Færsluflokkur: Bloggar

Dyggð 16. Skilningur.

Átök í samskiptum.  Kannast einhver við það?

Í áratugi átti ég í meðvitundarlausum samskiptum alla daga við alls konar fólk.  Stundum leið mér bara vel, samskiptin voru afslöppuð og ég í rauninni leiddi hugann ekkert sérstaklega að því að þau væru góð; þau bara voru.  En svo voru það samskiptin sem tóku á.  Ég var ekkert endilega að hugsa djúpt um hvernig þau tóku á, heldur var ég kannski bara pirruð, reið, döpur, stressuð.  

En ég hef lært; lært að hlusta á hvernig líðan mín er á meðan samskiptum stendur, en ekki síður hvernig mótaðila mínum líður.  Það er nefnilega ekki nóg að heyra hvað sagt er, heldur taka eftir því hvernig hegðun viðkomandi er.  Líður viðkomandi illa, er hann þreyttur, upptrekktur, glaðlegur, sorgmæddur? Þetta kallar á skilning.  Skilning á að við eigum öll okkar góðu daga og slæmu daga og ég get aldrei krafist þess að aðrir hafi stjórn á framkomu sinni (þó það væri náttúrulega frábært...).  Ég get því aðeins reynt að sýna skilning og þannig vandað mig við hvernig ég kem fram.  Það kalla ég að vera í meðvituðum samskiptum. Það er nefnilega ekkert galið við að "þú skalt koma fram við aðra eins og þú vilt að aðriri komi fram við þig".......

 

....og kannski væri gott að reyna að skilja en að ætlast til að vera skilin....

 

understanding


Dyggð 15: Skopskyn

 

 

Já, mér finnst húmor vera dyggð! Hver vill annars ekki hlægja?  Það getur aftur á móti verið snúið að fá þó ekki væri nema annað munnvikið til að bifast örlítið.

 

Hvað er gott skopskyn?  Það hafa verið skrifaðar lærðar greinar í kílóavís um húmor; hann hefur verið flokkaður niður og það er hægt að deila um hvað sé smekklegur eða hreinlega óviðeigandi húmor.  Í alvöru.  Já einmitt, alvöru.  Stundum getur lífið bara verið svo snúið að við getum engan veginn upplifað neitt sem sniðugt, hvað þá fyndið. En góðu fréttirnar eru að það er hægt að þjálfa þetta skyn; skopskynið. Í rauninni var það þarna undir niðri allan tímann....

 

....sjáið bara börnin.  Það þarf ekki nema eina grettu og ungabarn hlær; eitt gott prump og smábarnið hlær (reyndar fullorðnir líka..), einn léttan brandara og krakkinn hlær. Svo fer eitthvað að bögglast. Lífið fer að trufla sjálfsmyndina hjá unglingnum og skyndilega fer sumt að vera bara asnalegt eða ömurlegt og jafnvel fer eitthvað að verða aðhlátursefni sem alls ekki ætti að vera það.  Ég er að sjálfsögðu ekki að alhæfa, en flestir kannast við einhver blæbrigði af þessu.  Kannski er það einmitt þessi alvarlegheit sem eru að þvælast fyrir okkur og koma í veg fyrir að við njótum alls þess smáspaugilega í daglegu lífi okkar.  Við tökum okkur hátíðlega og pössum að verða nú ekki eitt af aðhlátursefnunum.  Leyfum okkur þar af leiðandi aldrei að sleppa af okkur beislinu og bara láta vaða; hlægja hátt og asnalega, gera grín að aðstæðum okkar og jafnvel okkur sjálfum.  Ég er ekki að meina að við eigum að fela sársauka og vanlíðan með húmor, heldur frekar að hafa kæruleysislegra viðhorf til lífsins.  

 

Það sem gerist við að viðhalda skopskyninu er ósköp líffræðilegt og kannski óspennandi, en lífsnauðsynlegt;  við losum fullt af vellíðunarefnum og rjúfum á meðan hinn niðurbrjótandi vítahring streitu- og vanlíðurnarefna.  Okkar eigin geðlyf!  Þetta er allt þarna innra með okkur, en við þurfum bara að æfa okkur líkt og í annarri líkamsrækt.  Skiptir engu máli hvers konar húmor þú hefur; svartan, beittan, aula... finndu bara það sem fær þig til að brosa/hlægja án þess að það komi niður á öðurm. Gerðu svo bara meira af því laughing

 

Það eru nefnilega tvær hliðar á málunum; sorgleg og spaugileg.  Hvor hjálpar meira.........HAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHA!  HA?

 

black-dark-text-humor-quotes-funny-infographics-1920x1440-wallpaper_wallpaperswa-com_100


Dyggð 14. Örlæti.

 

Ég verð að viðurkenna að það vafðist aðeins fyrir mér hvernig ég ætti að skilgreina örlæti sem dyggð, án þess að lenda í klisjukenndum frösum.  Hef lesið þúsund sinnum allt um að gefa það sem er ókeypis; kærleik, vináttu, hrós, bros.  Veit þetta allt saman.  

Það er víst ábyggilegt, að okkur reynist auðveldast að vera örlát á það sem við eigum nóg af.  Sumir gefa stórar gjafir, aðrir vinna sjálfboðastörf.  Enn aðrir eru bara aldrei örlátir á neitt.  

Hvað hef ég að gefa? Og hverjum?  Ég held að allt ósvikið örlæti hefjist hjá manni sjálfum; að vera örlát við sjálfa mig.  Þá er ég ekki að tala um buxur, fótsnyrtingu eða gott rauðvín, heldur örlát á umburðarlyndi gagnvart þvi sem miður fer, á þol gagnvart brestunum mínum, örlát á tíma fyrir sjálfa mig, örlát á leyfi til að vera ég sjálf. Þannig gef ég mér tækifæri til að fyllast trú og trausti á eigin verðleika og getu og verð þannig fær um að gefa öðrum af örlæti mínu allt það sem ég á nóg af.  

Er þá komin að áðurnefndum klisjum;  þegar ég get í sönnu örlæti gefið samkennd þá finn ég náungakærleika; þegar ég ljái eyra læri ég að þekkja; þegar ég gef tíma fæ ég þakklæti, þegar ég gef hrós fæ ég bros.  Þetta eru gildi sem skipta mig meira máli þegar upp er staðið.  Þegar örlæti sprettur upp af einlægni, þá er ekkert klisjukennt við það.

 

Þess konar örlæti skilar nefnilega svo stórum gjöfum til baka.........

 

gratitude-open-hands-generosity

 

 


tillögur að bættri þjóðarsál.........

Ég held að við séum föst í vítahring, eiginlega "mind loop" (verður héðan í frá kölluð þráhyggja) sem virkar eins og hringiða og sogar þjóðarsálina neðar og dýpra.  Og það sérkennilegasta er að það er eins og "við" viljum sogast þangað niður, af því að "allir" eru að fara þangað..... Það er svo sem ekkert að hjarðhegðun, bara ef hún er ekki skaðleg.  Við erum félagsverur og lærum af þvi sem fyrir okkur er haft, enda erum við afkomendur þeirra sem héldu sig saman í hellum og lærðu að þrífast á samvinnu (einfararnir fjölguðu sér ekki; voru nefnilega einir).

Þessi þráhyggja felst að mestu í þeirri hugsun að maður eigi að vera á einhvers konar línulegri braut í lífinu og við eyðum gríðarlegri orku í að velta okkur upp úr hvernig halda eigi sér á línunni.  Þessi lína er nokkur veginn:  fæðast-leikskóli-grunnskóli-læra staðlað í samkeppni við þann næsta-framhaldsskóli-(háskóli)-maki(getur dottið inn fyrr)-vinna-börn(geta dottið inn fyrr/seinna)-hús-endurmenntun-(sumarhús)-barnabörn-ristilspeglun-vinnulok-afþreying(hægðu nú á þér)-elliheimili/þjónustuíbúð-endir.  Það er hellings svigrúm fyrir persónuleg blæbrigði sem við nýtum okkur mismikið; utanlandsferðir, fjallgöngur, iron man, bútasaumur, golf (er reyndar næstum hjarðhegðun...) o.s.frv..   

Þá kemur að því sem ég tel aðalmeinsemdina:   Við berum okkur saman!!!  Á þráhyggjukenndan hátt.

Samanburður felst í "minna en" og "meira en".   Afleiðing samanburðar er því að einn er betri/meiri og hinn þá verri/minni.  En af því það er svo sárt að lúta í lægra haldi og eins að halda meintu forskoti, þá erum við stanslaust í vörn eða sókn.  Við verjum af hverju við þurfum að vera betri og við verjum af hverju við erum ekki betri.  Skítt með persónulega hæfni eða áhuga, því sorglega staðan er sú, að of margir hafa ekki beint hugmynd um hvað þeir raunverulega vilja með lífið sitt.  Vinna mín með fólk (og sjálfa mig) hefur kennt mér að stórum hluta tímans eyðum við í að fylgja því sem samfélagið og uppalendur hafa stimplað inn í kollinn á okkur hvað eigi að keppast að.  Og hvernig í ósköpunum getur þetta leitt til ánægju, friðsældar og hamingju?  Að vera í sífelldri vörn eða sókn skapar átök, óróleika, jafnvel biturð og hatur.  Lesið bara kommentakerfin; horfið á fréttirnar; hlustið á innhringiþætti útvarpsins.  

 

Nokkrar einfaldar tillögur til úrbóta (ekki auðveldar, ég veit):

 

  • Hlöðum færri verkefnum á okkur. Þá myndast rými til að hugsa um hvað við sjálf stöndum fyrir og hver okkar geta og vilji er í þessu lífi.                                                                                                 
  • Hlöðum færri verkefnum á börnin okkar.  Þau þurfa ekki að læra að vera óróleg og sífellt að hlaupa í skipulagða dagskrá mótaða af öðrum. Leyfum þeim að dunda sér við það sem þau vilja sjálf.  Þannig eflast þau í eigin verðeikum.                                                                                                                                                                                                                           
  • Spyrjum okkur reglulega hvað vantar í augnablikinu.  Oftar en ekki kemur svarið á óvart...                                                                                                                                                     
  • Tökum eftir öðru fólki.  Horfum út fyrir okkur sjálf og þá sjáum við að allir vilja heilsu og hamingju. Við getum gert heilmikið með því að hlusta og sýna raunverulega samkennd.  "Pay it foreward" er ekkert bull.                                                                                                                                                                                                                                                                
  • Taktu eftir hvar þú ert í vörn og hvar þú ert í sókn.  Þannig er hægt að losa sig út úr innri átökum.  Við eigum ekki að þurfa að sanna eða verja tilvist okkar.  En ef við erum að því, þá er eitthvað sem stangast á við raunveruleg gildi okkar.                                                                                                                                                                                                              
  • Spurðu þig á hvaða forsendum þú gerir það sem þú gerir.  Er það af ánægju, eða flótta/fíkn, eða af því "allir gera það"?  Oft áttum við okkur ekki á rót vansældar eða óhamingju og í stað þess að vinna með þessar tilfinningar þá hlaupum við undan þeim í alls konar hegðun.  En vandinn er bara, að tilfinningasúpan fylgir okkur alltaf....og við festumst í vítahring.

 

Þetta er auðvitað enginn sannleikur, heldur mínar vangaveltur.   Því ég fann fyrst sátt og innri hamingju þegar ég hætti að þurfa að sanna eða verja hver ég er..........

 

download

 

 

 


"orðhengilsháttur"

Orð; gagnleg, nauðsynleg, uppbyggileg, misskilin, hættuleg, áhrifamikil, svikul.  

Það flóknasta sem við tökumst á við í lífinu eru samskipti.  Ef ekki væri annað fólk þá væri lífið frekar átakalaust.  Þyrfti ekki að taka tillit; þyrfti ekki að verja langanir og gjörðir....... 

Samskipti eru samanlagt orð, líkamstjáning og raddblær.  En það er samt þannig að við virðumst helst hanga í orðunum sem sögð eru.  "Þú sagðir" getur falið í sér svikin loforð eða brostar vonir,  "þú skalt" getur gárað líðanina, "þú ert" getur beygt sjálfsmynd eða jafnvel brotið hana niður.

Af hverju erum við svona viðkvæm og hengjum okkur í það sem við okkur er sagt?  Það er enginn sem á orðin nema sá sem þau segir.  Við getum aldrei borið nokkra ábyrgð á því, sama hvað sagt er við okkur.  Það sem er sagt í góðri meiningu getur verið tekið á öfugsnúinn hátt allt eftir því hvernig hugarástandi hvor um sig er í.  Því það er öllum vel kunnugt að við komumst aldrei inn í kollin á neinum öðrum en okkur sjálfum og munum aldrei skilja hugarheim annara til fullnustu.  Þess vegna er svo auðvelt að misstúlka sögð orð.  Við þetta allt bætist svo, að við erum alin upp á svo ólíkan hátt og sama orðið getur haft ólíka merkingu í huga okkar.  

Þess vegna er ábyrgðarhluti yfir höfuð að opna munninn og tjá sig ef enginn á að særast eða móðgast eða misskilja.  En það væri sorgleg tilvera því þá mundu skoðanaskipti leggjast af og samtölin yrðu vélræn og eingönu í praktískum tilgangi.  

Í stað þess að vera í vörn/sókn í samtölum og tuðast yfir hvað sagt var, er gott að gera sér ekki rellu yfir hvernig hlutir eru sagðir, heldur leggja sig fram við að skilja hvað er verið að segja.  Það sem liggur að baki því sem sagt er.  Það gerum við með því að vera virkir hlustendur, taka eftir líkamstjáningunni, finna hvort viðkomandi er afslappaður, stressaður eða reiður.  Þá förum við að skilja betur hvaða hvatir liggja að baki orðanna og getum þá brugðist við á heilbrigðan hátt, án þess að taka inn á okkur persónulega hvað sagt er.

 

Höngum ekki í því sem sagt er.....ábyrgð orðanna liggur hjá mælandanum.... 

 

78c01d87a006469a2c536d4b0ad51656

 


Er slitið krossband "betra" en lungnaþemba?

Hljómar það á einhvern hátt heilbrigðara/skárra að leggjast inn á spítala vegna slitins krossbands eftir æfingu eða fjallgöngu en að leggjast inn vegna lungnaþembu eftir reykingar?  Þetta gæti sýnst fordómahlaðið, en er það ekki.

Ég vil byrja að taka það fram að ég hef alveg þurft að fara á spítala.  Fæddi þrjú börn á LHS á kostnað skattgreiðenda (ég og þið).  Fékk krabba og fór á LHS sömuleiðis í boði skattgreiðenda.  Var með minniháttar hjartagalla sem var lagaður á LSH...skattgreiðendur, kærar þakkir aftur.  Réð ekki við álag og endurtekin áföll og fékk aðstoð á LSH.   Er endalaust þakklát fyrir öll þessi skipti.  Takk fyrir að borga skattinn ykkar og ég borga minn með glöðu geði.

Þá kemur að þessu með krossbandið og lungnaþembuna;  Ég hef unnið í 27 ár á sjúkrahúsum, heilsugæslum og einkareknum rannsóknarstofum í þágu þeirra sem missa heilsuna.  Sömuleiðis hef ég síðustu ár unnið sem meðferðardáleiðir til þess að hjálpa fólki í sjálfshjálp.  Það sem ég hef lært er, að hver og einn vill það sama;  hamingju og heilbrigði!  Líka sá sem reykir.  Líka sá sem drekkur.  Líka sá sem er þunglyndur.  Líka sá sem er með sykursýki.  Líka sá sem slítur krossband á æfingu.

Það sem ég er að reyna að segja er, að kostnaðurinn við innlögn og meðferð er mikill sama hver ástæðan er.   Það er jafn mikið reykingarmanni að "kenna" að hann er með lungnaþembu og þeim sem stundar krefjandi líkamsæfingar að hann slíti líkamanum.  Eins er það mér að kenna að hafa átt börn þrisvar.  En það er ekki málið.  Við erum öll að reyna að finna til vellíðunar og það er ekki rétt að dæma þann sem liggur í hinu sjúkrarúminu.  Það er nær að sýna aðstæðum hvors annars skilning og styðja hvort annað í því að fá þá hjálp sem við þurfum þegar eitthvað bjátar á.  

 

Er þakklát fyrir aðgengi að læknisþjónustu, sama hvað bjátar á.........

 

photo2913

 

 

 

 


Dyggð 13: Mildi.

 

Það er allt of mikið um að mannskepnan leyfi hörkunni og hatrinu að vera drifkraftur í daglegum gjörðum sínum.  Birtingarmyndin getur verið dómharka, reiði, ótti, biturð, skammir, fyrirlitning, ofbeldi, kúgun......öll sú hegðun sem skaðar sjálfvirðingu þess sem beitir og þess sem verður fyrir. 

Mildi þýðir að ég sýni örðum hvorki andlegt né líkamlegt ofbeldi af neinu tagi, en þó ekki síður að ég forðist að skaða mína eigin sjálfsvirðingu.  Aðgæta hvernig mín innri samtöl við sjálfa mig eru.  Sýna sjálfri mér skilyrðislausa umhyggju.  Þess konar mildi gagnvart mér og samferðarfólki mínu ramma ég inn í siðferðileg gildi og leitast við að hafa þau sífellt að leiðarljósi.  

Það krefst þess að ég sé árvökul gagnvart viðbrögðum mínum og gæti hugsananna af næmni.  Þetta er ákvörðun og æfing.  Þegar ég hrasa (er mannleg), þá gæti ég þess að dæma mig ekki hart, heldur læra af því sem betur hefði mátt fara til að þroskast.

 

Þegar ég hef lært að sýna sjálfri mér mildi þá get ég komið mildilega fram við aðra......

 

6293675_f520

 


Hvað er gagnslaus vitneskja?

 

Pæling;  Ég lærði heilmikið í dag.  Sat áðan og hugleiddi hvaða gagn ég hefði haft af þekkingaröflun dagsins og stóð mig að því að flokka hana í tvennt;  Gagnleg þekking og gagnslaus þekking.  Hér er niðurstaðan (sem ég er síðan búin að endurmeta og tek saman í lok þessa bloggs):

 

 

1. Gagnleg þekking.

 

  • Vaknaði út frá óþægilegum draumi sem hefur bitið mig öðru hvoru.  Gaf mér tíma til að liggja upp í og hugsa um hann í stað þess að rjúka fram úr og byrja rútínu mánudagsins.  Fattaði samhengið; þegar ég er undir álagi og leyfi því að ná tökum á mér, þá dreymir mig sama vonda drauminn. Lærdómur; ekki trassa að slaka á, hugleiða, hreyfa mig og gæta að svefninum.
  • Er í tiltölulega nýju starfi og er ekki orðin rútineruð. Vinn með lífsýni sem er ekki hægt að bæta ef ég klúðra.  Var sybbin og þurfti því að einbeita mér harðar og fann að ég var þreytt. Ekki gott.  Lærdómur; sama og að ofan.
  • Í samtali við besta vin minn fann ég, að þrátt fyrir aldur, reynslu, áföll og þroska,  er enn haldin ótta við höfnun (sem er einstakt eða.....?).  Þess vegna vil ég alltaf gera allt svo svakalega vel og passa að öllum líði svo vel og séu svo glaðir.  Veit betur, en dett í þetta þegar ég er þreytt.  Lærdómur; sama og að ofan.

 

  

2. Gagnslaus þekking:

 

  • Lærði að eini munurinn á gleri og kristal er, að í blöndun glers er notað kalk en í blöndun kristals er notað blý.  Jei, gott að vita þegar maður ætlar næst að kaupa glas.... er betra að drekka úr kalkblöndu eða blýblöndu (svo ekki sé talað um verðmuninn)?
  • Lærði að QWERTY-lyklaborðið sem við þekkjum öll í dag var fundið upp af ritstjóranum Christopher Scholes 1873.  Það var allt öðruvísi í upphafi, en færir ritarar fóru svo hratt, að það var sífellt að flækjast og því var hönnuninni breytt eftir tíðni notaðra stafa.  Vííí, gott að vita. Sérstaklega þegar ritvélar eru ekki lengur í notkun.
  • Lærði að 1443 var hannað úrverk á Ítalíu sem gekk rangsælis (hefur ábyggilega verið kallað réttsælis þar).  Þetta var almennt viðurkennt til tímamælinga og má finna slíkt eintak á Dómkirkjunni í Flórens.  Lærdómur; hver segir hvað er rétt og hvað er rangt?!  

 

 

Þegar ég "hlusta eftir" hvernig mér líður við að velta fyrir mér lærdómi dagsins, þá tek ég eftir að þessi gagnslausi vekur með mér meiri kátínu.  Ég veit auðvitað að það er afar þakklætisvert að læra á sjálfan sig og horfast í augu við það sem betur má fara.  Það er betra "in the long run".  En ég get nú ekki sagt að ég hafi brosað breitt við að horfast í augu við höfnunaróttann.  Eða að þurfa að hægja á mér og sofa meira.. Ég get aftur á móti brosað út í annað við að fatta þetta með klukkuna. Það segir mér t.d. að það er ekkert til sem heitir að vera eðlilegur.  Ég ræð því bara alveg sjálf hvernig ég vil vera, svo framarlega sem ég særi engan með því.  

 

Niðurstaða: ég ætla að gera meira af því að afla mér gagnslausrar þekkingar...... 

 

Nothing-Happened-Laminin-Solutions-Information121blog-ID-18492-300x300

 

 

 


Dyggð 12: Agi

Það er sífellt verið að beita okkur aga meðan við erum að alast upp.  Þetta er n.k. ytri agi sem settur er af foreldrum, kennurum og eiginlega bara meira og minna öllu samfélaginu.  Þannig mótumst við og eigum að læra að verða ábyrgir fullorðnir einstaklingar.  

Sjálfráða þýðir ekkert annað en að við þurfum að hafa náð tökum á sjálfsaga.  18 ára og tilbúin.......eða hvað?  Þetta væri kannski ekki endilega svo flókið ef við vissum nákvæmlega hvað væri rétt og hvað væri rangt.  Þar stendur hnífurinn í kúnni; Við vitum að það er rangt að taka líf og eigur enda til skýr ákvæði um að það sé hreinlega refsivert.  En hvað þá með alla aðra hegðun sem er rétt í augum eins en röng í augum annara?  Mér finnst t.d. rangt að skamma barn fyrir að vera í fýlu eða fyrir að brjóta glas.  Mér finnst rangt að koma illa fram við afgreiðslufólk. Mér finnst rangt að láta saklaust fólk gjalda fyrir græðgi annarra.  Mitt uppeldi og persónulega lífsreynsla hefur mótað mitt siðferði og þess vegna verðum við aldrei alveg sammála um hvað sé rétt og rangt.  Ég hef komið mér upp gildum sem mér finnast vera rétt og sjálfsaginn heldur mér réttu megin við strikið. En þegar ég missi stjórn á sjálfri mér, linast í sjálfsaganum, þá fer ég yfir þessa fínu línu og þá á ég það til að refsa mér.  Tala mig niður, pirrast út í sjálfa mig og traðka þannig á sjálfsvirðingunni.

Ég vil halda sjálfsvirðingu minni heilbrigðri og sterkri og til þess bý ég mér til skýr og fullnægjandi lífsgildi.  Til þess að lifa eftir þeim þarf ég að búa yfir sjálfsaga.  Að aga mig krefst oft á tíðum fórna; t.d. fórna ég tímabundinni vellíðan, skammvinnu hrósi, peningum, eða "stöðu/almenningsáliti".  En launin verða ríkuleg:  Heilbrigð sjálfsvirðing, sterkt sjálfstraust og jákvætt viðhorf. Þannig eykst hæfni mín til að leysa úr verkefnum lífsins með hugrekki og á uppbyggilegan hátt.

 

En til að sýna sjálfsaga þarf ég að vita gildin mín.....

 

discipline

 

 

 


Dyggð 11. Ástundun.

 

Við þekkjum öll hvernig það er að vera í námi eða að byrja í nýrri vinnu.  Við eigum helling eftir að læra og tileinka okkur; ný handbrögð og ný vitneskja.  Til þess að geta öðlast þessa vitneskju og náð færni í vinnulagi, þá þurfum við að hafa þolinmæði, forvitni og vilja til að ástunda.  Smám saman finnum við að hlutirnir verða okkur auðveldari og við fáum staðfestingu með því að ljúka prófi eða vinnan verður eðlillegur hluti af okkur.  Og við erum tilbúin í meira nám eða stærri verkefni.

Það er engin klisja þegar talað er um "skóla lífsins" og gott er að heimfæra þessi vinnubrögð yfir á okkar daglega líf; ástundun.  Það er nokkuð ljóst að við tökum ekkert lokapróf í þessum skóla á meðan við drögum andann, en það mætti líta á hverja þá áskorun sem við mætum eins og einn áfanga.  Ef við sýnum þolinmæði og tökumst á við þessi verkefni með því að hlusta og læra, þá smátt og smátt eykst hæfni okkar til að leysa út þeim flæljum sem við mætum.  Því miður er mörgum okkar innrætt frá unda aldri að lífið eigi að vera gott og gaman;  "vertu ekki í þessari fýlu", "hættu nú að væla þetta", "ekki vera svo reið".  Þetta eru dæmigerðar uppeldis-setningar sem kenna okkur að það er vont og óæskilegt að líða ekki vel og best að troða þessum tilfinningum djúpt og skella í lás.  En þá er það í okkar hlutverki sem fullorðið fólk að taka ábyrgð og breyta þessum viðhorfum.  Lærum og tileinkum okkur ný viðhorf, nýjar nálganir og nýjar úrlausnir.  Með tímanum verður "verkfærakistan" okkar sífellt betur útbúin og í okkar valdi að ástunda að nota þau.  Við tökum mögulega ekki réttu verkfærin fram í hvert skipti, en þannig lærir maður best, á því að finna hvað virkar ekki.

 

Sinnum lífinu eins og hverju örðu námi, með opnum huga, fróðleiksfýsni og ástundun........

 

Diligence-in-Ldership-1024x512

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigríður Lárusdóttir

Höfundur

Sigríður Lárusdóttir
Sigríður Lárusdóttir
Í viðleitni minni til að halda andlegu jafnvægi mun ég bara blogga jákvætt og uppbyggjandi.....hvað held ég það lengi út?
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • internal-conversations-300x222
  • 41YPEWXf6OL. SX364 BO1,204,203,200
  • 14456633739 17cd93830a c
  • 1 OxPMWDQ1SXUdGG-EXgDBBQ
  • shame-quote-2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband