Andskotinn; þarf ég að gera allt?!

 

Þeir eru margir þroskaþjófarnir sem koma inn í líf okkar. Fólk er stjórnsamt og reynir að yfirfæra ótta sinn yfir á allt og alla í kringum sig með því að taka af okkur þann nauðsynlega þroska að leyfa okkur að taka ákvarðanir fyrir okkur sjálf.  Mamma og pabbi....voða oft erfitt að sleppa yfirráðum af ungunum; systkyni sem vita betur; makar.....þori varla að fara þangað sko.  Endalausir sjálfskipaðir ráðgjafar sem vita hvað okkur er fyrir bestu.  

Sum okkar eru reyndar það lánsöm að eiga styðjandi og uppörvandi fyrirmyndir sem leyfa okkur að reka okkur á og hrasa. Hjálpa okkur svo skilyrðislaust að standa upp og læra af því sem miður fór.  Þó eru það fleiri sem læra bara að skammast sín og að fela mistökin, jafnvel ljúga eða koma sökinni hreinlega á aðra.  Allt til að líta úr fyrir að vera alveg með þetta á hreinu. Á endanum þorum við varla að hlusta á né treysta eigin innsæi og leitum stöðugt til annara með okkar eigið líf. Eins og aðrir viti eitthvað betur hvað okkur sjálfum sé fyrir bestu.

Vá hvað þetta er sorglegt!  Það er nefnilega þannig, að þegar við verðum fullorðin þurfum við að gera allt sjálf. Allt...þá meina ég að taka ábyrgð á okkur. Þessi ábyrgð nær yfir heisufarið, samskipti, samábyrgð, skuldbindingar, heiðarleika, virðingu (fyrir fólki og umhverfi), traust....  Við bara getum ekki ætlast til að fá að vera börn að hluta sem svo aðrir eiga að sjá um að uppfylla þarfir fyrir.  Held nefnilega að hver og einn hafi alveg nóg með sjálfan sig og nenni ekki alveg að setja sig nægilega inn í líf annara til að geta verið besti ráðgjafinn.

Þetta er ekkert skammarblogg. Alls ekki. Ég nenni oft ekki að vera fullorðin og taka ákvarðanir og borga reikninga og bera ábyrgð og standa við skuldbindingar. En það bara er ég sjálf sem tók þessi verkefni að mér sem ég lifi og hrærist í og ef ég nenni ekki....þá líklega verð ég að fækka þessum verkefnum...

 

Já ég þarf að gera allt...sem ég vel inn í mitt líf.....

 

Act-like-an-adult-not-a-grown-up-Kent-Healy

 


Þurfti ég að vera tilbúin að deyja til að vera tilbúin að lifa? Í alvöru.

 

Minni á að þetta er mitt blogg um minn hugarheim. Ekki hinn heilagi sannleikur.

Ég er 52 ára og nýt lífsins til fullnustu. Það þýðir ekki að ég sé í sjúklega góðu skapi alla daga og sé búin að útrýma öllu sem flokkast sem neikvæðar tilfinningar. Og hvað eru neikvæðar tilfinningar? Hver ákvað það?
En alla vega...ég lifði framan af í stöðugum og ómeðvituðum ótta; Ótti við höfnun, afkomuótti, ótti við að missa stjórn (á hverju veit ég ekki...), ótti við að missa af, ótti við að börnin...bara...eitthvað, ótti við að velja rangt..... En hélt mig samt vera svo meðetta allt. Góð menntun, mann og börn og hús og bíl og ferðalög og áhugamál. Djö...var ég samt alltaf þreytt og ekki nóg.
Svo fékk ég krabba. Svo missti ég vinnuna. Svo brann ég út.

Það er eins og maður þurfi að lenda svona í einhverju "ég get ekki meir" til að virkilega fá kjarkinn til að grafa nú í sárustu og sóðalegustu kimana í hugskotinu. Hafði ekki neitt val að mér fannst og hóf tiltekt. Ekki samt ein, því þegar maður fer einn í að taka til þá réttlætir maður fyrir sér hverju skal henda og hvað skuli nú ríghalda í. Þó það sé vita gagnslaust til framtíðarnota þá vill mannskepnan oft halda í það sem gefur ekkert og tekur bara pláss.....geymum skaðleg og niðurbrjótandi hegðunarmynstur af því við þekkjum þau svo vel og þau gefa ákveðið skammtimaöryggi.

Þessi tiltekt er eins og önnur..hún er ekki endanleg, því það kemur alltaf eitthvað nýtt í ljós og maður byrjar líka að safna aftur. EN...það sem þessi reynsla (sem gæti fyllt bók en ekki blogg) skilaði af sér er að ég aftengdi mig svo órtúlega mörgu. Í alvörunni þá finn ég að ég er "tilbúin" að deyja. Erfitt að útskýra þessa tilfinningu án þess að hljóma þunglynd..... en ég er bara svo sátt. Hef skilað af mér 3 fullorðinum gaurum sem standa á eigin fótum. Er nokk sama um allt þetta dót sem ég á því ég bara finn enga tengingu sjálfsmyndar minnar við það. Vissulega þægilegt dót sem auðveldar mér lífið og það er ég mjög þakklát fyrir. Mér er ekki sama um vini mína og ættingja, en ég ber enga ábyrgð þar nema á minni eigin hegðun gagnvart þeim.... ber mikinn kærleika og væntumþykju og samkennd til margra þeirra, en þeirra líf er ekki háð tilvist minni á einn eða neinn hátt, ekki frekar en að mín sé háð neinum þegar upp er staðið. Enginn hefur neinn vísan í lífinu nema sjálfan sig. Ekki valkvæður vinskapur þar.

Þegar ég fann þetta frelsi, þá fór ég smám saman að lifa bara hér og nú. Er enn að brjóta niður þessa múra sem hólfuðu lífið niður í box, sem enginn getur þreifað á en einhver tróð í hausinn á mér að væru lífið. Mig langar ekki að lifa í boxi..... mig langar að sjá allt og smakka allt. Prófa það sem dettur upp í fangið á mér og læra. Mér finnst það svo miklu skemmtilegra. Smakka margt súrt og beikst líka, en forðast að endurtaka það ef ég kemst hjá því. En kom on.........

.........til hvers að lifa ef maður vill ekki gera það þokkalega lifandi..........

IMG_0912 

 

 

 

 


Ert þú mögulega að samþykkja ofbeldi?

 

Dæmi: Þú horfir upp á það í vinnunni/fjölskydlunni/vinahópnum að einn ákveðinn aðili er alltaf að hrinda fólki. Stundum lætur viðkomandi nægja að stugga við fólki léttilega, en aðra daga gefur hann löðrung í tíma og ótíma; jafnvel sleppir einu og einu höggi.  En sá hinn sami biður reyndar alltaf fyrirgefningar og er jafnvel þess á milli frekar  almennilegur og jafnvel bara góður.  Finnst þér þá ekki bara í lagi að þessi fái óáreyttur að beita ofbeldi? Horfa bara fram hjá því og njóta skemmtilegu stundanna?

 

Vonandi er svarið nei!  

 

En skiptum þessum stympingum, löðrungum og einstaka höggum út fyrir andlegt ofbeldi. Þar vandast málið.  Við sjáum það nefnilega ekki, heldur upplifum það og túlkum.  Og það er einmitt þessi túlkun sem er svo markalaus og erfið.  Er í lagi að einn einstaklingur stjórni líðan hinna í umhverfinu?  Það er útgáfan sem við flestöll þekkjum.  En svo er það hinn endinn á spýtunni;  þegar ofbeldið er svo vel falið í manipulation, jafvel siðblindu, þá er svo auðvelt að rugla alla í kringum í kollinum að þeir átta sig oft ekki á alvarleikanum. Örin á sálinni og marið á hjartanu sést ekki og þess vegna kemst ofbeldismaðurinn upp með að halda uppi hegðun sinni og beitir snilldar blekkingarleik út á við svo þolandinn er jafnvel dreginn í efa!  Samt er einhver tilfinning um að ekki sé allt alveg með felldu, en þú bara hristir þetta af þér og heldur áfarm með aðgerðarleysið.  

 

Þetta er staðreynd og viðheldur öllum stigum andlegs ofbeldis.  Af hverju gerum við ekkert? Er það ótti og  þá ótti við hvað?  Að rugga bátum eða hræra í pottum svo drullan komi upp á yfirborðið?  Á meðan við þegjum þá munu gerendur aldrei taka ábyrgð.

 

Ég neita að þegja og segi alltaf NEI VIÐ OFBELDI............

 

Cycle-of-Abuse


Hver er þinn keppinautur?

 

 

Ég er keppnis.  Hef alltaf verið það.  Fyrstu áratugi ævi minnar skilaði þetta keppnisskap mér sigurtilfinningu sem ég taldi vera hamingju; varð rosa kát yfir góðum einkunnum, prófskírteinum, hrósi fyrir frábært verk, bætingu á tíma.....  Samt aldrei alveg sátt af því ég vildi meira...og meira...  Veit í dag að ég var ekkert annað en fíkill á eigin dópamínvímu.

 

Ég er svona ennþá í dag, 52 ára.  Finnst gott að vinna svona sigra og finna til gleði. En. Þetta er ekki það sem gefur mér tilfinninguna af því að vera sátt og hamingjusöm og finna innri ró.  Þessi tilfinning er ekki sterkur grunnur fyrir góða sjálfsmynd hvað mig varðar. Stundarfró sem líður hjá.

 

Það var ekki fyrr en ég áttaði mig á því, að ég var í eilífum samanburði við ytri norm að ég skildi af hverju ég var aldrei sátt; mér var kennt af samfélaginu, skólakerfinu og af uppalendum að bera mig í sífellu saman við hina. Hvað fóru þeir langt..hvað fengu þeir í einkunn...hvaða þetta og hitt. Takandi inn í dæmið að við erum ca 7.5 milljarðar þá er nokkuð ljóst að ég mun aldrei vinna  Þvílíkur léttir að átta sig á þessu!  

 

Nú keppist ég ekki við neitt annað en að vera á hverjum degi betri manneskja en ég var í gær (tekst ekki alltaf enda hjólfarið helv... djúpt).  Ég set mér gildi sem ég vil hafa að leiðarljósi til að gera skilgreint á hverju ég vil byggja sjálfmynd mína og leitast við að hafa hana í fókus á hverjum degi.  Það er það eina sem getur gert mig hamingjusama; að vita hvað ég er og hvað ég vil og fara stöðugt en rólega eftir því með þolinmæði og umburðarlyndi. Umbyrðarlyndi af því að ég dett oft á rassgatið.  

 

Það er nefnilega gefandi og gaman að keppa við sjálfan sig því ég set reglurnar.........

 

9cf582b9ee9b402d477135c54d89627d


Meðvirkni drepur

 

Sérfræðingar telja að allt að 95% þjóðarinnar sé meðvirk vegna fámennis. Fámennið leiðir til þess að nándin er meiri og flerir að "anda niður um hálsinn á okkur". Afleiðingin er að við berum kyrfilega með okkur leyndarmál sem við skömmumst okkar fyrir og erum sérfræðingar í að vera eldsnögg að setja upp grímuna "allt er í gúddí hjá mér".  Eigum grímu fyrir hvert tækifæri......

Meðvirkni er eitur í samskiputum og meðvirkni drepur.

drepur heilbrigð samskipti

drepur innri ró

drepur gleði

drepur frelsi

drepur frumkvæði

drepur athygli

drepur sjálfstæði

drepur sjálfsvirðingu

drepur kjark

drepur heiðarleika

drepur sannleikann

drepur fordómaleysi

drepur......

 

í orðsins fyllstu merkingu......

 

1452478280

 


Er þekking stundum blekking?

 

Það er áhygavert að velta fyrir sér hvað stýrir hegðun okkar.  Fæstir gera sér almennilega grein fyrir hvað undirmeðvitundin er miklu sterkara stýriafl á hegðun okkar heldur en vitsmunaleg dómgreind.

Dæmi þess til sönnunar er auðvelt að telja upp í bókalengd, en hér eru nokkur:

Reykingar (flestir vilja hætta en geta það ekki)

Ofát eða óhollusta (hver hefur ekki viljað losna við nokkur kíló einhven tímann eða verða heilsusamlegri?)

Peningasparnaður (flestir kannast við að ætla að byrja að eyða minna og leggja fyrir í næsta mánuði)

Ekki láta mömmu/pabba/systikyni/vini stjórna svona lífinu ("skil ekki af hverju ég segi já við þau þegar ég vil segja nei....)

 

Það sem ég á við með þessari upptalningu er, að það er svo ótal margt sem við höfum dómgreind til að framkvæma og vitum að er okkur fyrir bestu, en engu að síður þá gerum við þveröfugt.  Það skapar vítahring vonbrigða með okkur sjálf sem fær okkur til að leita einmitt í þessi gömlu hjólför sem svo enn aftur skapa vonbrigði.  Og svo koll af kolli.....sjálfsmyndin bíður skaða sem við reynum að bæta upp með alls konar ytri sigrum (sem svo duga skammt og við leitum að nýjum.....).  Þekki þetta á eigin skinni.

Þetta er viðvarandi ástand þar til við erum tilbúin að stoppa og viðurkenna að það er alveg sama hversu mikið við kunnum og vitum og getum; ekkert breytist fyrr en við skoðum hvaða tilfinningar eru að stjórna hegðun okkar; tilfinningar eru nefnilega öflugasta stýrirtæki mannlegrar hegðunar. Og einmitt þær sem eru hvað erfiðastar og sársaukafyllstar fá okkur til að hlaupa hraðar í vonlausri tilraun til að sleppa við þær. Það er engin ný uppgötvun eða merkileg; staðreyndin er sú, að hættum við ekki að hlaupa í leit að nýjum flóttaleiðum, þá mun þessi flótti enda í besta falli með ófullnægju og í versta falli í veikindum eða dauða.  

Það er líklega óttinn við að breyta eða missa eða hið óþekkta sem heldur okkur í þessum hjólförum.  

 

En það er varla neitt að óttast, því hvað getur verið svona vont við að öðlast meiri sjálfsþekkingu og innri ró................

 

 

youyr-subcon

 


Mér er ekki sama um álit annara.

 

Rosalega súrt að viðurkenna þetta. Vil nefnilega helst trúa að ég sé svaka sjálfstæð og svöl. Er samt alveg pínulítið (mikið) skrítin stundum, fer mínar leiðir og upplifi mig jafnvel einstaka sinnum sem einfara...eða bara geimveru á röngum hnetti.  En það gerið þið stundum líka, alla vega sum....

 

Staðreyndin er, að það liggur djúpt í arfleið mannkynsins að þurfa viðurkenningu samfélagsins sem viðkomandi býr í.  Við sem göngum jörðina núna erum nefnilega afkomendur allra þeirra sem voru "háðir" sambýli og samþykki annara.  Hinir, sem ekki þurftu á örðum að halda og fóru sínar leiðir sem einfarar áttu einfaldlega ekki afkomendur og þar með hvarf sú arfleið. Til að lifa af þurfti hópurinn að vilja hafa þig með, og til að fá að vera með þurftir þú að leggja eitthvað til hópsins sem gagn var af og hópurinn samþykkti.

 

Þetta mynstur stýrir okkur enn þann dag í dag; líklegast eitt sterkasta stýriafl mannlegrar hegðurnar.  Börn streða fyrir samþykki foreldramna, við leitum eftir samþykki verðandi maka, við reynum allt til að ná árangri í vinnunni, íþróttum...o.s.frv..  Það er ekkert óeðlilegt við það.

 

Okkur finnst nefnilega sárt að standa fyrir utan...........

 

 

excluded-from-group-3d-character-shows-bullying_GyI_nQDO

 

 

 


Börn eru ómetanlegir kennarar

 

Bernskan er ekki lífsskeið sem snýst um að læra að verða fullorðin. Bernskan er skeið sem snýst um að fá að vera barn. Þau komast nefnilega ekki hjá því að verða fullorðin einn daginn.

 

Okkar hraða vestræna þjóðfélag hefur einhvers staðar týnt niður þessu viðhorfi. Skilaboðin til foreldra eru að kaupa alls konar ungabarnaleikföng (já leikföng fyrir ungabörn) til að kenna þeim tölur, liti, stafi..... Alls konar námskeið eru haldin til að leitast við að gefa "mínu barni forskot" svo blessuð börnin verði nú ekki vitlaus og óhamingjusöm.

 

Spurning mín er þessi:  Af hverju snýst lífið svona mikið um morgundaginn/framtíðina? Hvað varð um daginn í dag?

 

Að sjálfsögðu er gott að kenna börnum eitt og annað; en er það gert af skyldurækni eða er það gert í gleði augnabliksins?  Hvort ætli sé vænlegra til árangurs?  Börn læra best þegar þau fá að vera börn; í gleði, leik og með því að leyfa ímyndunaraflinu að flæða.

 

Börnin geta nefilega kennt okkur fullorðna fólkinu ekkert minna en við þeim.  Þau geta kennt okkur að lífa í líðandi stund, því þau eru tímalaus. Þau minna okkur á hvernigvið getum notað ímyndunaraflið í leik og starfi, og ekki minnst, kennt okkur að kasta burt hömlum sem tengjast meðvitund okkar á hvað náunginn skyldi mögulega vera að hugsa um okkur. Þannig eru börnin ekki minna verðmætir kennarar okkar en við þeim.

 

Hvernig væri að ýta burt hugsununni um hvað börnin okkar verða þegar þau verða stór og í stað þess veita þeim athygli eins og þau eru og elska þau skilyrðislaust fyrir að vera bara til.

 

Það er dýrmætt að uppgötva lífið á nýtt gegnum börnin......

 

download


Ég skil ekki samfélagið sem ég bý í.

 

Ég er ekki barnaleg.  Ég er ekki einföld. En ég skil ekki....

Ég hef einn líkama sem á að duga mér þar til ég dey og til að fara vel með hann veit ég hvað þarf til;  Vera ábyrg og næra hann vel með góðri fæðu og hvíld. Af því ég bý á Íslandi, þá þarf ég líka húsnæði sem er hitanlegt og skjólgóðan fatnað.  Ekki verra að hafa ágætis faratæki sem skilar mér slysalaust milli staða.  Til að þrífast andlega þarf ég að hlusta á líðan mína og fara vel með mig. Ég þarf að sinna samferðafólki mínu og gæta þess að sýna þeim virðingu og kærleika án þess að krefjast þess á móti.  Það kemur sjálfkrafa ef ég er sönn og heiðarleg.

Þess vegna skil ég ekki þessa umræðu um eignarhald, skattaskjól, aflandsfélög, fjárfestingaleiðir......

Ég skil ekki til hvers að safna svo miklum eignum að þegar ég dey, þá mun ég skilja það allt eftir mig. Eða mun ég þá kannski deyja sáttari?

Ég skil ekki af hverju ein manneskja getur með góðri samvisku grætt svo mikið að það kostar aðra manneskju aleiguna.  

Ég skil ekki hvernig vinnuframlag einnar manneskju getur skilað milljónum meiri eigum en vinnuframlag annarrar. Við þurfum öll á framlagi hvors annars að halda, eða er það ekki? Þjóðfélag er tannhjól sem er hlekkjað saman í vél.

Ég skil ekki af hverju fyrirtæki/lánastofnanir svífast einskis við að hirða krónurnar af sumum til þess að eigendur þeirra geti skilið meira eftir sig. Eða erum við hræætur?

 

Þetta er svo sem ekkert nýtt í sögunni; maðurinn er ógeðslega grimmt dýr.  Okkur á að vera gefin skynsemi og tilfinningar, en það er bara eins og tegundinni hafi ekki tekist að temja sig.  Hömluleysi, græðgi, grimmd og umburðarleysi. Þetta er val.  Það er hægt að velja auðmýkt, skilning, umburðarlyndi, hógværð, samkennd....

...það er nægt rými og nægur auður svo allir getir lifað sómasamlegu lífi. 

 

Ég skil ekki mína eigin tegund............

 

067863-3d-glossy-blue-orb-icon-alphanumeric-equal-sign

 


Hvað gerir þú við sár?

 

Segjum sem svo:

Þú lendi í óhappi og færð nokkuð djúpan skurð á lærið.  Þú lítur sem snöggvast á sárið, en tekur svo upp góðan hníf og potar hressilega í það; gott ef þú reynir ekki hreinlega að skera aðeins dýpra. Næstu daga tekur þú hnífinn reglulega og núir honum sæmilega fast í sárinu svo þú finnir nú örugglega til og gleymir því nú alls ekki.

Ekki líklegt. Það er búið að kenna þér fyrir fleiri árum en þú manst, að það þarf að stöðva blæðingu, búa um sárið, hindra að það sýkist og taka því svo rólega og hlífa svæðinu þar til sárið er gróið.

 

Segjum sem svo:

Þú lendir í aðstæðum sem særa þig; það getur í raun verið hvað sem er, sem vekur upp ótta, sorg, höfnun, reiði, eða setur þig úr jafnvægi á einhvern hátt. Var þér einhvern tímann kennt hvað þú ættir að gera til að græða þetta sár?  Það eru því miður meiri líkur á að svo sé ekki.  Enda þekkja flest okkar þessi viðbrögð; bíta á jaxlinn og harka af sér, verða fórnarlamb, detta í stöðugan kvíða, fara í þunglyndi, fá þráhyggjuhugsanir, tala sig niður, lifa í skömm og sjálfsásökunum.

 

Af hverju er sjálfsagt að kenna börnum að bursta tennur, vera hrein, borða hollt og almennt sinna vel líkamlegum þörfum en horfa svo gjörsamlega fram hjá því sem ekki er síður mikilvægt; að sinna andlegu heilbrigði?  Afleiðingin er að á fullorðinsárunum stöndum við varnarlaus þegar hlutirnir ganga ekki upp eins og við höfðum væntingar til. Við kunnum ekki að gera mistök, þolum illa mótlæti, og eigum sum hver fullt í fangi með að komast í gegnum dagana þar sem við kunnum ekki að "þekkja sárin sem blæða" innra með okkur. Nuddum jafnvel í langan tíma illilega í sárinu með svo það verður ljótt ör á sálinn.

 

Hvenær kemur að því að andleg umhirða er jafn sjálfsögð og líkamleg......

 

 

Pings version of learned helplessness

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigríður Lárusdóttir

Höfundur

Sigríður Lárusdóttir
Sigríður Lárusdóttir
Í viðleitni minni til að halda andlegu jafnvægi mun ég bara blogga jákvætt og uppbyggjandi.....hvað held ég það lengi út?
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • internal-conversations-300x222
  • 41YPEWXf6OL. SX364 BO1,204,203,200
  • 14456633739 17cd93830a c
  • 1 OxPMWDQ1SXUdGG-EXgDBBQ
  • shame-quote-2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband