15.12.2014 | 14:17
Meika ég jólin?
Ég stend frammi fyrir að þurfa að "finna upp" jólahefðir. Þessar gömlu passa ekki því púslin eru allt önnur. Ég ætla bara að vera algjörlega opinská og berorð núna. Nenni ekki að fara eins og köttur í kringum heitan graut.
Já ég er að halda jól í fyrsta skiptið í 30 ár án þess að vera með maka, er fráskilin. Nokkuð af konum í mínum sporum hafa verið að skrifa pistla undanfarið um hvernig maður getur alveg átt æðisleg jól með mömmu að brúna kartöflur og pabba að gera sósu, gott ef amma eða afi voru ekki eitthvað að bardúsa líka. Sorrí, ég á ekki ömmu og afa né mömmu og pabba; sem sagt, þarf að treysta algjörlega á mig sjálfa ef þessi jól eiga að vera það vel lukkuð að ég geti látið mig hlakka til þeirra í nánustu framtíð.
Ég er reyndar svo lánsöm að ég á frábæra menn sem syni og yndislegar tengdadætur. Þetta eru púslin sem ég hef, þannig að ég hef undanfarið verið að virkja hugmyndaflugið í að setja saman hvernig við getum átt jákvæða og notalega samverustund þrátt fyrir "brotið" mynstur.
En á sama tíma hefur þessi staða fengið mig til að hugsa aðeins út fyrir mitt eigið líf og leiða hugann í átt til þeirra sem af einhverjum ástæðum halda ekki "glansmyndarjól" líkt og ég hef hingað til notið. Ekkjur, ekklar, sjúklingar, einstæðingar, fíklar, ofbeldisfólk.....það eru svo margir sem kvíða jólunum í skugga sorgar, fátæktar, reiði, veikinda, sársauka. Þessir einstaklingar eru ef til vill í aðstæðum sem eru svo langt frá jólagleði. Í nágrenni okkar er jafnvel fullorið fólk sem fékk ekki að kynnast gleði jólanna sem börn og bera enn með sér kvíða þegar jólin nálgast; vita hreinlega ekki hvernig eigi að finna eirð eða gleði um jólin. Ég hef hlustað á fólk tjá sig um kvíða vegna jólaboða, líði ekki vel í samskiptum við sína nánustu. Aðra sem segjast ekki sjá hvernig þeir geti glatt sig og sína.
Ég er ekki að draga niður stemninguna, heldur benda á að við þurfum að sýna náunganum aðgát og ekki gefa okkur að auglýsingabæklingarnir og jólablöðin sem inn um lúgurnar streyma séu fyrirmynd hinna eðlilegu jóla. Það væri svo gott ef við tækjum niður glans-grímuna og töluðum virkilega og hreinskilnislega um hvernig okkur líður í aðdraganda jólanna. Það gæti komið okkur á óvart hve mikinn samhug og skilning er að finna bara ef við tjáum okkur á hreinskilinn hátt.
Jólin koma og fara....það er í raun það eina sem við getum verið viss um. Ég ætla alla vega að láta allar væntingar lönd og leið og leyfa þeim bara að koma .....
Um bloggið
Sigríður Lárusdóttir
Tenglar
Mínir tenglar
- Amatör Fegurðin í þessu hversdagslega...
- https://www.facebook.com/permalink.php?story_fbid=1708919992726995&id=100008270322327&comment_id=1708940862724908¬if_t=feed_comment¬if_id=1459626107294223
Dáleiðslumeðferð
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 50193
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ný dögun - samtök um sorg og sorgarviðbrögð þakka þér fyrir pistilinn.
Það eru svo margir í þessum sporum. Margir sem bara bíða eftir því að jólin líði, því eins og hefðir geta verið yndislegar, þá upplifum við að sama skapi erfiðar tilfinningar þegar hefðirnar molna, án þess að við fáum rönd við reist.
Sendum hlýhug og kærleikskveðjur til allra sem eru einmana um jólin.
Ný dögun, samtök um sorg og sorgarviðbrögð
Hulda Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 17.12.2014 kl. 15:01
Bestu kveðjur til þín og hafðu þökk fyrir greinina þína. Ég segi alltaf að jólin eru ca bara ein helgi og ég skil ekki allt þetta tilstand og "hefðir"
Arndís Ásta Gestsdóttir (IP-tala skráð) 18.12.2014 kl. 13:20
Hver er sinnar gæfu smiður þegar öllu er á botninn hvolft. Það er okkar að vinna úr lífinu eins og okkur best er unnt. Nú vill svo vel til að sjálfur mun ég halda jólin einn í fyrsta skiptið á ævinni og í fyrsta skiptið í 30 ár án maka míns og besta vinar til þessara 30 ára. Ég skil þig því vel að það er þörf fyrir nýja hugsun og um leið að við séum meðvituð um að margir fleiri eiga "sérstök" jól og ekki allir gleðileg.
Óska þér og þínum og öllum sem lesa mínar bestu óskir um hamingjurík jól um leið og ég leyfi mér að minna á orð Dalai Lama um að hamingjan kemur innan frá - úr hjörtum okkar sjálfra !
Steini
Þorsteinn Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 19.12.2014 kl. 10:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.