Misskilin núvitund.....

Fortíðin er liðin og henni verður ekki breytt...  Í alvöru?! Af hverju er hún þá alltaf að banka upp á hjá flestum okkar? Jafnvel að draga okkur frá því að vera í þessu blessaða núi lengur en rétt í andartak?  Nema kannski þegar við erum að vanda okkur við að vera í núinu......hugleiðslunni.....yoganu......göngunni......eða hvað það nú er sem við notum til að leiða hugann frá fortíðinni eða framtíðinni.

Get bara talað fyrir mig;  ég get ekki kvittað fyrir fortíðaratburði nema að fá skilning á þeim.  Annars eru þeir eins og ósvöruð spurning sem dúkkar upp reglulega. Og ef ég er sífellt að loka á þær með þvi að koma mér bara núið, þá er ég sem sagt ekki að finna svörin, heldur kæfa niður spurninguna....sem dúkkar bara upp seinna þegar síst má við (yfirleitt þegar ég er þreytt, stressuð eða alls ekki í jafnvægi...).  

Þá kemur leiðin inn í nokkuð varanlegt nú; Í stað þess að dragast inn í fortíðarminningu með öllum þeim tilfinningum sem þar eru og endurupplifa af fullum þunga, þá byrja ég á að vera mjög meðvituð um hvar ég er stödd og umhverfi mitt og líðan.  Sem sagt, stilla mig inn í núvitund.  Þaðan get ég svo litið á minninguna eins og hvert annað verkefni á borðinu sem þarf að leysa.  Skrifa gjarnan niður persónur og reyni að setja mig í spor þeirra og skilja hvaðan þær koma og aðstæður þeirra.  Gæti þess að vera samt í núinu við að leysa þetta verkefni.  

 

Þetta er æfing og hefur losað mig við marga fortíðardraugana með því að ná skilningi og sátt.  Og verðlaunin eru að ég er oftar í sannri núvitund án þess að þurfa að setja mig í stellingar.  Ég sagði oftar, en ekki alltaf.  

 

Núvitund er gagnslaus ef hún er hlaðin afneitun eða blekkingu........

 

mind-full


Er fortíðin að ásækja hugann?

 

"Þú breytir ekki fortíðinni"...."horfðu fram á við"....."sættast við fortíðina".  Jájá. Hef heyrt þetta og lesið oftar en ég kæri mig um að viðurkenna af því að ég hef nokkra djöfla og áföll og annað sem best væri að geta grafið niður í möttul jarðarinnar.  

Ég æfði mig og las og hugleiddi og talaði. Samt leituðu draugarnir upp á yfirborðið og oft þegar síst var von.  Vítahringur kvíðakenndra hugsana, sorgar eða reiði og depurðar.  En ég fann leið til að losna og sættast við það sem á undan hefur gengið. Veit ekki hvort þetta getur hjálpað einhverjum öðrum, því það er nú víst þannig, að hver og einn þarf að finna sína leið upp á við. Nokkurn veginn svona er þetta;

 

Heilinn getur ekki unnið með verkefni sem hann skilur ekki.  Þekkjum þetta út skóla í þeim fögum sem við nenntum ekki að læra. Allt verður að óreiðu í huganum sem erfitt er að ná tökum utan um. Til þess að ná samhengi í hlutina og ná hugarró þurfum við því að leggja á okkur að skilja hvað er í gangi.  Atburðir sem ásækja voru því eins og bilun í kerfinu sem ég rembdist við að sættast við og leggja bak við mig, en það var bara eins og að setja fallegan plástur á opið sár án þess að sauma það fyrst saman.  Og áfram blæddi.... 

Þetta heimfærði ég upp á allt það sem miður fór í fortíðinni og truflaði mig.  Eins og að finna hvað er bilað og ekki bara laga það, heldur líka skilja af hverju það bilaði og það er einmitt grunnurinn.  Ef ég veit og skil af hverju hlutirnir gerðust (hvort sem þetta voru mínar gjörðir sem miður fóru eða einhver annar gerði á minn hlut), þá get ég komið í veg fyrir að þetta gerist aftur.  

Þetta kostaði vinnu, endalausa sjálfskoðun og ég þurfti að fletta ofan af blekkingum, afneitunum og lygum í samskiptum innan fjölskyldu og vinahóps.  En fyrir vikið fann ég svör og skýringar; fékk innsýn og skilning á hegðun og viðbrögðum.  Þá fyrst gat hugurinn róast og sæst og fortíðin fór "á sinn stað í geymslunni". 

En þetta er ekki "once and for all" bati, heldur verkfæri eða hreinlega lífstíll sem gagnast út ævina.  Áföllin og erfiðleikarnir eru fylgifiskar þess að vera á lífi og eins gott að hætta að stinga bara hausnum í sandinn, því maður þarf víst að koma upp aftur til að anda...

 

Það er nefnilega ekki nóg að gera bara við; það þarf að finna orsök bilunnarinnar......

 

400_F_34966511_d3hpWilRkJFwdtLdDF1H4jHejogYM12q

 

 

 


Dyggð 20. Einlægni.

 

Einmannaleiki.  Faraldur nútímans.  Fjöldi rannsókna hafa sýnt fram á að í borgarsamfélagi nútímans þar sem úir og grúir af fólki, samgöngur eru auðveldar, samskipti gerast í gegnum fjöldan allan af miðlum og gerast á leifturhraða, þá hefur mannkynið sjaldan eða aldrei glímt við jafn mikinn einmannaleika og einmitt í dag. 

Flestir hljóta að hafa upplifað að vera einmanna einhvern tímann á ævinni. Sumir eru jafnvel stöðugt einmanna, þrátt fyrir að eiga fjölskyldur, maka eða börn.  Það er svona "ég er eins og geimvera héra" eða "ég bara næ ekki öðru fólki" eða "það er enginn sem raunverulega skilur mig".....ég kannast alla vega við þetta.  

 

Til að sigrast á einmannaleika held ég að við þurfum að temja okkur einlægni.  Að tala í einlægni um líf okkar og líðan, en á sama tíma að hlusta í einlægni á náungann sem vill deila lífi sínu og líðan.  Við erum nefnilega 7.1 milljarður sem lifum á jörðinni og það er því mjög líklegt að einhver skilji mig....hafi farið í gegnum það sama.....geti speglað mig og deilt með mér.  Þannig opna ég mig fyrir fólki og einmannaleikinn hverfur. Enginn vill vera einmanna né óhamingjusamur, en ef við lokum okkur af og gerum okkur að geimveru erum við beinlínis að kalla yfir okkur einmannaleika. Vissuelga er til fólk sem særir eða meiðir, en ef við leyfum þeim hópi að brjóta okkur niður þannig að við skellum í lás, þá erum við í leiðinni að koma í veg fyrir að þeir sem eru okkur velvilja nái inn.  

 

Við erum öll meira og minna að fást við það sama...tölum saman af einlægni......

 

sincerity_definition

 


Dyggð 19. Uppgjöf

 

Hvernig getur uppgjöf verið dyggð?!!

Ég er ekki að tala um að gefast upp í þeim skilningi að hætta við verkefni eða áskorun af því ég nenni ekki, eða af því ég þarf að gera eitthvað erfitt.  Alls ekki.

Stóran hluta lífs míns hef ég verið að skipuleggja, forgangsraða, mæta, raða, velja, ákveðja, stjórna.  Hef notað tímann og haft skýr og tímasett markmið.  Klárað þau.  Náð þeim.  Fundið ný. Náð þeim. Sprengmóður smalahundur.....

Svo brann ég yfir.  Varð ofurþreytt og missti spilin á gólfið.  Óreiða. Örvinglan. Stjórnleysi.  Hvað gerir maður þá?

Ég veit það núna.  Get náttúrulega bara talað fyrir mig, en þar sem ég tilheyri tegundinni "maður", þá getur verið að það sama geti gagnast þér.  Ég ákvað að fara í uppgjöf.  Ég dró mig í hlé og hætti að horfa á allt sem ég gat ekki lengur ráðið við og fór þess í stað að leyfa lífinu bara að koma.  Aðeins að láta af stjórninni og sjá hvað kæmi upp í hendurnar á mér.  Það var samt ekki auðvelt, því ég kann svo vel að gera akkúrat andstæðuna. Með tímanum fór ég að sjá að þessi ofurstjórn var eiginlega bara blekking.  Hún var væntingar sem stóðust að mestu en þeim fylgdu líka oft vonbrigði ef ekki gekk eins og ég vildi.  Það vill nefnilega svo til að ég er ekki eyland.  Í lífinu eru aðstæður og fólk sem hafa áhrif á gang mála og ég get aldrei tekið þau óvæntu áhrif með inn í mín plön.  Það er ekki mitt að stjórna örðum eða stýra þeim þannig að þeir lagist að mínu plani.  Því það er þá sem fer að myndast togstreita;  innri togstreita því hlutirnir eru ekki eins og ég vildi að þeir væru, og ytri togstreita af því að samskiptin urðu ekki eins og ég vildi að þau væru.  Einkaleikritið mitt truflað af öðru fólki!  

Sorglegt en líka hjákátlegt.  Þess vegna lifi ég núna í uppgjöf;  tek fagnandi því sem kemur upp á hlaðborð lífsins og vel af kostgæfni það sem ég finn að hentar mér en þó þannig að það valdi mínum nánustu ekki skaða eða leiðindum.  Nota innsæi mitt til að "máta mig" í aðstæðurnar áður en ég vel, og ef ég vel rangt, þá má skila og velja annað.  Það er nefnilega leyfilegt að skipta um skoðun; gefast upp ef valið er slæmt og segja bara "hingað og ekki lengra, ég ætla að hætta og snúa mér að örðu".

 

Lífið þarf nefnilega ekki að vera stöðugt streð; það kemur hvort sem er.......

 

white_flag_surrender

 

 


Dyggð 18. Sjálfselska.

Mér var kennt að sjálfselska væri slæm.  Fólk sem væri sjálfselskt væri oþolandi montið og gerði ekkert nema eitthvað fylgdi með......eyddi því allt of mörgum árum í að skammast mín ef ég var ánægð með mig. Ég hef sem betur fer lært; sjálfhverfa er orðið sem átti betur við fyrrgreint.  

Ég elska sjálfa mig í dag, en það er langt frá því að það sé átakalaus ást og enn er sú ást oft á tíðum ansi skilyrt!  Hvaða rugl er það?  Hver kenndi mér að ég þyrfti að vinna fyrir ást?  Er það sú sanna og hreina ást sem er hverri mannesku lífsnaðsynleg?  Líf mitt hefur í gegnum tíðina litast af þessum skilyrðingum;  ná árangri í vinnunni, standa mig vel í að halda heimili, fá góðar einkunnir í skóla, vera snyrtileg til fara og í útliti, vera fyrst, klára á réttum tíma, vera dugleg, vera dugleg, vera dugleg...... Þá fékk ég viðurkenningu.  En það er ekki fyrr en á allra síðustu árum sem ég uppgötvaði að þessi viðurkenning er ekki ást.  Hún er bara "dóp" sem veitti vellíðan akkúrat á þeirri stundu sem mér veittist hún.  Svo rann það af mér og ég þurfti meira.

Við viljum öll ást, en ég held að eina varanlega og fullnægjandi ástin sem okkur getur hlotnast er, þegar við finnum skilyrðislausa ást til okkar sjálfra.  Að finna að ég á jafn mikið rými og allir hinir á jörðinni og allir hinir eiga jafn mikið rými og ég.  Að elska mig líka þegar mér líður ekki vel eða þegar ég geri mistök.  Elska mig þegar ég átta mig á mistökunum mínum, læri af þeim og styð sjálfa mig í að gera þau ekki aftur. Þegar ég næ þeim heilbrigða kærleika til mín, þá fer ég að gera hluti á nýjum forsendum.  Ég geri það sem mér finnst skemmtilegt, ekki til þess að verða best, heldur vegna þess að ég hef svo gaman af ferðalaginu þangað og sjálftraust mitt styrkist þvi þetta eru mínir draumar sem rætast. Ég verð ánægð og stolt og sátt. Og ég get tekið einlægu hrósi þegar aðrir samgleðjast mér.  Það merkilega er, að um leið fer ég að skilja "ferðalög" annarra og samgleðst einlæglega þegar þeir ná sínum sigrum.  Ég deili gleði þeirra og finn að þeir deila gleði minni. Því við erum sannarlega félagsverur og viljum tilheyra hvort öðru.

 

Það er gott að elska sig skilyrðislaust....líka þegar ég missi mig í gamla hjólfarið.....

 

SelfLoveDiagram500 


Ertu svampur?

Stundum líður mér undarlega í návist fólks. Stundum líður mér illa í návist fólks. Stundum rosalega vel....  

Það tók mig mörg ár (nánast 50) að uppgötva að ég væri meðvirk; of oft leið mér eiginlega eins og þeim, sem ég umgekkst.  Ef streita var til staðar varð ég trekkt.  Ef mikil gleði ríkti lyfitist ég upp.  Að sama skapi varð ég niðurdregin ef stemningin var þung.  

Ég var eins og svampur sem drakk í sig tilfinningalega stöðu þess sem var í kringum mig. Var sýkt af tilfinningasmiti.  

Engum líður vel í svona rússibana, en það er ekki sjálfgefið að maður átti sig á þessu ástandi, því þetta er kannski "normið". Þess vegna skildi ég ekki alveg af hverju mér leið svona allskonar og var eins og íslenska verðurfarið suma dagana! 

 

Aldrei aftur takk.  Það er nefnilega hægt að ná stjórninni; ráða sínum tilfinningum, sínum viðbrögðum, sinni líðan.  Ég á ekki reiði annarra, né sorg, streitu, kvíða......ég get bara átt mínar eigin tilfinningar og á nóg með þær :-)

Þetta þýðir samt ekki að ég eigi ekki til samkennd.  Þvert á móti, þá get ég skilið að viðkomandi er eins og hann er af einhverri ástæðu og mitt er að halda minni ró. Á þann hátt get ég haft jákvæð áhrif og stutt eða ljáð eyra, án þess að setja sjálfa mig um borð í einhvern rússíbana sem einhver annar á.  

 

Ég ætla gæta þess að vera ekki inni í hausnum á örðum......

 

images (1)


Meika ég jólin?

 

Ég stend frammi fyrir að þurfa að "finna upp" jólahefðir.  Þessar gömlu passa ekki því púslin eru allt önnur.  Ég ætla bara að vera algjörlega opinská og berorð núna.  Nenni ekki að fara eins og köttur í kringum heitan graut. 

Já ég er að halda jól í fyrsta skiptið í 30 ár án þess að vera með maka, er fráskilin. Nokkuð af konum í mínum sporum hafa verið að skrifa pistla undanfarið um hvernig maður getur alveg átt æðisleg jól með mömmu að brúna kartöflur og pabba að gera sósu, gott ef amma eða afi voru ekki eitthvað að bardúsa líka.  Sorrí, ég á ekki ömmu og afa né mömmu og pabba;  sem sagt, þarf að treysta algjörlega á mig sjálfa ef þessi jól eiga að vera það vel lukkuð að ég geti látið mig hlakka til þeirra í nánustu framtíð.  

Ég er reyndar svo lánsöm að ég á frábæra menn sem syni og yndislegar tengdadætur. Þetta eru púslin sem ég hef, þannig að ég hef undanfarið verið að virkja hugmyndaflugið í að setja saman hvernig við getum átt jákvæða og notalega samverustund þrátt fyrir "brotið" mynstur.  

En á sama tíma hefur þessi staða fengið mig til að hugsa aðeins út fyrir mitt eigið líf og leiða hugann í átt til þeirra sem af einhverjum ástæðum halda ekki "glansmyndarjól" líkt og ég hef hingað til notið.  Ekkjur, ekklar, sjúklingar, einstæðingar, fíklar, ofbeldisfólk.....það eru svo margir sem kvíða jólunum í skugga sorgar, fátæktar, reiði, veikinda, sársauka.  Þessir einstaklingar eru ef til vill í aðstæðum sem eru svo langt frá jólagleði. Í nágrenni okkar er jafnvel fullorið fólk sem fékk ekki að kynnast gleði jólanna sem börn og bera enn með sér kvíða þegar jólin nálgast; vita hreinlega ekki hvernig eigi að finna eirð eða gleði um jólin. Ég hef hlustað á fólk tjá sig um kvíða vegna jólaboða, líði ekki vel í samskiptum við sína nánustu.  Aðra sem segjast ekki sjá hvernig þeir geti glatt sig og sína.  

Ég er ekki að draga niður stemninguna, heldur benda á að við þurfum að sýna náunganum aðgát og ekki gefa okkur að auglýsingabæklingarnir og jólablöðin sem inn um lúgurnar streyma séu fyrirmynd hinna eðlilegu jóla.  Það væri svo gott ef við tækjum niður glans-grímuna og töluðum virkilega og hreinskilnislega um hvernig okkur líður í aðdraganda jólanna.  Það gæti komið okkur á óvart hve mikinn samhug og skilning er að finna bara ef við tjáum okkur á hreinskilinn hátt.  

 

Jólin koma og fara....það er í raun það eina sem við getum verið viss um.  Ég ætla alla vega að láta allar væntingar lönd og leið og leyfa þeim bara að koma ..... 

 

tumblr_static_decorated-christmas-tree


Ég "snappaði"

Ég er hætt á snapchat.  Bara lokaði og einhverjir urðu undrandi, öðrum sk..sama.  En svo leið það hjá....

Einn daginn var eins og ég gengi á rafrænan vegg;  var bara alveg á milljón við að taka á móti alls konar "kling" og "pop" í símanum mínum og fann fyrir óróleika í hvert sinn sem hann kom með tilkynningarhljóð.  Er sem sagt einhver tilkynningarskylda allra sem ég þekki?  Nei auðvitað ekki.  Ég settist niður og íhugaði vandlega hvað væri eiginlega í gangi.  

Þessir flöldamörgu "áreytismiðlar" eru ágætir ef vel er farið með og þess vegna held ég að við þurfum að ígrunda hvað við viljum fá út úr þeim áður en við hlöðum þeim niður:

  • Ræð ég við áreytið sem fylgir án þess að detta í óróleika og athyglisbrest?
  • Hvaða tilgangi þjónar "appið" mér; hvað vil ég fá út úr því?
  • Hef ég stjórn á notkun minni eða fer hún út yfir mín velsæmismörk?
  • Er ég nógu "ómeðvirk" til að taka ekki persónulega því sem einhver mögulega kastar í mig?

Sem sagt; henti út nokkrum svona samskiptaforritum.  Eingöngu vegna þess að ég sá ekki tilganginn með notkun þeirra.  Það er engin forpokaleg forræðishyggja í gangi hjá mér, heldur fremur vangaveltur um hvort það þurfi að háma í sig allt því sem fundið er upp í rafrænum samskiptamiðlum.  Gott að prófa, en það þarf ekkert að vera með allan lagerinn í gangi enda hefur heilinn ekki þróast í takt við offramboðið á þessum nýju samskipta- og upplýsingaleiðum.  

 

Það er nefnilega allt í lagi að smakka, en maður þarf ekki að gúffa öllu í sig sem í boði er........

 

app

 

 


Við erum ólík....en samt öll eins.

 

Efnuð, blönk, menntuð, ómenntuð, trúuð, trúlaus, kona, maður, svört, hvít, heilbrigð, veik.....

öll deilum við grunnþörfum fyrir mat, húsaskjóli, öryggi og félagsskap/ást. Við erum öll í sifelldri leit að hamingju og innri sátt og viljum öll sleppa undan þjáningu.  Hvert og eitt hefur vonir, drauma, áhyggjur og ótta.  Öll upplifum við sársauka þegar við missum og gleði þegar við náum því sem við vinnum að. 

Hver einasti einstaklingur, líka sá sem sýnir illvilja, óttast þjáninguna og vill sömu hamingjuna og aðrir; við eigum öll sama réttinn á að lifa innihaldsríku lífi.  En til þess þurfum við að sýna sanna samkennd.  Ekki þannig að við horfum á aðra og segjum "æ, greyið", heldur virkilega opnum augun fyrir því að viðkomandi er manneskja með sömu eiginleika og óskir og við.  Horfum fram  hjá ytri aðstæðum sem hafa mótað viðkomandi og raunverulega leitumst við að sýna og spegla væntumþykju og skilning. 

Þannig náum við að sjá hvort annað "framhjá" hinu ytra, sjá að við erum öll jafningjar og getum sett okkur í spor hvors annars.  Sönn mannleg vinátta, umbuðrarlyndi fyrir brestum, skilningur á hegðun.  Smátt og smátt rjátlast af okkur grímurnar og við förum að sýna okkar sanna sjáf og leyfa öðrum að gera slikt hið sama.

 

Sannur mannlegur kærleikur og vinskapur þrífst ekki fyrr en grímurnar falla.....

 

image

 


Dyggð 17. Bjartsýni.

 

Þetta fer allt vel. Einmitt....

 

Ég er ekki að tala um þess konar bjartsýni sem tengist afneitun á vandanum og blekkingu um að þetta lagist bara af sjálfu sér.  Er meira að segja vantrúuð á að "tíminn lækni öll sár".  Ég hef nefnilega fengið nokkur sárin í gegnum tíðina og 50 ára reynsla mín hefur kennt mér (stundum biturlega) að ef ekki er markvisst búið um tifinningalegu sárin og unnið með þau, þá vill auðveldlega rifna ofan af þeim með tilheyrandi "blóðbaði".

 

En hvernig get ég verið bjartsýn í miðjum hvifilbyl?  Það er vel hægt, eins og ég skilgreini bjartsýni.  Ég get alveg verið döpur, sorgmædd, reið eða sár vegna einhvers sem lífið kastaði framan í mig, en ef ég er bjartsýn, þá þýðir það einfaldlega að ég ætla að leita allra leiða til að vinna mig út úr hvirfilbylnum og halda áfram með lífið. Bjartsýni í erfiðum aðstæðum er að finna hvert ég vil stefna og halda fókus á að finna leiðina þangað...og halda stefnunni. Það getur alveg þýtt að ég velji ranga leið sem virkar ekki, en það er allt í lagi; ég bara reyni eitthvað annað.  Og jafnvel enn annað, alveg þangað til að ég finn að lífið er að taka á sig betri mynd og nér líður betur.  

Á meðan á þessu ferli stendur þarf ég að tileinka mér þolinmæði og umburðarlyndi gagnvart sjáfri mér þannig að ég dæmi mig ekki ef illa gengur.  Bakslög fylgja og þá er svo auðvelt að gefast bara upp.  En bjartsýnin hjálpar mér að halda mér við efnið og trúa á að ástandið lagist og bjartari tímar komi.  Þetta virkar; ég hef reynt það.

 

Bjartsýni er hugarástand sem með tímanum verður að ávana.....

 

8840101-optimism-magnifying-glass-over-background-with-different-association-terms-vector-illustration


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigríður Lárusdóttir

Höfundur

Sigríður Lárusdóttir
Sigríður Lárusdóttir
Í viðleitni minni til að halda andlegu jafnvægi mun ég bara blogga jákvætt og uppbyggjandi.....hvað held ég það lengi út?
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • internal-conversations-300x222
  • 41YPEWXf6OL. SX364 BO1,204,203,200
  • 14456633739 17cd93830a c
  • 1 OxPMWDQ1SXUdGG-EXgDBBQ
  • shame-quote-2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 50193

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband