okkur nauðsynleg til að líkaminn fái tækifæri til hvíldar og endurnýjunar. Svefninum hefur verið skipt niður í tvo megin fasa út frá hraða þessara heilabylgna; REM og non-REM (REM stendur fyrir Rapid Eye Movement).

 

  • REM svefn:  Bylgjurnar eru litlar og örar (hröð heilaboð).  Talið er að örar augnhreyfingar sem fylgja þessum svefni bendi til þess að viðkomandi sé staddur í draumi.  Athyglisvert er, að vöðvar í handleggjum og fótum verða sem lamaðir í þessum fasa, líklega til að koma í veg fyrir að viðkomandi bregðist við því sem hann er dreyma. 
  • Non-REM svefn:  Bylgjurnar eru stórar og hægar (hæg heilaboð).  Þessum fasa er skipt í 3 stig eftir því hversu hægar heilabylgjurnar eru.  Þriðja og dýpsta stigið er það sem kallast djúpsvefn. 

 

 Í heilbrigðum svefni eru nokkrar áberandi breytingar á starfsemi líkamans:

  • Heilavirkni:  Öldum saman var því haldið fram að heilastarfsemin minnkaði í svefni, en áratuga svefnrannsóknir hafa sýnt fram á stöðuga virkni í gegnum svefnferlið.  Þó er mynstrið í heilabylgjunum breytilegt eftir því hve djúpur svefninn er.  Í draumsvefni  (REM) er virknin jafnvel meiri en þegar við erum vakandi.
  • Líkamshiti:  Við að falla í svefn lækkar hitastig líkamans og er það jafnvel talið nausynlegt ferli í því að ná að sofna.  Því er ekki gott að hafa of heitt í svefnherberginu.  Í draumsvefninum er líkamshitinn hvað lægstur.
  • Breytt öndun:  Í vöku er öndun okkar síbreytileg, eftir því hvað við erum að fást við; erfiði, kyrrseta, tal, tilfinningar o.fl. stýrir öndunarþörfinni.  Í svefni er öndunin á draumlausa stiginu (non-REM) mjög róleg og regluleg, en verður aftur óreglulegri í draumsvefni.
  • Hjarta- og æðakerfið:  Í non-REM fasanum verður hjartsláttur hægur og púlsinn reglulegur, auk þess sem blóðþrýstingur lækkar.  En þegar við förum yfir í REM fasa, þá verður hjartsláttur og blóðþrýstingur aftur óreglulegur. 
  • Virkni líffæra:  Starfsemi meltingarfæra verður hægari í svefni, virkni nýrna minnkar og þar af leiðandi minnkar þvagmyndun, á meðan önnur líffæri verða virkari í svefni. Sem dæmi, þá myndast meira af vaxtarhormónum í svefni og frumuskipti verða örari.  Því er talið að svefninn gegni veigamiklu hlutverki í viðhaldi líkamans.  Af sömu ástæðu er líkaminn fyrr að jafna sig eftir slys eða aðgerðir ef svefninn er góður.

 

 

Draumar.

Það eina sem við munum frá svefnfasanum eru draumarnir, en um þá er þó lítið vitað með vissu.  Í draumi fara hugsanir okkar á flakk, oft samhengislaust og fjarri raunveruleikanum; minna á fjörugt ímyndunarafl þar sem allt getur gerst.  Mest dreymum við í REM fasa, og eru þeir draumar mjög sjónrænir og oft tengdir aðstæðum í raunveruleikanum.  Engu að síður dreymum við einnig að einhverju leyti í non-REM fasa og eru þeir draumar í langflestum tilfellum martraðir.

Þrátt fyrir miklar rannsóknir á tilgangi draumsvefns, hefur enn ekki fundist skýrt svar við þeirri spurningu. Tilgátur eru um að við séum að vinna úr upplifunum dagsins og tilfinningum þeim tengdum og á þann hátt séum við að “vista” það sem við lærðum í undirvitundinni.  Enn aðrir halda því fram að draumar séu eingöngu tilviljanakennd taugaboð milli heilafrumanna. 

 

Eðlilegt svefnmynstur.

Hjá einstaklingi án svefnvanda hefst ferlið með 1. stigs non-REM svefni og smátt og smátt hægir á heilanum í gegnum 2. stig og niður á 3. stig sem er djúpsvefninn. Þegar þangað er náð minnkar viðbragðsgeta heilans sem því verður ónæmari fyrir áreyti og er afar erfitt að vekja einstakling upp frá djúpsvefni.  Þetta ferli tekur allt að ríflega klukkustund, en er þó afar einstaklingsbundið.  Eftir það eykst heilavirkni á ný og hefst þá draumafasinn, REM, sem er um 20-25% af heildarsvefninum.  Þetta ferli endurtekur sig nokkrum sinnum meðan sofið er.

 

Truflað svefnmynstur.

Það er margt sem getur truflað eðlilegan svefn, s.s. aldur, andlegt álag, líkamsáreynsla stuttu fyrir svefn, hitastig í herbergi, birtuskilyrði, neysla matar, svo eitthvað sé nefnt.  Ef mikil óregla er á svefntíma hefur það truflandi áhrif á líkamsklukkuna og myndast þá vítahringur svefntruflana sem erfitt getur verið að rjúfa. Eins getur það skemmt gæði nætursvefns ef tekinn er of langur blundur yfir daginn.  Ýmis lyf geta truflað eðlilegan svefn, sem og örvandi efni eins og tóbak, koffein og niðurbrotsefni alkóhóls (sjá nánar undir Svefnleysi (Insomnia) - 1. hluti).

 

Í 3. hluta verður fjallað um leiðir til bæta svefngæðin.

 

 

 

Svefnleysi (Insomnia) -1. hluti

Hvað gerist í svefni? – 2. hluti

Meðferð við svefntruflunum – 3. hluti

Sjálfdáleiðsla við svefntruflunum - 4. hluti (kemur síðar)


Svefninn er besta meðalið....svefntruflanir geta rænt heilsunni.

Hópurinn fer stækkandi; fullorðnir sem börn eiga í vaxandi mæli við svefnvandamál að stríða.  Eftir að hafa tekið á móti ótal mörgum í þeim sporum ákvað ég að setja saman stuttar og auðlesnar upplýsingar svo auveldara sé að glöggva sig á í hverju vandinn er fólginn.  Ég mun birt þessar skrár eina í einu og vona að einhver hafi gagn af.

 

 

Svefnleysi  (Insomnia) – 1. Hluti.

 

Á hverjum tíma er talið að um 30-50% fólks eigi við svefnerfiðleika að stríða.  Það er ekkert óeðlilegt við að eiga eina og eina erfiða nótt, átök í dagsins önn geta tekið á.  Þegar truflaður svefn er orðinn að mynstri og viðkomandi vaknar sífellt þreyttur, þá er ástandið orðið alvarlegt og fer að hafa áhrif á frammistöðu og lífgæði.  Algengustu birtingarmyndir svefntruflana eru :

1.       Viðkomandi á erfitt með að festa svefn, liggur og byltir sér fram á nótt.

2.       Viðkomandi  vaknar um miðja nótt af eðlilegum ástæðum, en getur ekki sofnað aftur.

3.       Viðkomandi vaknar undir morgunn og nær ekki að ljúka æskilegum svefntíma.

 

Einkenni svefnleysis.

 Afleiðingarnar eru misalvarlegar eftir því hve lengi erfiðleikarnir standa yfir, en þær helstu eru:

·         Minnkuð afköst í verkefnum dagsins.

·         Minnkuð viðbragðsgeta s.s. við akstur eða strjórnun tækja og véla.

·         Auknar skapsveiflur; pirringur, reiðiköst, viðkvæmni.

·         Geðræn vandamál  s.s. þugnlyndi og kvíði.

·         Ofþyngd.

·         Skert ónæmiskerfi.

·         Aukin hætta á langvarandi sjúkdómum s.s. háþrýstingi, hjartasjúkdómum og sykursýki.

Oft er miðað við að ef meira en 30 mínútur líða þar til viðkomandi sofnar, þá þarf að bregðast við, breyta svefnvenjum eða jafnvel leita aðstoðar sérfærðinga.

 

Orsakir.

Til að hægt sé að laga svefninn þarf að skoða hvaðan orsökin kemur.  Svefn erákveðið hugarástand, þar sem breyting verður á tíðni heilabylgna og því þarf oft lítið til að trufla heilbrigðan svefn.  Margir þættir í daglegu lífi geta haft afdrifarík áhrif þar á.  Helstu þættir eru:

·         Streita.  Áhyggjur og hugsanir tengdar vinnu, skóla, heilsu eða fjölskyldu halda huganum virkum og hindra eðlilegt svefnferli.  Áföll eins og vinnumissir, ástvinamissir, skilnaður eða veikindi geta truflað þetta ferli.

·         Kvíði.  Bæði hversdagslegur kvíði fyrir komandi atburðum og einnig alvarlegri kvíðaraskanir koma í veg fyrir heilbrigðan svefn.

·         Þunglyndi. Ójafnvægi í efnasamsetningu í heila- og mænuvökva getur valdið alvarlegum svefntruflunum þannig að svefn getur orðið óeðlilega mikill .  Eins er algengt að þunglyndur einstaklingur festist í hugsunum um ástand sitt sem þá veldur kvíða þannig að svefninn verður skertur og lélegur.

·         Lyf.  Ýmis lyf geta haft þá aukaverkun að trufla svefn s.s. geðdeyfðarlyf, hjartalyf, ofnæmislyf, örvandi lyf, sterar.

·         Koffín , nikótín , alcohol hafa ýmist bein örvandi áhrif eða að niðurbrotsefni þeirra eru örvandi.  Þó alcohol hafi slævandi áhrif og hjálpi jafnvel til við að sofna, þá hafa niðurbrotsefni þess örvandi áhrif og koma í veg fyrir djúpan svefn. 

·         Sjúkdómar.  Stöðugir verkir, öndunarfærasjúkdómar, þvagfærasjúkdómar, gigt, hjartasjúkdómar, bakflæði, skjaldkirtilsskjúkdómar eru nokkur dæmi, þar sem erfitt getur verið að ná fullum og nærandi svefni.  Þá er mikilvægt að leita sér aðstoðar til að ná sem bestum svefngæðum miðað við aðstæður.

·         Matarinntaka seint á kvöldin getur truflað svefn , þó getur verið gott að borða eitthvað létt til að koma í veg fyrir að hungurverkir trufli svefninn. Þungmeltur matur getur valdið bakflæði, þungum hjartslætti og óþægindum við að liggja.

·         Lélegar svefnvenjur .  Mikilvægt er fyrir hugann að rútínan sé nokkurn veginn sú sama, því þannig stillir hann sig smátt og smátt inn á að hægja á fyrir svefninn.  Fara á sama tíma að sofa, framkvæma sömu athafnir og virða svefnrýmið, sem ætti helst bara að vera fyrir svefn og nánd.

 

Spuningar til að átta sig á svefnvandanum:

(ath. þegar spurt er um hve lengi, er ekki átt við mínútur heldur skal svara stuttan, meðallangan eða langan tíma)

1.       Hversu oft áttu erfitt með svefn og hvenær hófst vandinn?

2.       Hver lengi ertu að sofna?

3.       Hversu oft vaknar þú á nóttunni og hve lengi ertu að sofna aftur?

4.       Hvernær ferðu að sofa og á fætur? Er tíminn annar um helgar og í fríum?

5.       Hve margar klukkustundir sefur þú á nóttu?

6.       Hrýtur þú eða vaknar við að eiga erfitt með öndun?

7.       Finnur þú fyrir dagþreytu?

8.       Finnur þú fyrir verkjum sem hindra svefn?

9.       Ert þú með sjúkdóm sem truflar svefn?

10.   Áttu það til að dotta þegar þú situr kyrr eða ert að keyra?

11.   Leggur þú þig á daginn? Hve lengi?

12.   Hver er rútinan þín fyrir svefn?

13.   Hvernig eru svefnaðstæður þínar?

14.   Hvað borðar þú eða drekkur á kvöldin?

15.   Notar þú tóbak eða áfengi á kvöldin?

16.   Tekur þú lyf fyrir svefninn?

17.   Hefur þú lent í eða ert að upplifa streituvaldandi aðstæður?

18.   Notar þú eða hefur notða svefnlyf?

19.   Hvernig eru vinnuaðstæður þínar?

20.   Stundar þú reglulega hreyfingu? Nýtur þú þess?

21.   Hefur þú áhgyggjur að því hvort þú sofnir eða náir að sofa nóttina í gegn?

22.   Eiga fleiri í fjölskyldunni við svefnerfiðleika að stríða?

23.   Hefur þú ferðast nýlega?

24.   Tekur þú einhver lyf reglulega?

Mikilvægt er að svara þessum spurningum sem nákvæmast og með hreinskilni til að átta sig á vandanum.

 

Svefnleysi (Insomnia) -1. hluti

Hvað gerist í svefni? – 2. hluti

Meðferð við svefntruflunum – 3. hluti

Sjálfdáleiðsla við svefntruflunum - 4. hluti (kemur síðar)

 

Sjá nánar: https://www.facebook.com/pages/Inns%C3%BDn-D%C3%A1lei%C3%B0sla-Hypnotherapy/230988437018027?ref=tn_tnmn

 

 


tekur mínútu..eða tvær, að herða á dótinu. Ertu með í sumar?

Ég dett út úr íþróttasölunum á sumrin og ætla þess í stað að taka daglega armbeygjur.  Í því tilefni stofnaði ég facebook-síðu. Þú þarft bara að fara inn á hana og "læka", og ég mun halda þér við efnið í sumar með daglegum áminningarpósti (nema þegar ég er fjarri netsmabandi...).

Það þarf ekki nema mínúrur eða tvær til að vinna kraftaverk í sumar:  

 

Vertu með:

 https://www.facebook.com/armbeygjur?notif_t=page_new_likes


Hamingjusöm þjóð....eða bara "dópuð"?

Íslendingar meðal hamingjusömustu þjóða heims!  Hmm....

Hvað einkennir Íslendinga?  Klárlega erum við manísk á svo margan hátt; skorum hátt í bílaeign, tölvueign, menntunarstigi, góðum hljómsveitum, góðum íþróttamönnum, pólförum (per höfðatölu..), Everestförum......endalaus listi.  Hvernig stendur á þessu?

Því verður ekki neitað að út frá hnattlegu landsins þá er næstum óbúandi hér.  Langir, dimmir vetur og stutt og svöl sumur (þrátt fyrir að pallaeign landsmanna bendi til annars...enn eitt metið?).  Til að komast af, þá hefur landinn þurft að finna sér leiðir til að létta lundina.  Hvernig gerir maður það svo?  Jú, með því að beita öllum brögðum til að auka styrkleika "vellíðunar-hormóna" í líkamanum. Með öðrum orðum, að koma sér í hamingjuvímu..

Það er ljóst að öll fíkn er akkúrat komin til vegna einhverrar vanlíðunar. En fíknileiðir eru svo ótrúlega margar;  neysla löglegra og ólöglegra fíkniefna, ásamt inntöku kvíða- og þunglyndislyfja mætti skilgreina sem eina aðferð.  Viðkomandi sem sagt slær á vanlíðan með því að setja einhver efni sem bæta líðan í líkamann.  Hin leiðin er að "gera eitthvað" sem eykur framleiðslu þessara vellíðunar-hormóna og þannig breyta atferli sínu til batnaðar.  Sú leið hlýtur að vera farsælli og auk þess ódýrari fyrir bæði einstaklinginn og samfélagið.

EN!  Það er algjörlega hægt að verða "dópisti" á þennan hátt.  Þegar fíknin í þessa sjálfsprottnu stundarvellíðun er farin að ganga út yfir líkamlegt heilbrigði, eða jafnvel farin að trufla fjölskyldulífið eða vinnuna, þá hlýtur að mega setja spurningamerki við hversu heilbrigt athæfið er.  Það er bara svo undarlegt í mínum huga þegar umfjöllun um fíkn er svona tvíhliða.  Það er slæmt að vera efnafíkill, tölvufíkill, spilafíkill o.s.frv., en það er æðislegt að fara daglega á boot-camp æfingu, klífa 50 tinda á viku, róa kajak kringum landið og ég veit ekki hvað og hvað.....

 

Er þetta kannski leið þjóðarinnar að hamingjunni.....vera bara í vímu.....?

 

dopamine-thanksgiving.gif

 


Er lýðræðið virkilega málið? (nú verð ég vinsælust...)

Hefur lýðurinn virkilega kafað ofan í saumana á því hvað lýðræði er?  Er það sanngjarnasta leiðin? Er það skilvirkasta leiðin? Er það hagkvæmasta leiðin?  (Ekki æsa ykkur, ég er bara með vangaveltur).

 Lýðurinn er sammengi ólíkra hagsmuna; öll flóran.  Allir þurfa/vilja fá "sinn mann á þing" til að gæta hagsmunanna og bæta sín kjör.  Þetta kristallast ansi vel í fjölda framboða sem við þurfum nú að velja á milli.  Eftir kosningar verða svo kannski 2-3 flokkar í stjórn og allir hinir þurfa þá að sitja í andstöðu.....hugsa sér hlutskiptið!  Sem sagt; rétt tæpur helmingur lýðsins þarf að sætta sig við að þeirra maður á þingi komst ekki í stjórn.  Er þetta réttlátt, farsælt og líklegt til árangurs?  Ég ætla ekki að fara inn á málþófsvitleysuna hér; það krefst sér umræðu....

 

Þann 1. janúar 2013 vorum við 321.857.  Á sama tíma voru starfsmenn Wall-Mart 2.200.000.  Það er kannski kominn tími til að taka upp stjórnarhætti á þessu litla landi sem eru í takt við hraðan og tæknivæddan nútímann.  Með því að setja upp skipurit farsælla fyrirtækja væri eflaust hægt að auka skilvirknina, spara pening í stjórnsýslunni þannig að hægt væri að borga góðu sérmenntuðu fólki góð laun.  Í stað ráðuneyta, stýrðum af einstaklingum með allskonar menntun, þá væri sérfærðingur á hverju sviði fyrir sig. 

Við erum hvort sem er aldrei öll sátt eins og kerfið er í dag og því sé ég ekki af hverju við eigum að halda eins áfram. 

 

Gerum minna af því sem virkar ekki og meira af því sem virkar.....

 

democracy_cartoon.jpg

 

 


Æ..úff....sumarið!

Brumið er farið að kíkja út, sólin farin að hita yfir hádaginn, styttist í skipulag sumarfrísins...

Hlakkar þú til?  Sem betur fer á það við um flesta...vona ég.  En ert þú kannski ein/einn af þeim sem færð kvíðahnút í magann við að hugsa til sumarsins?  Kannski jafnvel líður svo illa að þú hreinlega höndlar ekki að hugsa til sumarsins?

Þú ert ekki ein/einn; það eru ansi margir í þeim sporum í dag að finna enga tilhlökkun, enga gleði yfir því að sumarið sé í nánd.  Sorg, þunglyndi, kvíði, fjárskortur, sjúkdómar...ástæðurnar eru margar og aðstæðurnar ólíkar.  Okkur hættir til að bera þessar tilfinningar innra með okkur og jafvel fyllast samviskubiti eða skömm yfir að geta nú ekki bara litið á björtu hliðarnar og farið að hlakka til!  Og þá líður okkur bara enn verr en áður.  

Hvað er hægt að gera í stöðunni?  

  • Talaðu:  segðu frá líðan þinni, þannig kemur þú í veg fyrir að fjölskyldan, vinirnir eða samstarfsfólkið geti í eyðurnar eða leggi á þig pressu um þátttöku í því sem þú vilt ekki eða ræður ekki við.
  • Slakaðu á kröfunum:  ekki ætla þér um of, hlustaðu á innsæið og settu ekki meira á dagskrá en þú treystir þér til.  Sumarið þitt á að vera á þínum forsendum.
  • Ekki gera miklar væntingar:  sumarið okkar er stutt og það kemur annað sumar eftir þetta!  Ef væntingarnar eru miklar, þá er líka hætt við að vonbrigðin láti á sér kræla.
  • Taktu litlu skrefin:  það er hægt að njóta sumarsins á svo margan hátt; það þarf ekki löng eða stór ferðalög, endalaus grillpartí, endurskipulagningu á garðinum o.s.frv.. Finndu bara það smáa sem gleður, rölt í nágrenninu, sundferð, dútl í garðinum, eða hvað gleður án fyrirhafnar.

 

Pössum okkur í samskiptum og leggjum ekki eigin væntingar og kröfur á samferðafólkið okkar.....

 

summer2.png


Skammastu þín?

Þegar þú skammast þín, beinist sú tilfinning inn á við, þú dregur þig saman í skel, tapar í augnablikinu sjálfsvirðingunni, ferð í vörn og annað hvort dregur þig í hlé sem sært dýr eða reynir gagnárás til að fela skömmina.  Við höfum öll upplifað hvoru tveggja.

Hvar lærðir þú að skammast þín?   Langflest okkar lærðum það af fólkinu sem við treystum mest og best; uppalendum okkar, sem af bestu getu reyndu að ala okkur upp til manns.  Þau vissu ekki betur eða gátu ekki betur.  Þeim var líka kennt að skammast sín. 

En tilgangslausari tilfinningu get ég ekki ímyndað mér!  Skömm gerir ekkert annað að draga úr áræðni og frumkvæði, skerðir sjálfstraustið og sáir djúpum fræjum efa á eigin getu.  Það mætti eflaust færa rök fyrir því að skömm komi í veg fyrir að við göngum á rétt annara eða fremjum glæpi.  En ég get ekki séð að það hafi virkað hingað til.  Siðferði verður ekki kennt í gegnum ásakanir og skammir; þvert á móti dregur skömmusttilfinning einstaklinginn niður siðferðislega, veikir stöðu hans í mannlegum samanburði og dregur þannig úr siðferðisþrótti.

Í stað þess að skamma, hvernig væri að styðja?  Veitum leiðsögn, miðlum því sem gagnast, en fyrst og fremst gefum hvort öðru svigrúm til að læra hvað virkar best fyrir hvern og einn.  


Hvert og eitt okkar er perla sem þarf að fá að komast úr skelinni og skína ........
 
images_1195904.jpg

Hvernig er lífið eftir þunglyndi? Jú, það er sko til!

Þunglyndi er vont.  Þunglyndi er sárt.   Það vita allir þeir sem reynt hafa.  Vonleysið, framtaksleysið, þróttleysið, kvíðinn, öryggisleysið, tilgangsleysið.  Það er eins og allar gleðistundir fortíðar strokist út og eftir standi einungis minningar um erfiðleika, sorgir, strit og baráttu.  Ég veit þetta, því ég hef verið þarna.  Og það sem stendur upp úr í hugskoti þunglyndisins eru einmitt minningarnar um það sem kom manni niður í hyldýpið; lífsreynslan sem kippti huganum úr samhengi við eðlilegar tilfinningar daglegs lífs; svo allt varð misgrátt eða svart. 

Við þessar aðstæður er það jafnvel spurning upp á líf eða dauða að leyta sér faglegrar aðstoðar.  Fjölskyldan er engan veginn sá stuðningsaðili sem teysta þarf á; hún er einnig brotin vegna þunglyndis viðkomandi og þarf ekki síður stuðning.  Það er fjöldinn allur af hæfum fagaðilum og úrræðin svo mörg.  En það er ekki á valdi þunglynds einstaklings að leita sér hjálpar; það er kannski það eina sem fjölskyldan og vinirnir geta gert, að koma einstaklingnum undir hendur fagaðila.  Þannig hefst bataferlið.  Bataferlið er langhlaup, sem taka þarf í rólegheitunum með þolinmæði og umhyggju.  Gera ráð fyrir bakföllum og ætla sér ekki um of.

Þá kemur sigurinn; sigurinn er svo sætur!  Þegar nýjum styrk er náð verður lífið svo innihaldsríkt og fallegt og gjöfult!  Litbrigiðin í hversdagleikanum verða skýr og mikil;  hlutir sem áður voru sjálfsagðir verða dýrmætir; þakklætið fyrir lífið verður svo sterkt og umburðarlyndið gagnvart margbreytileika samferðafólksins verður einlægt.  En á sama tíma verður samkenndin með erfiðleikum annara djúpstæð og því mikilvægt að fara varlega og kunna þá kúnst að verja sálina svo hún brotni ekki aftur.  Gera minna af því sem dregur úr þrótti og meira af því sem veitir innblástur og styrk!  

 

Hættum að fela vanlíðan okkar, tölum saman,  því þannig náum við að kasta burt fordómum og skilningsleysi....

 

images_1195275.jpg


Er hægt að banna kannabis með bjór í hendi?

Ég er ekki að taka afstöðu með eða móti kannabis, tek það skýrt fram. Hef aldrei prófað og það stendur ekki til.

Það er deginum ljósara að núverandi regluverk er ekki að virka á neinn hátt og hér sprettur "gras" sem aldrei fyrr.  Ungmenni nota kannabis ekki síður en alkohól og þykir ekkert tiltökumál.  Frasar eins og: "Fínt að losna við timburmennin daginn eftir" eða "er betra að vera veltandi um úturdrukkinn og lenda í slagsmálum og látum en að vera bara í chilli og slakur á grasi" eru teknir fram í umræðu við þessi ungmenni.  

Ég get ekkert sagt á móti.  Er alkohólið ekki löngu búið að stimpla sig inn sem skaðvaldur á líkama og sál, sem tjónar heilu fjölskyldurnar?  Hvaða rugl er þetta?  Bönnum það, eða hvað?   Það eru samt flestir sem neyta víns í góðu hófi og ekkert nema gott um það að segja.  En hvernig í ósköpunum getum við þá réttlætt það að banna kannabis?  Af því að allir verða grashausar?  Alveg eins og fyrir tíma bjórsins var óttast að allir yrðu sífullir bjórþambarar?  

Í dag er grasið í umferð af ólíkum gæðum og íblandað öllu mögulegu og ómögulegu.  Svo ég tali nú ekki um glæpina og markaðsaðferðir sölumannanna.  Væri ef til vill til bóta ef ræktun færi fram undir stöðluðu gæðaeftirliti og sala þess undir skráðu eftirliti hins opinbera?  Tekjurnar væri þá hægt að nota til uppfræðslu og til hjálpar þeim sem missa tökin.  Þeir aðilar eru hvort sem er að neyta og missa tökin eins og staðan er í dag.  

Hættum að berja hausnum við sama steininn og tölum um þessi mál á nútímalegan og fordómalausan hátt.....

 

businessman-banging-his-head-against-the-wall-ispc026073.jpg


Viljið þið gleði eða hamingju?

Þetta er ekki sami hluturinn, að minnsta kosti ekki í mínum huga:

1. Gleði.  

Hér á ég við stundargleði; atburð eða hegðun sem kemur brosi á vör og vellíðunartilfinningu í kroppinn.  Hrein efnafræði.  Þá framleiðir líkaminn endorfín, dópamín, eða whatever þetta heitir allt og það færir okkur í gegnum efnaferli á taugafrumumótum í heila svo við upplifum gleði. Stundum hreinlega vímu.  Það er vel þekkt að fólk verði fíklar á þessi sjáfsframleiddu efni og leiti statt og stöðugt í að upplifa þetta fix.  Tölvuleikir, Iron man, boot camp, kynlíf, base jump, fjallgöngur, ræktin...í rauninni getur hverstagsleg hegðun sem gefur gleði snúist í þessa fíkn.  Gallinn er bara sá, að "venjuleg" rútína heldur áfram að vera gráleit og jafnvel leiðinleg, þar sem bilið á milli þess og gleðinnar eykst ef til vill.  Varla hamingja...

 

2. Hamingja.

Hamingja er viðvarandi ástand, þveröfugt á við gleðina.  Hamingjusemi er ástand, sem fylgir manni í gegnum súrt og sætt; mætti kalla það ástand sáttar. Hamingjunni nær sá einstaklingur sem hlustar á "sína innri rödd", tilfinningarnar, greinir þær og uppruna þeirra, og bregst síðan við þeim af hreinskilni og án afneitunnar.  Allar tilfinningar mannsins eiga jafnan tilverurétt, því þær eru staðreynd.  Ég lít svo á að þær séu eins konar umferðarljós lífsferðarinnar, blossa upp við hvert einasta áreyti svo við getum brugðist við.  En í stað þess að reyna breiða yfir þær erfiðu og bæla, þá eigum við að temja okkur að taka sérstaklega eftir uppruna þeirra og viðbrögðum, svo við getum gert betur og tamið okkur.  Þegar þessu er náð, þá er ekkert sem setur okkur út af laginu meira en svo, að við getum unnið úr þvi.  Þessum áfanga fylgir ró, yfirvegun, sátt og jafnaðargeð, sem ég skilgreini sem hamingjusamt ástand. 

 

Upplifunin er að lífið sé frekar basic og á okkar valdi...við eigum það öll skilið....

 

500ef3e942681_preview-300.jpg

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigríður Lárusdóttir

Höfundur

Sigríður Lárusdóttir
Sigríður Lárusdóttir
Í viðleitni minni til að halda andlegu jafnvægi mun ég bara blogga jákvætt og uppbyggjandi.....hvað held ég það lengi út?
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • internal-conversations-300x222
  • 41YPEWXf6OL. SX364 BO1,204,203,200
  • 14456633739 17cd93830a c
  • 1 OxPMWDQ1SXUdGG-EXgDBBQ
  • shame-quote-2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband