Hvað vantar þig fyrir jólin?

 

Er að drukkna í jólagjafahygmyndaauglýsingum. Hvað vantar mig?

 

Er ég svöng? Nei

Er mér kalt? Nei

Er ég þyrst? Nei

 

Svona sé ég jólagjafalistann minn:

Hitta börnin mín

Hitta vini mína (hér undir eru  þeir ættingjar sem eru vinir mínir)

Njóta þess sem ég á

Nota frítímann til að íhuga hvað ég ætla að bæta í lífinu

Borða það sem mér líður vel af (líður oft vel af nammi og kökum í hófi)

Sinna hugðarefnum/áhugamálum mínum.

 

Þetta er alveg satt.  Og ef ég á pening umfram það sem ég þarf til þessa, þá mun hann fara þangað sem á honum er þörf.

 

Hvað vantar þig..............

7051349-Many-sticky-notes-with-the-word-Want-on-them-and-one-with-the-word-Need-Stock-Photo

 


Fordómar gegn fólki með fordóma gegn fólki með fordóma.....

 

Innsendar greinar, fréttir, kommentakerfin, facebook, twitter, kaffispjallið..... ég get ekki betur séð en þarna sé meira og minna fólk að hafa skoðun á skoðun fólks.  

Þetta er allt orðið á svo persónulegum nótum, að það er eins og ekki sé hægt að ræða málefni málefnalega. Skítkast, hneykslan, virðingaleysi, dómar. Hvers vegna getur hin "siðmenntaða" tegund sem við erum ekki skipst á skoðunum og hlustað á rök og mótrök án þess að fara í persónulegan, trúarlegan eða stjórnmálalegan skotgrafahernað?  Ætlum við aldrei að læra af sögunni og þroskast fram á við? 

(já ég veit, ég er með skoðun fólki hérna)

 

Eigum við að fara á næsta level og byrja kannski á að hlusta og skilja......

The-biggest-communication-problem-is-we-do-not-listen-to-understand.-We-listen-to-reply.


Skilyrtur, huglægur ótti.

 

Ég er að tala um ótta sem er alls ótengdur lífshættu og er huglægur.

 

Við erum oft meðvituð um hvað vekur ótta hjá okkur;  "ég er hrædd við geitunga", "mér er illa við blabla".  Við þekkjum þetta mynstur og forðumst það sem vekur óttann.  

Flóknara verður þetta ef við höfum byggt upp ótta án þess að vera meðvituð um hann. Það gerist ef við lendum í aðstæðum sem vekja upp vanmátt, sársauka eða eihver "ýkt" tilfinnigaviðbrögð.  Aðstæður sem við eigum erfitt með að komast í gegnum og þurfum jafnvel að þrauka þar til við komumst úr þeim.  Þetta eru kannski veikindi, skaðleg samskipti, eitthvað tjón sem er verulegt; hvað sem gæti kallast frá tilfinningalegu ójafnvægi upp í áfall. Oftast höldum við svo bara áfram og viljum sem minnst hræra í þessum upplifunum eftir að ólgan er gengin yfir. Dauðfegin að vera laus......en erum við það?

Ég gekk inn á Landspítalann í morgun bara nokkuð morgunhress til að fara í undirbúningviðtöl fyrir nokkuð stóra aðgerð.  Ég var ekki kvíðin því ég hef nú gert þetta nokkrum sinnum áður og alltaf sloppið lifandi og náð mér á strik.  Ekkert vandamál sýnilegt; til í slaginn. Svo byrjaði líkaminn að haga sér út takt við það sem ég hélt að væri staðan; hjartað fór á fullt, ég svitnaði, hálsinn herpist og svo fór ég bara að berjast við að fara ekki að gráta þarna á ganginum fyrir framan móttökuritarann! Grét bara fyrir framann svæfingalækninn..... Hausinn fór á fullt eins og hvirfilbylur og allt sem var og er að gerast í lífinu þessa dagana fór inn í þennan hvirfilbyl svo úr varð einn grautur; gat því engan vegin fattað hvað var raunverulega orsök vanlíðunarinnar. En sem betur fer er ég með töluverða þekkingu á samhengi hugar og líkama og gat því gert eitthvað í stöðunni.

Hvað er hægt að gera þegar fortíðarupplifanir sem sköpuðu vanlíðan vekja óttann upp við samskonar aðstæður, jafnvel þegar við eigum síst von, og slá okkur svona út af laginu? Ég get deilt því sem virkar á mig (og ég fann ekki upp hjólið í þessu samhengi; þetta hefur hjálpað mörgum):

  • Hlustsaðu: hvað er að gerst í líkamanum og hvað er að gerast í huganum? Hvaða hugsanir eru í gangi? Leifðu líðaninni að "flæða" um þig þar til þú getur gefið henni skilgreiningu (ótti, reiði, sorg, o.s.frv.)
  • Tjáðu þig: ef ekkert er gert til að létta á hugsununum þá er hætt við að eftir hvirfilbylinn verði "rústir" sem þarf að fara að flokka úr og vinna með.  Eða bara að haldið verði áfram með hörkunni í þeirri blekkingu að allt verði í lagi.....þar til næst. 

Ég er svo lánsöm að eigi vini sem ég get talað við og treyst. Það gerði ég; talaði við góðan vin sem með því að leyfa mér að tjá mig gaf mér svigrúm til að finna hvaðan þessi ótti kom.  Því á meðan við erum að tjá okkur við aðra manneskju neyðist hugurinn til að forma hugsanirnar á skiljanlegan hátt og það hægir á huganum.  Allt verður skýrara, í stað hraðans sem annars er þegar við bara hugsum með sjálfum okkur.

 

Ótti án lífshættu er lamandi afl .................

 

fear-is-in-your-head1

 

 


Fangelsi hugans

 

Ég get það ekki....

Ég má það ekki...

Þetta verður of vont....

Þetta verður of flókið...

Þau verða ábyggilega móðguð....

Þau verða ábyggilega reið....

Þetta gerir maður ekki....

Ég verð hrædd....

Þau munu hneykslast....

Ég mun kannski sjá eftir þessu....

Kannski verður þetta of dýrt....

Engum mun líka við þetta...

Þetta er hættulegt...

Ég gæti tapað...

 

Stæðstu múrar mannkynsins eru reistir í hugarfylgsnum okkar......

 

images


Gleði vs. hamingja. Jebb, það er munur.

Það tók mig um 50 ár að gera mér grein fyrir og upplifa, að það er stórkostlegur munur á tilfinningunum "gleði" og "hamingja". Loksins, þegar ég upplifði á eigin skinni þennan reginmun, þá rann upp sú stund sem ég hef markvisst verið að leita uppi í á annan áratug; Ég fann innri ró og allt féll á sinn stað.  Já, ég er hamingjusöm kona. Sumir dagar eru erfiðir og fullir af reiði, sorg, þreytu, vonbrigðum.....  Aðrir dagar eru auðveldir og fullir af gleði, hlátri, vellíðan...., en þarna undir þessu öllu er hamingjan.  Set þetta upp á einfaldan hátt:

Gleði:  Mér finnst súkkulaði gott.  Allt sem inniheldur súkkulaði vekur með mér gleði. Fyrsta súkkulaðikökusneiðin er rosalega góð og mig langar í meira þegar hún er búin. Sneið númer tvö byrjar bara vel og ég mögulega klára hana ef það er pláss.  En sneið númer þrjú;  þá er ég komin með ógeð á köku, ógeð á græðginni í sjálfri mér og ætla að hætta að boðra súkkulaðiköku!  Gleðin er búin.  Svona hverful er hún.

Hamingja: Hún sveiflast ekki til og frá eins og gleðin, heldur er ákvörðun eða viðhorf sem ég vel að hafa til lífsins.  Sama hvað það færir mér.  Það er nefnilega viðhorfið sem skiptir öllu máli; Hvað ætla ég að gera með það sem ég lendi í?  Til þess að öðlast þessa hæfni þarf að æfa sig, rétt eins og með allt nýtt sem við lærum.  Stöðva röng og niðurbrjótandi viðhorf og leita að bestu niðurstöðunni.  Með tímanum verður þessi hugleiðsla (sem er ekkert annað en að leiða hugan að uppbyggilegri hugsun) sjálfkrafa viðbragð í daglegu lífi og þannig fæst þessi "baseline" sem er hamingja.  

 

Hamingjan fæst víst aldrei nokkurn tíman í neinu utan við okkur..........

 

happiness-flowchart


Dyggð 21. Leikgleði

 

"Þú hættir ekki að leika þér af því þú eldist; þú eldist af því þú hættir að leika þér"

 

Horfðu á barn í leik; það er hvergi annars staðar í huganum en akkúrat í sandhrúgunni, legókubbnum, trélitnum.....  Hvar erum við?  Í fjárhagsáhyggjum? Í samskiptavanda? Í vinnunni? Í framtíðinni? Í fortíðinni?

Ég er ekki að gefa í skyn að detta eigi í botnlaust kæruleysi og huga ekki að ofangreindum þáttum, því vissulega þarf að gangast við þeirri ábyrgð og þeim skuldbindingum sem við sjálf veljum yfir okkur.  En stanslaus flótti frá því að njóta þess bara að vera til í augnablikinu leiðir okkur í öngstræti vanlíðunar, örvinglan og jafnvel beint eða óbeint í dauðann.  

Við þurfum að gæta þess að skammta okkur með þeim meðölum sem okkur voru gefin í vöggugjöf; öll þau vellíðunarhormón sem við getum framleitt og rjúfa líkamlegan og andlegan vítahring vanlíðunar og verkja.  Og auðveldasta leiðin er að leika sér.  Hvað finnst þér gaman?  Ég er ekki að spyrja þig hvað maka þínum finnst gaman, eða börnunum, hvað þá vinunum, heldur hvað gleður ÞIG.  Ef leikurinn vekur ekki tímalausa gleði innra með þér þá er þetta ekki það sem þú vilt.  

Ef það reynist erfitt að benda á hvað vekur leikgleðina, staldraðu þá við minningar úr bernsku; hvað hafðir þú gaman af sem barn og hvað sóttir þú í?  Ég er ekki endilega að segja að rjúka eigi út í búð og kaupa lego ef það var málið, heldur uppgötva hvað var við  legóið sem hægt er að heimfæra á heppilegan leik í dag; leik sem hægt að koma fyrir í aðstæðum þínum.  Eitthvað hliðstætt.  Það er nóg af að taka og framboðið takmarkast bara af eigin huga.  

 

Týnum ekki því sem er innra með okkur; leikgleðin er lífsnauðsynleg........

photodune-3796681-word-have-fun-s-1024x557


Kannastu ekki við núvitund?

Núvitund er nýja "æðið".  Núvitund í skólastarfi, núvitundar stjórnunarstíll, námskeið í núvitund, núvitundarhugleiðsla..... Eins og þetta sé eitthvað nýtt trend byggt á einhverri fornri speki búddista eða hvað veit ég?

En veistu hvað?  Þú ert daglega og oft á dag reyndar í núvitund án þess að hafa kannski minnstu hugmynd um það.  T.d. ef þú ert að lesa þetta blogg, þá ertu í núvitund.  Þegar þú dettur inn í bíómynd eða gott lag, þá ertu í núvitund.  Þegar þú hlærð að einhverju þá ertu í núvitund. Þegar þú gleymir þér við verkefni ertu í núvitund.  Skiluru? Núvitund er ekkert annað en það að vera að upplifa eitthvað í rauntíma.

Vandinn er hins vegar, að manninum er svo tamt að nota hugann í að rifja upp það sem er liðið eða að hugsa um það sem er ekki komið (atburðir sem voru núvitund þegar þeir gerðust, eða stundir sem verða núvitund þegar og ef þær koma).  Það er svo ótrúlega mikið áreyti á okkur í dag sem kallar á viðbrögð okkar og úrlausnir annað hvort strax, á eftir eða í framtíðinni.  En þar sem heilinn nær ekki utan um tímann "í framtíðinni" þá viljum við leysa verkefnin núna, strax!  Þannig festumst við í þráhyggju yfir einhverju sem er ekki að gerast núna og það er eins og að reyna að ná í regnbogann; "ain´t gonna happen".

Það sama á við um fortíðina; við upplifðum eitthvað sem við vildum að hefði farið öðruvísi, eða þá að við upplifðum eitthvað sem okkur þyrstir í aftur.  En því miður, það mun ekki gerast aftur eins.

Þess vegna er kannski bara í lagi að minna okkur á að lifa í núvitund.  Finnum hvað það er sem fær okkur til að gleyma stund og stað og þá föttum við hvað núvitund er góð. Síðan má heimfæra það yfir á allt sem okkur þykir kannski minna skemmtilegt en þarf engu síður að gerast.  Þetta kemur allt með viljanum og æfingunni/endurtekningunni.

 

Núvitund er þér fullkomnlega eðlileg, taktu bara eftir henni......

 

Replacement-mindfulness-cartoon-300x212

 

 


Tökum sumarið alla leið!

 

 

Íslenskt sumar; langþráð, uppliftandi, bjart......misgott og stutt.  Það er ekkert nýtt; endurtekur sig árlega.

Það hefst fyrir alvöru um miðjan júni og lýkur að mestu upp úr miðum ágúst.  Rúmir 2 mánuðir af 12.

 

Í sumar skal gera eftirfarandi:

Fara í útlilegu

Ættarmót

Mála húsið

Skipta um glugga

Fara til útlanda

Bera á pallinn....eða smíða hann...eða stækka

Taka fram sumarhúsgögnin og bera á þau

Grilla

Ættarmót

Fótboltamót

Golfið maður minn!

Veiði

Hjóla meira

Fara á fjöll

Hlaupa

Bóna bílinn oftar

Útihátíðirnar

Taka garðinn í gegn

Helluleggja lóðina

Taka mótorhjólapróf

Hestaferðir

Sumarbústaðurinn....!!

Mála útihurðar

Nota kajakinn meira

Sjósundið

Fara í sund reglulega

Halda grillpartý fyrir vinina

Halda grillpartý fyrir fjölskylduna

.........

 

Úff hvað ég hlakka til haustsins...... ;-)

 

IDN0244341

 

 

 


...eins og suðandi býflugur...STOPP

 

Ég heyri næstum ennþá suðið....bzzzzzzzzz!  Sturlunarkennt og samfellt án vægðar eða hlés.  Allar að suða til að gera það sama; bera í búið.  Ef þið standið til  hliðar og fylgist með sjáið þið að allar fara þær sömu þráðbeinu leiðina frá búinu og svo sömu leið til baka.  Nákvæmlega!  Með allt þetta pláss skulu þær fara eftir línunni við búið!!!

 

Þetta er líf margra.....í hnotskurn:

  • Hefst í samræmdu grunnskólakerfi "Þið skuluð ÖLL setjast niður börnin mín og gera það sama. Núna!  Vertu svo kyrr og ekki tala!  
  • Sumarvinna; "Það þýðir ekki að hanga á rassinum og gera ekkert!  Ætlar þú ekki að eiga pening? HA?!"
  • Vinnan;  "Þú verður að safna peningi! Íbúð manneskja, steypa er svo góð fjárfesting"
  • Samband; "Ekki viltu vera alltaf ein/einn?  Ha?" (ég er ábyggilega ekki nóg sjálf....)
  • Barneignir; "Á nú ekki að fara að koma með barn?  Þú yngist ekki. Ha?"

 

Einföldun, ég veit. En samt ekki svo langt frá því að vera satt.  Við þetta bætist: Borða á réttum tíma, læra á réttum tíma, þrífa á réttum tíma, þvo bílinn, nota góða veðrið úti, fara reglulega í ræktina, börnin þurfa mikla reglu (þau vilja það), ekki koma of seint með þau í áhugamálin, tannréttingar (skakkar tennur, hjálp), sumarfríið....nota það vel, bzzzzzz........

 

Ég get ekki alveg séð að þetta allt hafi skilað stórkostlegri ánægju eða hamingju, sjálfsvirðingu eða lausn á vanda.  Þunglyndislyf og kvíðalyf sem aldrei fyrr,  25-30% barna þurfa greiningu til að fá kennslu við hæfi, skuldir heimila og þjóðar í hámaraki.

Er ekki kominn tími til að enduskoða þetta allt saman og fella búið?  Það er til nóg af peningum og auðlindum og rými fyrir alla en við þufum bara að hætta að haga okkur eins og þrælar ósýnilegra afla og taka ábyrgð.  

 

Stóra spruninin er því HVAÐ VIL ÉG.............

 

What-should-I-do-with-my-life

 


Hjálp....sjálfshjálparbækur!

 

 

Ég verð að viðurkenna að ég hef lesið fleiri en mig langar að viðurkenna.  Enda get ég ómögulega talið.

Áföll, erfiðleikar, flókin samskipti, veikindi....við fáum öll okkar skammt af verkefnum sem við ráðum illa fram úr. En stundum höfum við ekki svörin eða lausnirnar og annað hvort festumst í hugsanavítahring um vandann og verðum kvíðin og pirruð og þreytt, eða þá að við viðurkennum vanmátt okkar og leitum út fyrir okkur.

Mörg okkar eiga erfitt með að horfast í augu við vanmáttinn og forðumst að tala opinskátt við aðra manneskju um hann. Þess í stað er fjárfest í sjálfshjálparbók í þeirri von að læra eitthvað.  (Getur reyndar verið kvíðavaldur út af fyrir sig...úrvalið er þvílíkt...).

En hvað eru sjálfshjálparbækur? Í sjálfshjálparbókum (rétt eins og þessu bloggi) má finna einstaklingsbundnar reynslusögur ýmist matreiddar sem beinar frásagnir, eða settar upp á aðgengilegan hátt líkt og uppskiftabók.  Höfundarnir eru ýmist fræðimenn sem hafa sameinað fagþekkingu og reynslu úr störfum sínum í lestrarhæft form, eða þá ófagmenntað fólk sem hefur sigrast á erfiðleikum og hefur hæfni og þörf til að deila og leiðbeina örðum í svipuðum vanda.

Hafi maður ratað á "rétta" bók þá verður upplifunin einhvers konar "AHA" augnablik, þar sem upplifunin er samsvörun við vanda höfundarins.  "Svona líður mér", "akkúrat þetta gæti verið vandinn".....en hvað svo?

 

Min skoðun: það er ekki nóg að finna samsömun, viðurkenna vandann og lesa lausnina. Ekkert frekar en að lesa hvernig á að setja saman IKEA, framkvæma olíusíuskipti eða renna sér á skíðum.  Það þarf að æfa sig og jafnvel gott betur; ræða við einhvern til að spegla hugsanir sínar.  Við nefnilega eigum svo auðvelt með að festast í afneitun og réttlætingu á að okkar "sé rétt" og þá er alveg sama hversu margar sjálfshjálparbækur við lesum; við pikkum upp það sem okkur hentar og horfum fram hjá því sem við ekki þekkjum eða viljum ekki sjá.

 

Það er ekki veikleikamerki að fá hjálp því við erum öll að fást við það sama bara í misjöfnum aðstæðum.......

 

tevalisupport

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigríður Lárusdóttir

Höfundur

Sigríður Lárusdóttir
Sigríður Lárusdóttir
Í viðleitni minni til að halda andlegu jafnvægi mun ég bara blogga jákvætt og uppbyggjandi.....hvað held ég það lengi út?
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • internal-conversations-300x222
  • 41YPEWXf6OL. SX364 BO1,204,203,200
  • 14456633739 17cd93830a c
  • 1 OxPMWDQ1SXUdGG-EXgDBBQ
  • shame-quote-2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband